07.11.2017 10:21

L. v. Ólafur Bjarnason MB 57. LCKJ / TFGE.

Línuveiðarinn Ólafur Bjarnason MB 57 var smíðaður í Einswarden í Þýskalandi árið 1911. 141 brl. 200 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét áður Siegfried og var gert út frá Cuxhaven til veiða í Norðursjó. Eigandi var Bjarni Ólafsson útgerðarmaður á Akranesi frá 9 júlí árið 1926. Skipið var selt 7 október 1929, Fiskiveiðahlutafélaginu Ármanni í Reykjavík, hét Bjarki RE 4. Skipið var selt 25 júlí 1932, Samvinnuútgerð sjómanna á Siglufirði, hét Bjarki SI 33. Selt 21 desember 1933, Eyþóri Hallssyni á Siglufirði. Eigandi skipsins frá 1939 var Steindór Hjaltalín á Siglufirði. Skipið var lengt veturinn 1943-44 í gamla slippnum á Akureyri, mældist þá 176 brl. Selt 29 janúar 1946, Jens Eyjólfssyni og fl. á Akureyri, hét Bjarki EA 764. Talið ónýtt og selt til niðurrifs árið 1956.
Þetta skip átti merka sögu hér á landi. Fyrir það fyrsta, þá var það tekið fyrir að smygla áfengi til landsins árið 1925, hét þá Siegfried og kom hingað með fullar lestar af spíra, koniaki og fl. Var skipið gert upptækt og síðar selt Bjarna Ólafssyni eins og segir hér að ofan. Einnig mun skipið (Bjarki SI 33) vera fyrsta stálskip sem lengt var hér á landi.


Línuveiðarinn Ólafur Bjarnason MB 57.                                                           Ljósmyndari óþekktur.

"Smyglskipið" Siegfried frá Cuxhaven

Það er upphaf þessa kapítula, að bryti einn af íslenzku strandferðaskipi, sem grannt hafði kynnzt því, hvar skórinn kreppti að, var á ferðalagi í Þýzkalandi um það bil, er sól tók heldur að hækka á lofti norður hér. Kynntist hann manni einum í Hamborg, sem auðvitað var doktor eins og títt er um Þjóðverja. Bar margt á góma þeirra á milli, því að þetta voru menn, sem fundu til í stormum sinna tíða. Kom þar, að í tal barst hinn sári hörgull á sterkum drykkjum, sem þjakaði íslendinga meira en flest annað, og er skemmst af að segja, að þeim fannst skylt að ráða þar bót á. Þetta voru karlar í krapinu. Þeir urðu sér þegar úti um gufuskip á stærð við lítinn togara, 148 lestir og hét Siegfried, og létu bera á það gnægð af spíritus, rommi og konjakki, alls um seytján þúsund lítra. Lét skipið síðan í haf frá Cuxhaven, og til forsagnar á því var með skipstjóranum brytinn góði, sem ég gef hér mitt eigið nafn til hægðarauka og nefni Jón eins og vænn hluti íslendinga hét þá enn. Nú víkur sögunni til Íslands. Dag einn í byrjun marzmánaðar sjá menn á Suðurnesjum, að skip kemur af hafi. Sigldi það inn á Kvíguvoga í hryssingsveðri og varpaði akkerum norðan við Vogastapa. Að lítilli stundu liðinni var báti skotið út, og stigu á hann sex menn, sem reru knálega til lands. Einn mannanna var miklu bezt búinn, og þegar báturinn kenndi grunns, brugðu ræðarar við og báru kumpán þennan á land af þeirri lotningu. sem langöguðum, þýzkum hásetum er eðlislæg gagnvart þeim er á farminn í skipi þeirra. Þarna var kominn Jón okkar bryti að svala þorsta landa sinna. Það var ekki við hæfi, að slíkur maður norpaði lengi þarna í flæðarmálinu. Hann sveipaði að sér frakka góðum sem hann var í, og gekk hröðum skrefum upp á þjóðveginn, án þess að hafa tal af nokkrum manni þarna í byggðarlaginu, og stefndi inn til Hafnarfjarðar. En illa tóksf til hjá sjómönnunum þýzku. Jón bryti var ekki fyrr á brott, en yfir skall hríðarhraglandi, og hvessti mjög í élið, svo að þeir komu báti sínum ekki út. Stærði fljótt öldu. svo að þeir urðu að dúsa þar, sem þeir voru komnir.
Mönnum þarna syðra fannst sem sæfarar þessir færu einhvern veginn aftan að siðum, og kviknuðu grunsemdir um erindi þeirra. Gerðu þeir yfirvaldi sínu viðvart, og er skemmst af því að segja, að allt var tekið: Skipið og farmurinn, brytinn Jón og skipverjar allir. Kom þá í ljós, að sitthvað var á annan veg en siður var í siglingum landa á milli. Farmskírteini fundust engin, og ekki heldur skipstjóri sá, sem skráður var á fleytuna. Lengi vel þóttust engir vita, hverjir ættu farminn, og kom þó þar um síðir, að hann vitnaðist sameign brytans og doktorsins í Hamborg, og hafði verið í ráðum að selja áfengið hérlendis á fimm krónur hvern lítra, en sigla til Noregs með það, sem afgangs kynni að vera. En af þeirri siglingu varð ekki, því að skipið var gert upptækt og selt á uppboði. Bjarni Ólafsson á Akranesi keypti það á þrjátíu þúsund krónur. Og honum var sízt í hug að svala áfengisþorsta manna, hvort heldur þeir voru íslenzkir eða norskir. Seinna á árinu kom hingað mikil og fræg hljómsveit frá Þýzkalandi. skipuð ágætum tónlistarmönnum. En kannski hefur það ekki verið beinlínis til minningar um þennan atburð, að hún lék Siegfried-Idyll eftir Wagner fyrir Reykvíkinga. Og er kannski ekki viðeigandi að blanda saman spíritus og rommi og göfugri tónlist og gera úr kokkteil.

Fálkinn. 2 maí 1966.


Línuveiðarinn Bjarki RE 4 á síldveiðum.                                                         Ljósmyndari óþekktur.

             Gufuskipið Bjarki

Hefir nú Samvinnufjelag sjómanna hjer ákveðið að kaupa gufuskipið Bjarka. Kaupverðið er 40 þúsund krónur og ábyrgist Siglufjarðarkaupstaður 30 þúsund af kaupverði og kr. 8 þús. vegna veiðarfæra og nótabáta. Skipstjóri og framkvæmdastjóri er ráðinn Eyþór Hallsson, og fór hann suður með Goðafossi ásamt skipverjum þeim sem verða með honum í sumar. Bæjarstjórnin hefir eftirlit með rekstri fjelagsins og jafnframt neitunarvald á þeim ákvörðunum félagsins sem hún heldur að muni geta skaðað afkomu þess. Skipverjar fá engin laun fyrir starf sitt fyrr en dreginn hefir verið frá afla skipsins allur kostnaður við rekstur þess. Það sýnist þvi í fljótu bragði ekki geta verið mikil áhætta fyrir bæinn, þessi ábyrgð, þar sem afborganir og vextir eru mjög aðgengilegir. Annars verður nánar skýrt frá þessum kaupum og tildrögum þeirra í næsta blaði.

Siglfirðingur. 16 júlí 1932.

 Samvinnuútgerð sjómanna á Siglufirði

Nú mun fullráðið að Samvinnuútgerðin kaupi s.s. Bjarka. Framkvæmdarstjóri og skipstjóri, Eyþór Hallsson, mun nú, með aðstoð Guðmundar Ólafssonar hæstar.m.fl.m. í Rvík, hafa undirskrifað samninga við rikisstjórnina. Skipið hefir verið prýðilega standsett og mun sú aðgerð hafa kostað ríkið um 15-24 þúsund kr. Sömuleiðis hefir framkv.stj. náð kaupum á mjög vandaðri nót og bátum fyrir lágt verð. Skipið mun því ef allt gengur að óskum koma hingað eftir helgina. Torfi Timoteusson fór suður með s.s. Dr. Alexandrine, og mun verða skipstjóri í sumar á Bjarka, þar sem Eyþór vantar nokkuð upp á siglingatíma sinn. Skipið hefir samning um sölu bræðslusíldar hjá Ríkisverksmiðjunni og mun eínnig hafa þegar selt eitthvað til söltunar. Eins og getið var um í síðasta blaði þá er afborgunin af kaupverði skipsins sem svarar 1000 málum af bræðslusíld og 3 prc. af brúttó afla skipsins. Það má því fullyrða að aldrei hefir skip í jafn góðu standi verið selt með heppilegri kjörum.

Siglfirðingur. 23 júlí 1932.


Línuveiðarinn Bjarki SI 33 lengdur í gamla slippnum sunnan Torfunefsbryggju á Akureyri veturinn 1943-44.          Ljósmyndari óþekktur.

  Línuveiðarinn Bjarki frá Siglufirði

Nýlega var vikið að því í frétt í Þjóðviljanum, að Hoffellið frá Fáskrúðsfirði væri fyrsti stálbáturinn hér á landi, sem væri lengdur í íslenzkri skipasmíðastöð, en nú er unnið að því að Iengja þennan bát í skipasmíðastöð á Seyðisfirði þessa daga. Nú höfum við fengið þær upplýsingar, að línuveiðarinn Bjarki frá Siglufirði hafi gengið í gegnum svona breytingar í gömlu slippbrautinni á Akureyri veturinn 1943 og 1944, var línuveiðarinn skorinn sundur í miðju og lengdur um sjö metra og stækkaði, hann úr 120 lestum upp í 180 lestir. Var þetta á sínum tíma afrek í íslenzkri skipasmíði með þeirri tækni, sem þá var í skipasmíði. Verkið tók líka furðu stuttan tíma, hófst í öndverðum nóvember um veturinn og var Iokið í byrjun apríl. Yfirsmiður var Guðmundur Valgrímsson, vélsmíðameistari er átti þá hlutdeild að Vélsmiðjunni Odda á Akureyri.
Línuveiðarinn Bjarki frá Siglufirði sigldi öll stríðsárin að frádregnum breytingatímanum og reyndist ákaflega happasælt sjóskip. Eigandi skipsins var þá Steindór Hjaltalín og síðar var línuveiðarinn í flutningum til Siglufjarðar, þegar Hvalfarðarsíldin veiddist hér mest um árið. Viktor hjá B.P. var þá skipstjóri og hældi skipinu ævinlega sem góðu sjóskipi, svo að breytingin hefur verið happasæl á skipinu á sínum tíma. Annars var þessi línuveiðari gerður áður út frá Akranesi og átti þá skipið Bjarni Ólafsson, skipstjóri, sá hörkuduglegi sjómaður og reyndist skipið vel á síldveiðum. Endalok skipsins urðu þau, að það var selt í brotajárn árið 1950.  Hér er mynd af Bjarka frá Siglufirði, þegar unnið var að stækkun skipsins í gömlu slippstöðinni á Akureyri veturinn 1943 og 1944.

Þjóðviljinn. 21 nóvember 1965.

Flettingar í dag: 1430
Gestir í dag: 476
Flettingar í gær: 1092
Gestir í gær: 456
Samtals flettingar: 2034264
Samtals gestir: 520415
Tölur uppfærðar: 29.9.2020 11:16:12