23.07.2017 21:10

69. Gullfaxi NK 6. TFCH.

Gullfaxi NK 6 var smíðaður í Djupvik í Svíþjóð árið 1962. Eik. 180 brl. 585 ha. Deutz díesel vél. Eigandi var Gullfaxi h/f í Neskaupstað frá 15 apríl sama ár. 12 janúar 1970 var skipið skráð í Vestmannaeyjum. Eigandi var Gullfaxi h/f í Vestmannaeyjum, sömu eigendur og áður. Skipið hét Gullfaxi VE 102. Selt 20 ágúst 1971, Drangi h/f í Þorlákshöfn, hét Ingvar Einarsson ÁR 14. Ný vél (1973) 610 ha. MWM díesel vél. Skipið brann og eyðilagðist þegar það var að veiðum í Reynisdýpi 11 desember árið 1974. Áhöfnin, 12 menn, bjargaðist um borð í Arnar ÁR 55 frá Þorlákshöfn.


Gullfaxi NK 6 á siglingu á Norðfirði.                                                                   (C) Vilberg Guðnason.


Gullfaxi NK 6 á síldveiðum.                                                                         (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Ingvar Einarsson ÁR 14.                                                                  (C) Snorri Snorrason.

                  Nýr Gullfaxi

Á annan páskadag kom hingað til bæjarins nýsmíðað fiskiskip, Gullfaxi NK 6. Þetta er mikið skip, 180 tonn að stærð, smíðað úr eik í Djupvik í Svíþjóð eftir teikningu Egils Þorfinnssonar. Eigandi Gullfaxa er samnefnt hlutafélag, en aðalhluthafar eru Ármann Eiríksson og Þorleifur Jónasson, sem sigldi skipinu til landsins og verður skipstjóri á því. Ólafur Eiríksson er fyrsti vélstjóri. Aflvél skipsins er 585 ha. Deutz. Skipið er mjög vel búið að öllu leyti og sýnilega ekkert til sparað að gera það sem bezt úr garði bæði hvað snertir aðbúð áhafnar, öryggisútbúnað og hverskonar tækni útbúnað til veiða og siglinga. Gullfaxi er næststærsta skip, sem nú er í eigu Norðfirðinga. Sýnilegt er, að hann ber mjög mikið, t. d. af síld. Skipið er tilbúið til síldveiða og mun í ráði, að það fari þegar á síld.

Austurland. 27 apríl 1962.

  Þorlákshafnarbátur gjöreyðilagðist í eldi

                Engin slys á mönnum  

Vélskipið Ingvar Einarsson ÁR 14 stórskemmdist af eldi í gær, en engin slys urðu þó á mönnum. Skipið var statt út af Vík í Mýrdal, er eldurinn kom upp og fékk áhöfnin, 12 manns, við ekkert ráðið. Vélskipið Arnar kom á vettvang og dró hið brennandi skip inn á Dyrhólaós, þar sem því var rennt upp í fjöru. Þar slökkti Slysavarnadeildin Víkverji í skipinu, en kjarni deildarinnar er jafnframt kjarni slökkviliðsins í Vík. Er jafnvel talið, að Ingvar Einarsson sé gjörónýtur. Samkvæmt upplýsingum Hannesar Hafstein, framkvæmdastjóra Slysavarnafélags Íslands, gerði Vestmannaeyjaradíó félaginu viðvart um neyð skipsins. Var hið brennandi skip þá statt nokkuð djúpt úti af Vík í Mýrdal, nánar tiltekið 12 sjómílur frá Reynisfjalli og 11 sjómílur frá Hjörleifshöfða. Var þá mikill eldur um borð. Jafnframt var vitað að Arnar ÁR 55, en bæði þessi skip eru gerð út frá Þorlákshöfn, var farinn áleiðis til Ingvars Einarssonar. Eldurinn kom upp aftantil í skipinu og var hvað magnaðastur í vélarrúmi og stýrishúsi.
Áhöfnin gat ekki hafzt þar við og urðu mennirnir að halda til frammi í skipinu, þar sem þeir höfðu neyðartalstöð. Gátu þeir ekki við neitt ráðið. Um klukkan 12,30 kom Arnar að Ingvari Einarssyni og fór þá áhöfn Ingvars yfir í Arnar og hafði þá jafnframt verið komið fyrir dráttartaug milli skipanna. Hélt Arnar svo af stað með bátinn til lands. Slysavarnafélagið lét björgunarsveit sína, Víkverja í Vík, vita af þessu og var sveitin tilbúin á ströndinni, ef á þyrfti að halda.
Þegar Arnar kom síðan upp undir land með bátinn þá var sýnt, að ekki var unnt að koma línu milli lands og báts vegna brims við ströndina. Var því ákveðið að fara með brennandi bátinn vestur fyrir Reynisfjall og reyna við Dyrhólaósinn. Þangað var komið klukkan liðlega 14 í gær, en þar voru þá komnir björgunarsveitarmenn úr Víkverja, sem jafnframt eru í slökkviliðinu í Vík, með slökkvibíl, veghefil og bíl með drifi á öllum hjólum. Var línu skotið út í bátinn og hann síðan dreginn upp í sandinn.
Komust björgunarsveitarmenn um borð og slökktu eldinn. Klukkan 16 tilkynntu þeir lóranstöðinni að eldurinn hefði verið slökktur. Strax og fréttist um eldsvoðann sást frá Reynisfjalli til bátsins og var þá mikill eldur í bátnum og risu miklar eldtungur frá honum, aðallega frá skut og miðskips. Þess má og geta að Lóðsinn í Vestmannaeyjum lagði af stað með dælur strax og fréttist um eldsvoðann, en hann náði ekki í tæka tíð. Vélbáturinn Ingvar Einarsson var eikarbátur, smiðaður í Sviþjóð 1962, 140 brúttórúmlestir að stærð og hét áður Gullfaxi VE 102 frá Vestmannaeyjum. Var báturinn í fyrsta flokks standi og hið bezta skip, er eldurinn kom upp. Er hann nú gjörónýtur. Þá ber þess að geta, að síðdegis í gær kom aftur upp eldur í bátnum, þar sem hann lá í Dyrhólaósi, en fljótiega var slökkt í honum aftur. Arnar var í gærkvöldi væntanlegur með áhöfn Ingvars Einarssonar til Þorlákshafnar.

Morgunblaðið. 12 desember 1974.

Flettingar í dag: 561
Gestir í dag: 152
Flettingar í gær: 1373
Gestir í gær: 429
Samtals flettingar: 1924927
Samtals gestir: 488262
Tölur uppfærðar: 15.7.2020 23:05:57