12.11.2017 15:28

Fiskaklettur GK 130. TFPK.

Fiskaklettur GK 130 var smíðaður í Hobro í Danmörku árið 1930. Eik og beiki. 52 brl. 120 ha. Bolinder vél. Eigandi var Samvinnufélag Hólmavíkur á Hólmavík frá 9 mars 1939. Hét þá Gloria ST 21. Hét Soli Des Gloria áður en hann kom til landsins. Báturinn var seldur 24 júní 1940, Jóni Gíslasyni og Sigurjóni Einarssyni í Hafnarfirði, hét Fiskaklettur GK 130. Ný vél (1944) 160 ha. Lister díesel vél. Seldur 14 janúar 1953, Sigurjóni Halldórssyni og Hermanni Sigurjónssyni í Grafarnesi og Sigurði Ágústssyni í Stykkishólmi, hét Farsæll SH 30. Ný vél (1955) 225 ha. Lister díesel vél. Seldur 18 desember 1956, Hraðfrystihúsi Gerðabátanna h/f í Gerðum, Garði, hét Farsæll GK 8. Seldur 21 ágúst 1963, Páli H Pálssyni í Keflavík, hét Farsæll KE 27. Báturinn sökk út af Stafnesi 19 febrúar árið 1964 eftir að óstöðvandi leki kom að honum. Áhöfninni, 6 mönnum var bjargað um borð í vélbátinn Vilborgu KE 51 frá Keflavík.


Fiskaklettur GK 130 á síldveiðum.                                                               (C) Sigurjón Vigfússon.


Farsæll GK 8 á leið í línuróður.                                                                   (C) Gunnar Þorsteinsson.


Farsæll GK 8. Skipverjar að leggja línuna.                                (C) Gunnar Þorsteinsson.

  Keflavíkurbáturinn Farsæll sökk í blíðu veðri
    Nærstaddur línubátur bjargaði áhöfninni

Í morgun var vélbáturinn Farsæll KE 27 á sjó og sem aðrir línubátar frá Keflavík. var hann langt komin að leggja línu sína, þegar leki kom að bátnum. Fyrst í stað höfðu dælur við, en lekinn ágerðist mjög svo að í óefni var komið og náði Farsæll þá sambandi við vélbátinn Vilborgu, sem var þar skammt frá og kom hún upp að Farsæl og var þá lekinn orðinn óviðráðanlegur svo báturinn var yfirgefinn og sökk hann skömmu síðar. Mennirnir komust heilu og höldnu yfir í Vilborgu sem hvarf að því að draga línu sína, en hún hafði lokið lagningu nokkru áður en slysið bar að. Því næst dró Vilborg línu þeirra á Farsæl, en þeir höfðu lagt um ¾  línu sinnar eða 30 bjóð áður en báturinn sökk. Af þessum sökum kemur Vilborg ekki til hafnar fyrr en undir miðnætti. Veður var gott, sléttur sjór og logn og kom því ekki til neinna vandræða.
Vélskipið Farsæll er byggt úr eik í Hobro í Danmörku 1930, en hefir verið endurbætt síðan. Það hét áður Fiskaklettur. Það er 52 brúttólestir að stærð, eign Páls H. Pálssonar í Keflavík, sem jafnframt er skipstjóri.

Morgunblaðið. 20 febrúar 1964.

        Sigldi á fullri ferð á miðin

Um kl. 23:30 í kvöld kom vélskipið Vilborg með skipbrotsmennina af Farsæl, sem sökk í morgun á línumiðum Suðurnesjabáta NV af Garðskaga, fjögurra tíma siglingu. Fréttaritari blaðsins hitti skipstjórann af Farsæl, Pál H. Pálsson, og sagðist hann ekki geta gefið neinar frekari upplýsingar að svo komnu máli, nema að leki kom að bátnum, sem ágerðist mjög svo að ekki varð við neitt ráðið og voru þá nærstaddir þar vélbátarnir Vilborg og Sigurbjörg, báðir frá Keflavik, og komu þeir upp að bátnum og var það örðuleikalaust, því veður var mjög gott. Við urðum að horfa á bátinn síga í hafið svo við fengum við ekkert ráðið, sagði Páll skipstjóri. Og erum nú hingað komnir á Vilborgu, þótt sárt sé að skilja við bátinn sinn svona. Frekari rannsókn mun svo fara fram á aðdraganda þessa óhapps svo sem venja er, en meira hef ég ekki um þetta að segja, sagði skipstjórinn. Farsæll var áður Fiskaklettur, gerður út frá Hafnarfirði, en síðan endurbyggður og búinn nýrri vél, sem gengur 9-10 mílur og sigldi ég honum á miðin á fullri ferð, svo sem venja er, en á þessu stigi get ég ekki sagt um hvers vegna þessi bráði leki kom að bátnum, sagði Páll skipstjóri að lokum. Sem fyrr segir var blíðuveður á miðum bátanna. Er björgun fór fram gengu menn úr Farsæli yfir í Vilborgu þurrum fótum, brugðu sér jafnvel um borð í Farsæl aftur eftir að þeir höfðu yfirgefið hann til að sækja það sem þeir áttu þar eftir.

Morgunblaðið. 20 febrúar 1964.

Flettingar í dag: 876
Gestir í dag: 277
Flettingar í gær: 1558
Gestir í gær: 541
Samtals flettingar: 1960873
Samtals gestir: 496485
Tölur uppfærðar: 9.8.2020 22:26:08