20.08.2017 00:21

2893. Drangey SK 2. TF...

Drangey SK 2 var smíðuð hjá Cemre Shipyard í Istanbul í Tyrklandi árið 2017 fyrir Fisk Seafood ehf á Sauðárkróki. 2.081 bt. Yanmar,stærð óþekkt. Drangey SK var hönnuð af Skipatækni ehf í Reykjavík. Haukur Sigtryggur Valdimarsson sendi mér þessar myndir af togaranum þegar hann kom til heimahafnar á Sauðárkróki. Þakka ég honum fyrir afnotin af þeim. Skipstjóri á Drangey er Snorri Snorrason. Óska útgerð, áhöfn og öllum Sauðkræklingum til hamingju með þetta glæsilega skip.


2893. Drangey SK 2.                                                                      (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2893. Drangey SK 2.                                                                  (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2893. Drangey SK 2.                                                                  (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2893. Drangey SK 2.                                                                      Mynd af vefsíðu Fisk Seafood ehf.


Skipstjórinn Snorri Snorrason með fallegan blómvönd.            (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

                Drangey SK 2

Nýr togari FISK Seafood, Drangey SK-2, hélt af stað heim föstudaginn 4. ágúst. Áætlaður siglingartími í Skagafjörðinn er um hálfur mánuður og því áætluð heimkoma í kringum 18. ágúst.
Skipið var smíðað hjá Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Skrifað var undir samning um smíði á skipinu þann 24. júlí 2014. Skipið var sjósett þann 22. apríl síðastliðinn og afhent formlega þann 26. júlí í Tyrklandi.
Á Sjávarútvegssýningunni í Brussel þann 25. apríl síðastliðinn var skrifað undir samning við Skagann 3X um smíði á vinnslubúnaði á millidekkið á skipinu. Búnaðurinn er ofurkælibúnaður líkt og er um borð í Málmey SK-1.
Drangey er þriðja af fjórum systurskipum sem smíðuð eru hjá Cemre. Hin þrjú skipin, Kaldbakur, Björgúlfur og Björg, fara til Samherja og ÚA. Skipin eru hönnuð af Verkfræðistofunni Skipatækni og Bárði Hafsteinssyni. Skipið er tæknilega fullkomið og við hönnun var lögð áhersla á hagkvæmni í orkunýtingu. Drangey er 62,5 metra langt skip og 13,5 metra breitt. Skipið er með nýstárlegt skrokklag og stórt og áberandi perustefni sem á að tryggja betri siglingareiginleika, meiri stöðugleika og aukna hagkvæmi. Skipið er skráð 2081 brúttótonn, hefur 14 hnúta hámarks siglingarhraða og 40 tonna togkraft. Skipstjóri á skipinu er Snorri Snorrason.
Það eru rúm 44 ár síðan það kom síðast nýsmíðaður togari á Sauðákrók. Það skip hét líka Drangey en bar einkennisstafina SK-1. Það skip kom í fjörðinn frá Japan þann 8. maí 1973. Drangey kemur til með að leysa Klakk SK-5 af hólmi en Klakkur er 40 ára gamalt skip.

Af vefsíðu FISK Seafood ehf.

Flettingar í dag: 110
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 455
Gestir í gær: 139
Samtals flettingar: 1867692
Samtals gestir: 480196
Tölur uppfærðar: 4.6.2020 03:49:00