14.08.2017 17:31

B. v. Baldur RE 146. LBMN.

Baldur RE 146 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1912 fyrir Trawlfélagið Bræðurnir Thorsteinsson í Reykjavík. 291 brl. 520 ha. Triple Expansion vél. Smíðanúmer 515. 17 desember árið 1913, tók nýstofnað félag, Fiskiveiðahlutafélagið Bragi í Reykjavík við rekstri Baldurs og einnig systurskipi hans, Braga RE 147 sem Trawlfélagið átti einnig. Togarinn var seldur til Frakklands í nóvember árið 1917.


B.v Baldur RE 146 við Oddeyrartangann á Akureyri.                            (C) Hallgrímur Einarsson.


B.v. Baldur RE 146. Málverk.                                                         Málari óþekktur. Mynd í minni eigu.


B.v. Baldur RE 146.                                                                                            Mynd á gömlu póstkorti.


Um borð í togaranum Baldri RE 146 árið 1912-13.    (C) Magnús Ólafsson.


Fiskur flattur um borð í togaranum Baldri RE 146 árið 1912-13.  (C) Magnús Ólafsson.

               Nýr botnvörpungur

Á sunnudagsnóttina kom hingað annar nýi botnvörpungurinn Thorsteinssonsbræðra. Sá heitir Baldur og er Kolbeinn Þorsteinsson skipstjóri. Baldur er hið prýðilegasta skip.

Ísafold. 2 mars 1912.

   Trawlfélagið Bræðurnir Thorsteinsson
         og Fiskiveiðahlutafélagið Bragi

Fyrstir til þess að hefja togaraútgerð á tímabilinu 1911-17 voru þeir bræður Pétur Jens og Þorsteinn Thorsteinsson, eða P.J. og Th. Thorsteinsson eins og þeir voru venjulega kallaðir. Pétur hafði losað sig úr Milljónafélaginu og gengið til samstarfs við bróður sinn, Þorstein, sem rak umfangsmikla verslun í Reykjavík undir nafninu Liverpool. Þeir kölluðu útgerð sína Trawlfélagið Bræðurnir Thorsteinsson og byrjuðu með því að taka tvo enska togara á leigu í vetrarvertíð 1911. Þeir hétu Vale of Lamox og Wetherley. Síðan létu þeir bræður smíða fyrir sig tvo togara í Englandi er nefndir voru Baldur og Bragi, og komu þeir til landsins snemma árs 1912. Svo virðist sem bræðurnir hafi fljótlega viljað slíta samstarfinu því Pétur hvarf úr félaginu í desember árið 1913. Var það þó um stuttan tíma rekið áfram undir sama nafni, en skipstjórarnir á Baldri og Braga, þeir Kolbeinn Þorsteinsson og Jón Jóhannesson gerðust samstarfsmenn Þorsteins. Hinn 17 desember 1913 var stofnað Fiskiveiðahlutfélagið Bragi er tók við af hinu fyrra félagi. Hlutafé þess var 80 þús. Kr. Stjórn félagsins skipuðu tveir kaupmenn auk Þorsteins, þeir Guðmundur Olsen og Siggeir Torfason. Þetta félag starfaði út tímabilið, en seldi togara sína til Frakklands 1917. Th. Thorsteinsson hafði mikla fiskverkunarstöð á Ytra-Kirkjusandi í Reykjavík. Var reist þar þurrkhús, þar sem þurrka mátti saltfisk við ofnhita.
 Pétur J. Thorsteinsson hætti ekki afskiptum af togaraútgerð, þó að hann sliti samstarfi við bróður sinn, því að hann var þá þegar orðinn einn af eigendum í Fiskiveiðafélaginu Hauki, er stofnað var um haustið 1912, og einnig framkvæmdastjóri þess. Þetta félag lét smíða í Englandi stærsta togara, er Íslendigar eignuðust fyrir fyrra stríð, en það var Ingólfur Arnarson. Haukur var sameignarfélag, er eftirtaldir menn áttu: Pétur Jens Thorsteinsson, Jóhannes Magnússon, kaupmaður í Reykjavík, Jón Magnússon fiskmatsmaður, Ingimundur Jónsson kaupmaður, Þorsteinn Jónsson járnsmiður, Sveinn Björnsson málflutningsmaður, Pétur Bjarnason skipstjóri og Jón Einarsson frá Vestmannaeyjum. Átti hver þeirra 1/8 hlut í félaginu. Annan togara keyptu þeir frá Hollandi árið 1916, og hét sá Þorsteinn Ingóflsson. Bæði skipin voru seld til Frakklands 1917.

Saga Íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917.
Heimir Þorleifsson. 1974.

             Árekstrarnir á höfninni

Það var botnvörpungurinn Baldur, með frakkneskri áhöfn, sem gerði uslann á höfninni í fyrrakvöld. Skemmdirnar á vélbátnum »ÚIfur« voru töluverðar; höfðu brotnað aftan á bátnum sperrur og annað. Þó eru þær skemmdir eigi nema lítilræði hjá hinum sem urðu á danska seglskipinu Helenu. Er talið víst að það muni kosta mörg þúsund krónur að gera við skipið, svo það verður alldýr ferð, sem »Baldur« fór um höfnina, þó eigi væri hún löng.

Morgunblaðið. 22 nóvember 1917.

Flettingar í dag: 363
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 196
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 722549
Samtals gestir: 53632
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 19:37:04