27.10.2017 14:11

B. v. Leifur heppni RE 146. LCHW.

Botnvörpungurinn Leifur heppni RE 146 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir Firmað Geir & Th. Thorsteinsson í Reykjavík. Kom nýsmíðaður til Reykjavíkur þann 8 apríl sama ár. 324 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Togarinn fórst út af Vestfjörðum ásamt Hellyerstogaranum Fieldmarshal Robertson H 104, í Halaveðrinu mikla, 7 eða 8 febrúar árið 1925 með allri áhöfn, 32 mönnum.


B.v. Leifur heppni RE 146 á Patreksfirði.                                                      (C) Ólafur Jóhannesson.


B.v. Leifur heppni RE 146 á Patreksfirði.                                                       (C) Ólafur Jóhannesson.

                    Halaveðrið

Laugardaginn 7. febrúar komu starfsmenn veðurstofunnar til vinnu klukkan sex. Þeir hófu þegar að vinna úr veðurskeytum og útbúa veðurspá dagsins. Spáin var tilbúin um klukkan hálf níu og sendi loftskeytamaður stofunnar hana út með mors-lyklinum. Samtímis bárust veðurfregnirnar til þeirra skipa er höfðu morsmóttökutæki. Ljóst var að djúp og kröpp lægð nálgaðist landið. Bátar frá verstöðvum við Faxaflóa höfðu haldið til veiða um morguninn. Upp úr hádegi var orðið það hvasst, að ekki var lengur veiðiveður. Þeir sneru því til hafnar og voru að tínast inn, fram eftir deginum. Síðdegis voru þeir allir komnir til lands, nema línubáturinn Sólveig. Var fljótlega farið að óttast um afdrif bátsins, en hann hafði verið á veiðum úti af Stafnesi. Þegar var hafin leit, gengnar voru fjörur og leitað á sjó. Fannst brak úr bátnum og var þá Sólveig talin af og með henni sex menn. Víkur nú sögunni vestur á Halamið, þar sem glíman við Ægi varð hvað hörðust og ægilegust. Þar voru 16 togarar á meðan óveðrið gekk yfir 7. og 8. febrúar.  
Þetta voru íslensku togararnir Ari, Ása, Draupnir, Egill Skallagrímsson, Gulltoppur, Gylfi, Hilmir, Jón forseti, Leifur heppni, Njörður, Surprise, Tryggvi gamli og Þórólfur. Auk þeirra voru þrír enskir togarar, sem gerðir voru út frá Hafnarfirði af bræðrunum Hellyer. Íslenskar áhafnir og skipstjórar voru á þeim að mestu leyti. Þetta voru togararnir Ceresio, Earl Haig og Fieldmarshall Robertson. Togaramir höfðu verið að toga fram eftir morgni þann 7. febrúar, en fengið lítinn afla. Þó hafði Leifur heppni veitt vel um nóttina og var hann að ljúka fengsælum veiðitúr. Um hádegi hættu flestir togararnir að toga, drógu inn vörpuna og tóku að ganga frá. Gert var að aflanum, varpan bundin og allt lauslegt á dekkinu kyrfilega fest. Egill Skallagrímsson, Hilmir og Gulltoppur sigldu framhjá Leifi heppna skömmu eftir hádegi; var Leifur þá enn að veiðum og stóðu menn í aðgerð á þilfari, enda var þar þó nokkuð af fiski. Síðdegis þennan laugardag var komið fárviðri og illt í sjó. Togararnir sneru upp í storminn, því þannig vörðust þeir best sjógangnum. Stórsjór reið yfir skipin og hættan á því að brotsjór skylli á þeim var gífurleg. Við bættist ísing sem hlóðst á togarana; urðu möstrin sver sem reykháfar af hennar völdum. Þrátt fyrir ítrustu varkárni á siglingu í svona veðri, varð varla komist hjá skakkaföllum. Flestir togararnir urðu fyrir brotsjó. Earl Haig varð fyrir því tvisvar í þessum túr:


Líkan af togaranum Leifi heppna RE 146.                                                  Ljósmyndari óþekktur. 
  
Um leið reið brotsjórinn fram yfir skipið, bakborðsmegin. Þeir vissu ekki fyrr til en þeir lágu í sjó, sem þeytti þeim sitt á hvað, og allt í einu var ekkert þak á brúnni lengur. Sjórinn reif stýrishúsið af fyrir ofan brjósthæð. Gluggar, þak og hurðir þeyttust út á sjó. Um leið kastaðist skipið enn á hliðina og lá nú með möstrin í sjó.  Sjórinn reif allt með sér, þegar hann gekk yfir togarana. Hann braut flesta björgunarbátana, tók með sér lifrarfötin og kastaði öllu til í lestunum. Við það fengu togararnir slagsíðu, þar sem kol, salt og fiskur kastaðist út í aðra hliðina en hásetarnir stóðu í stöðugum mokstri til þess að rétta þá af. Sjór flæddi inn í vélarrúm og vistarverur neðan þilja, þannig að vatnsaustur bættist ofan á aðra vinnu sjómannanna. Dælur skipanna vildu stíflast af völdum kola, er settust í þær, og vélstjórarnir börðust við að halda kötlunum logandi og vélunum gangandi. Þetta var erfitt verk, einkum eftir að sjór flæddi niður í vélarrúmin. Hitnaði sjórinn fljótlega og vélstjórarnir brenndust á fótum við að standa í honum. Þannig börðust sjómennirnir í nær tvo sólarhringa við náttúruöflin. Veðrinu slotaði ekki fyrr en aðfaranótt mánudagsins 9. febrúar. Þá töldu skipstjórarnir óhætt að snúa togurunum undan veðrinu og halda til lands. Þau skip sem best voru á sig komin héldu til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar en hin leituðu hafna á Vestfjörðum. Erfiðlega gekk að ná til Vestfjarða símleiðis, þar sem símalínur höfðu eyðilagst í fárviðrinu. Flest loftnet togaranna höfðu brotnað niður vegna ísingar enda gekk seint að ná sambandi við þá eftir að veðrinu slotaði. Því dróst að farið væri að örvænta um þau skip sem ekki náðist í. Togararnir sem ekki höfðu loftnet fengu önnur skip til að senda skeyti til heimahafna sinna. Af þeim skeytum sem fyrst bárust til Reykjavíkur sáu menn að togaraflotinn hafði lent í alvarlegum vandræðum á Halamiðum.


B.v. Leifur heppni RE 146 á siglingu.                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Þegar leið á vikuna, höfðu allir togararnir tilkynnt sig nema Leifur heppni frá Reykjavík og Fieldmarshall Robertson frá Hafnarfirði. Til þeirra hafði sést eftir að óveðrið hófst. Eins og áður sagði, þá stóðu mennirnir á Leifi heppna enn í aðgerð, er þrír togarar sigldu framhjá seinnihluta laugardagsins 7. febrúar. Draupnir sigldi framhjá Fieldmarshall Robertson skömmu eftir að óveðrið skall á. Einnig hafði verið haft loftskeytasamband við hann fram eftir kvöldi og mun Tryggvi gamli einna síðast hafa gert það; var þá allt með felldu um borð. Hvorugur togarinn hafði gefið út neyðarkall. Eigendur þeirra leituðu til íslenskra stjórnvalda þann 11. febrúar og óskuðu eftir að varð- skipið Fylla yrði sent til leitar. Eins og áður gat, voru Hellyerbræður eigendur Fieldmarshall Robertson en eigandi Leifs heppna var útgerðarfélagið Geir Thorsteinsson og Co. Varðskipið Fylla og togarinn Ceresio voru þegar send til leitar, en hvorugt skipanna varð vart við hina týndu togara. Togaraeigendur komu því saman til fundar og ákváðu að senda hóp togara til þess að leita skipulega. Sunnudaginn 15. febrúar hófst skipulögð leit, þar sem skipin sigldu með ákveðnu millibili á um 90 mílna svæði. Þannig áttu þau að kemba það svæði, þar sem talið var líklegast að þá væri að finna. Togararnir sigldu meðan bjart var en héldu kyrru fyrir á næturnar. Þessi víðtæka leit reyndist árangurslaus. Skipin tvö voru talin af og með þeim fórust 67 menn, sex Englendingar og 61 íslendingur.

Sagnir. 1 apríl 1984.

       Þeir sem fórust með togaranum 
                 Leifi heppna RE 146

Á »Leifi heppna« voru þessir 32 menn:
Gísli M. Oddson, skipstjóri, Skólavörðustíg 3 B. Ingólfur Helgason, 1. stýrimaður, Hafnarfirði. Ásgeir Þórðarson, 2. stýrimaður, Bergstaðastræti. 37. Valdemar Árnason, 1. vélstjóri, Hverfisgötu 16. Jón Halberg Einarsson, 2. vélstjóri, Njálsgötu 39 B. Magnús Brynjólfsson, loftskeytamaður, Lindargötu 14. Jón Cornelíus Pétursson, bátsmaður, Vesturgötu 25 B. Ólafur Jónsson, matsveinn, Laugaveg 38. Sigmundur Jónsson, háseti, Laugaveg 27. Stefán Magnússon, háseti, Njálsgötu 32 B. Jón Guðmundsson, háseti, Frakkastig 23. Ólafur Gíslason, háseti, Hverfisgötu 32. Þorbjörn Sæmundsson, háseti, Bergþórugötu 4. Oddur Rósmundsson, háseti. Bergþórugötu 7. Ólafur Brynjólfsson, háseti, Lindargötu 14. Jónas Guðmundsson, háseti, Akranesi. Sveinbjörn Elíasson, háseti, Bolungavík. Sigurður Guðmundsson, háseti, Önundarfirði. Sigurjón Jónsson, háseti, Bergstaðastræti 30 B. Helgi Andrésson, háseti, Mjóstræti 4. Jón Sigmundsson, háseti, Laugaveg 50. Jón Hálfdánarson, háseti, Hafnarstræti 18. Randver Ásbjörnsson, háseti, Rauðarárstíg 9, Jón Jónsson, háseti, Austurstræti 11. Sigurður Lárusson, háseti, Bröttugötu 6. Sigurður Jónssson, háseti, Miðstræti 8 B. Sigurður Albert Jóhannesson, háseli, Hverfisgötu 16. Sveinn Stefánsson, háseti, Miðhús í Garði. Þorlákur Einarsson, háseti, Rúfeyjum, á Breiðafirði. Jón Sigurðsson, háseti, Sveinseyri, Dýrafirði. Ólafur. Þorleifsson, kyndari, Vatnsstíg 4, Björgvin Kr. Friðsteinsson, kyndari, Laufásvegi 27.

Ægir. 1 mars 1925.


Flettingar í dag: 647
Gestir í dag: 255
Flettingar í gær: 666
Gestir í gær: 196
Samtals flettingar: 1962301
Samtals gestir: 496948
Tölur uppfærðar: 11.8.2020 16:21:45