28.10.2017 19:59

Langanes NK 30. TFJV.

 Langanes NK 30 var smíðaður hjá Dráttarbrautinni h/f í Neskaupstað árið 1956. Eik. 59 brl. 280 ha. Mannheim díesel vél. Langanesi var hleypt af stokkunum 21 febrúar sama ár. Eigendur voru bræðurnir Ársæll og Þorsteinn Júlíussynir útgerðarmenn í Neskaupstað frá 24 janúar 1956. Báturinn sökk um 18 sjómílur norðvestur af Vestmannaeyjum, 21 febrúar árið 1959 eftir að mikill og óstöðvandi leki kom að honum. Áhöfnin, 6 skipverjar, komust í björgunarbátanna og var þaðan bjargað um borð í Goðaborg NK 1 frá Neskaupstað. Hafði Langanesið verið gert út frá Vestmannaeyjum um veturinn. Skipstjóri á bátnum var Einar Guðmundsson. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem Norðfirskir sjómenn bjargast í gúmmíbjörgunarbát af Norðfjarðarbáti sem ferst.
Langanes sökk nákvæmlega þremur árum eftir að því var hleypt af stokkunum hjá Dráttarbrautinni h/f í Neskaupstað.


Langanes NK 30 á síldveiðum.                                                                    (C) Gunnar Þorsteinsson.

               Langanes NK 30

Þriðjudaginn 21. febrúar var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð Dráttarbrautarinnar h. f. nýjum fiskibáti nær 59 lesta stórum. Hlaut hann nafnið Langanes N. K. 30. Eigendur hans eru bræðurnar Ársæll og Þorsteinn Júlíussynir, Langanes fór áleiðis til Keflavíkur um mánaðamótin, en þaðan verður það gert út í vetur. Langanes er sterklegur bátur og vel útbúinn. Meðal annars hefur hann fisksjá og 10-12 manna gúmmíbjörgunarbát. Í bátnum er 240-375 ha. dieselvél og er ganghraði a. m. k. 13 sjómílur. Báturinn var smíðaður eftir teikningu Egils Þorfinnssonar, skipasmíðameistara í Keflavík. Yfirsmiður var Sverrir Gunnarsson. Vélsmiðja Dráttarbrautarinnar annaðist niðursetningu vélar og fleira þar að lútandi. Yfirmaður vélsmiðjunnar er Reynir Zoega. Raflagnir annaðist Raftækjavinnustofa Kristjáns Lundberg. Á nýsköpunarárunum voru smíðaðir hér þrír fiskibátar, en síðan hefur nýsmíði legið niðri. Það er mjög ánægjulegt að þessi iðnaður skuli hafinn að nýju, því hann er ákaflega mikils verður. Og ekki mun skipasmíðastöðina skorta verkefni á næstunni, því hún hefur tekið að sér smíði þriggja báta til viðbótar. Langanes mun vera stærsti báturinn sem smíðaður hefur verið á Austurlandi til þessa. Skipstjóri á bátnum er Þorsteinn Júlíusson, annar eigandi hans. Austurland óskar eigendum Langaness til hamingju með þennan myndarlega bát.

Austurland. 17 mars 1956.


Langanes NK 30 í smíðum hjá Dráttarbrautinni sumarið 1955.                  (C) Gunnar Þorsteinsson.


Langanes NK 30 nýsmíðaður á Norðfirði.                                               (C) Gunnar Þorsteinsson.


Langanes NK 30 að landa síld á Vopnafirði.                                               Ljósmyndari óþekktur.

 Vélbáturinn Langanes frá Neskaupstað           sökk á Eyjamiðum - mannbjörg

     Skipverjar fóru í gúmbjörgunarbát og vélbáturinn                 Goðaborg tók þá upp síðar - Langanes sökk á                                       skammri stundu

Rétt eftir hádegið í gær sendi vélbáturinn Langanes frá Neskaupstað út hjálparbeiðni, þar sem hann var staddur 18 sjómílur norðvestur af Vestmannaeyjum. Var mikill sjór kominn í skipið og óttuðust skipverjar, að Langanes myndi sökkva. Bátar þeir, er nærstaddir voru, brugðu skjótt við, skáru sumir frá sér línuna og héldu á slysstaðinn. Langanesið sökk skömmu síðar, en mannbjörg varð.
Vélbáturinn Langanes var eign bræðranna Þorsteins og Ársæls Júlíussona, en þeir eru Norðfirðingar. Báturinn var byggður í Skipasmíðastöð Neskaupstaðar árið 1956. Var hann úr eik, 59 smálestir með Mannheim dísilvél 250 hestafla. Voru einkennisstafir bátsins NK 30. Undanfarnar tvær vertíðar hefur Langanesið verið gert út frá Vestmannaeyjum og hefir það reynzt ágætlega. Skipstjóri í vetur var Einar Guðmundsson frá Sandvík, en hann er nú búsettur á Norðfirði, en skipverjar auk hans voru fimm.
Klukkan tíu mínútur yfir tvö sökk Langanesið og voru skipverjar þá komnir í gúmbjörgunarbát, en þess varð ekki langt að bíða, að bátar komu hinum nauðstöddu mönnum til hjálpar. Var það Norðfjarðarbáturinn Goðaborg NK 1, sem tók mennina um borð og flutti þá til Vestmannaeyja, en þangað komu þeir um klukkan 8 í gærkveldi.
Skipverjum leið vel við komuna til Vestmannaeyja og hafði þeim gengið vel að komast í björgunarbátinn. Þeir gátu enga skýringu gefið á orsök þess, að báturinn sökk. Veður var allhvasst en sjólítið. Hið fyrsta sem menn urðu varir við lekann, var það að matsveinninn var að störfum frammi í hásetaklefa. Tók hann þá allt í einu eftir því, að gólfhlerarnir flutu upp. Var þá hugað í vélarrúm, og var kominn mikill sjór í það og hækkaði hann ört. Seig báturinn  fljótt, og var sýnt að ekki var annað að gera en fara í gúmbátanna. Sendu skipverjar þá út neyðarkall, sögðu að báturinn væri að sökkva og þeir væru að fara í bátana. Voru þeir nýlega búnir að losa gúmbátinn við skipið er Goðaborg kom.

Tíminn. 22 febrúar 1959.

Flettingar í dag: 583
Gestir í dag: 244
Flettingar í gær: 666
Gestir í gær: 196
Samtals flettingar: 1962237
Samtals gestir: 496937
Tölur uppfærðar: 11.8.2020 15:25:23