19.11.2017 09:38

368. Dalaröst NK 25. TFZW.

Dalaröst NK 25 var smíðuð hjá Sören Larsen & Sönner í Nyköbing Mors í Danmörku árið 1959. Eik. 69 brl. 360 ha. Lister Blackstone díesel vél. Eigandi var útgerðarfélagið Glettingur h/f í Neskaupstað frá febrúar árið 1959. Selt 12 ágúst 1965, Meitlinum h/f í Þorlákshöfn, hét Ögmundur ÁR 10. Selt 16 nóvember 1973, Hafliða h/f í Þorlákshöfn, hét Guðfinna Steinsdóttir ÁR 10. Selt 28 desember 1976, Sif h/f á Hvammstanga, hét Sif HU 39. (Heimild fyrir því að skipið hafi heitið áður Sif RE 39). Ný vél (1978) 425 ha. Caterpillar díesel vél, 313 Kw. Selt 1 nóvember 1982, Friðriki Sigurðssyni, Birgi Karlssyni og Guðmundi Jóhannssyni á Hvammstanga, sama nafn og númer. Selt 14 mars 1983, Kristni V Sveinbjarnarsyni og Guðmundi Hólm Svavarssyni í Ólafsvík, hét Lómur SH 177. Selt 21 september 1988, Sæborgu s/f í Ólafsvík, hét Lómur ll SH 177. Selt 15 maí 1989, Magnúsi s/f í Ólafsvík, hét Magnús BA 127. Heimahöfn skipsins var á Brjánslæk á Barðaströnd. Selt 30 júní 1990, Rekey h/f útgerðarfélagi á Brjánslæk. Frá 9 maí 1991 hét skipið Bjargey BA 407. Selt 16 júní 1993, Seley h/f á Brjánslæk, hét Hrauney BA 407. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 18 maí árið 1999 og það síðan brennt á Ísafirði.

Dalaröst NK 25 í innsiglingunni til Vestmannaeyjahafnar.                               (C) Tryggvi Sigurðsson.

Dalaröst NK 25 og Heimir SU 100 við Garðarsbryggjuna á Seyðisfirði.  (C) Magnús Þorvaldsson.


Dalaröst NK 25 á síldveiðum.                                                                  (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Hrauney BA 401. Ekki sjón að sjá skipið svona útlítandi.                             (C) Tryggvi Sigurðsson.


Hrauney BA 401. Engin furða að gömul skip endi á bálinu þegar umgengnin er svona um þau. Dapurleg örlög sem margur báturinn fékk.                         (C) Tryggvi Sigurðsson.

                Dalaröst NK 25

Í gærkvöldi kom hingað nýr fiskibátur, smíðaður í Nyköbing Mors í Danmörku eftir teikningu Egils Þorfinnssonar í Keflavík. Báturinn er 69 smálestir með 360 hestafla Blackstone Lister vél og búinn öllum nýjustu siglingatækjum m. a. Decca ratsjá. Báturinn er mjög vandaður að öllum frágangj. Hann var aðeins 3 sólarhringa og 20 klukkustundir frá Nyköbing Mors, en það er bær lítið eitt stærri en Akureyri, sem stendur við Limafjörðinn á Jótlandi. Kom báturinn við í Færeyjum á heimleið. Skipstjóri á bátnum er Þorleifur Þorleifsson og sigldi hann honum til landsins. Fyrsti vélstjóri er Rögnvaldur Sigurðsson, en stýrimaður verður Þórður Víglundsson.
Báturinn heitir Dalaröst NK 25. Eigandi er hlutafélagið Glettingur en aðal hluthafar í því eru Eyþór Þórðarson kennari, Þorleifur Þorleifsson skipstjóri og Björgvin Jónsson kaupfélagsstjóri á Seyðisfirði, sem jafnframt er framkvæmdastjóri félagsins. Báturinn fór strax í morgun til Seyðisfjarðar, en fer fljótlega til Keflavíkur, en þangað er hann leigður í vetur.

Austurland. 13 mars 1959.



Flettingar í dag: 653
Gestir í dag: 37
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720550
Samtals gestir: 53513
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 09:37:54