15.07.2017 08:32

902. Vísir GK 70. TFAO.

Vísir GK 70 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1946 fyrir Útgerðarfélag Keflavíkur h/f í Keflavík. Eik. 53 brl. 200 ha. June Munktell vél. Frá árinu 1949 hét báturinn Vísir KE 70. Ný vél (1961) 220 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 2 júní 1970, Skipanausti h/f í Grindavík, hét Vísir GK 101. Seldur 17 september 1971, Klukku s/f í Grindavík, sama nafn og númer. Seldur 13 júní 1972, Guðmundi Haraldssyni í Grindavík, sama nafn og númer. Ný vél (1974) 350 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 10 mars 1977, Stefáni Aðalsteinssyni á Djúpavogi, báturinn hét Máni SU 38. Seldur 16 janúar 1980, Georg Stanley Aðalsteinssyni, Helga Heiðari Georgssyni og Guðjóni Aanes í Vestmannaeyjum, hét Nökkvi VE 65. Báturinn strandaði á Svínafellsfjöru um 4 sjómílum vestan Ingólfshöfða 9 maí 1980. Áhöfninni, 4 mönnum var bjargað á land af björgunarsveit Öræfinga. Nökkvi VE eyðilagðist á strandstað.


Vísi GK 70 hleypt af stokkunum hjá Marselíusi í janúar árið 1946.                 Mynd úr safni mínu.


Vísir KE 70. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.

                M.b. Vísir GK 70 

Eins og áður hefur verið getið um hér í blaðinu var stofnað Útgerðarfélag Keflavíkur h.f., að tilhlutan hreppsnefndarinnar skömmu eftir áramótin í fyrra. Tekin var ákvörðun um að láta byggja einn bát ca. 55 smálesta. Allar skipasmíðastöðvar voru önnum kafnar, þó tókst að semja um smíði bátsins við Skipasmíðastöð Marsilíusar Bernharðssonar á Ísafirði.
Báturinn átti að vera tilbúinn í vertíðarbyrjun og mun smíði hans þá að mestu hafa verið lokið, en nokkur töf varð á sumum vélarhlutum og seinkaði það afhendingu bátsins. 8. febrúar, þegar sólin var hæst á lofti (kl. 12), skreið skeiðin, fánum prýdd stafna á milli, inn í höfnina í Keflavík. Hafði báturinn þá hlotið nafnið Vísir, en einkennisstafir hans eru G. K. 70. M.b. Vísir er allra fegursta fley, vandað að öllum frágangi og öllu haganlega fyrirkomið, að því er séð verður við fljóta yfirsýn. Hann er 54 smálestir að stærð og drifin af 200 hestafla June Munktell vél. Hann gengur um 9 mílur. Í bátnum er dýptarmælir, talstöð og útvarpstæki, og ráðgert að setja fljótlega miðunarstöð í hann. Skipstjóri á Vísi er Árni Þorsteinsson en vélstjóri Sigurður B. Helgason.
Útgerðarfélag Keflavíkur h.f., sem er eigandi Vísis, var stofnað með almennri þátttöku Keflvíkinga. Keflavíkurhreppur á 1/10 hluta af innborguðu hlutafé en það eru um 100 þúsund. Gert er ráð fyrir að auka hlutaféð upp í 1/2 milljón. Framkvæmdastjóri félagsins er Albert Bjarnason en Ragnar Guðleifsson gjaldkeri. Fyrsta róðurinn fór Vísir sama kvöldið, er hann kom til Keflavíkur, en sneri við vegna slæms veðurútlits, og slapp þannig við aftakaveðrið 9. febrúar. Á leiðinni heim bilaði vélin, en þó komst hann heilu og höldnu að landi. Nú er hann búinn að fara marga róðra og hefur fiskað ágætlega.

Faxi. 2 tbl. 1 mars 1946.

   4 mönnum bjargað úr sjávarháska

     Nökkvi VE 65 strandaði vestur af                Ingólfshöfða í gærmorgun

Í gærmorgun strandaði vélbáturinn Nökkvi VE 65 frá Vestmannaeyjum rúmar þrjár sjómílur vestur af Ingólfshöfða. Fjórir menn voru á bátnum og tókst björgunarsveitum að bjarga þeim úr bátnum skömmu eftir hádegið í gær. Var báturinn að koma af veiðum, þegar skyndilega skall á ofsaveður, sem bar hann upp á rif. Það var um ellefu leytið í gærmorgun, sem Hornafjarðarradíói barst tilkynning um að vélbáturinn Nökkvi væri strandaður vestur af Ingólfshöfða. Þá var allhvasst á þessum slóðum, vindátt á norð-austan og níu vindstig. Báturinn hafði lent á rifi sem er vestur af Ingólfshöfða og braut mikið á honum. Sigldu nokkrir bátar á strandstað auk þess sem björgunarsveitir frá Hornafirði og Öræfum lögðu af stað þangað. Á flóðinu skömmu eftir strandið tók bátinn upp af rifinu og rak hann inn fyrir grunnbrot, þannig að sjór braut ekki lengur á honum.
Þá hafði einn bátanna á strandstað náð sambandi við björgunarsveitina og var þá björgunarsveitin í Öræfum komin á staðinn. Var hafist handa við að koma björgunarlínu út í bátinn og tókst það fljótt og vel. Var ákveðið að taka mennina fjóra strax í land, þar sem báturinn var farinn að liðast í sundur og sjór kominn í hann. Var björgunaraðgerðum lokið um tvöleytið í gærdag. Ekki var í gær útlit fyrir að hægt yrði að bjarga bátnum. Veður var slæmt og í dag var spáð hvassviðri á þessum slóðum.
Nökkvi VE 65 er 53 lestir að stærð. Hann var smíðaður á Ísafirði árið 1946.

Tíminn. 10 maí 1980.

         Arndís Pálsdóttir eiginkona                        skipstjórans á Nökkva

     "Ég átti þrjú mannslíf á bátnum"

"Ég átti þarna þrjú mannslif, svo ég hugsaði auðvitað mitt, þegar mér barst fregnin um strandið", sagöi Arndis Pálsdóttir, eiginkona Georgs Stanley Aðalsteinssonar skipstjóra á Nökkva VE 65, en Georg er jafnframt eigandi bátsins. Með honum voru tveir synir þeirra hjóna, annar tuttugu og eins árs, en hinn tuttugu og tveggja ára svo og Kári Sólmundarson. "En ég varð ekki eins hrædd og ég hefði ef til vill átt að verða", sagði Arndis. "Þetta eru nú einu sinni börnin okkar, en það spilar ef til vill inn í, að ég hef aldrei verið hrædd um manninn minn þegar hann hefur verið á sjó. Við megum sannarlega vera þakklát fyrir að ekki fór verr".

Tíminn. 10 maí 1980.

Flettingar í dag: 2149
Gestir í dag: 261
Flettingar í gær: 604
Gestir í gær: 107
Samtals flettingar: 1777705
Samtals gestir: 459630
Tölur uppfærðar: 24.2.2020 22:56:50