03.12.2017 08:58

509. Gylfi EA 628. TFVK.

Gylfi EA 628 var smíðaður af Kristjáni Nóa Kristjánssyni bátasmið á Akureyri árið 1939 fyrir Valtýr Þorsteinsson útgerðarmann í Rauðuvík í Eyjafirði. Eik og beyki. 35 brl. 100 ha. Alpha díesel vél. Ný vél (1944) 240 ha. GM díesel vél. Ný vél (1957) 250 ha. GM díesel vél. Seldur 20 desember 1965, Guðmundi Ragnarssyni í Reykjavík, hét Fróði RE 44. Seldur 10 júní 1971, Svavari Gunnþórssyni og Guðlaugi Gunnþórssyni á Grenivík, hét Eyfirðingur ÞH 39. Seldur 22 janúar 1974, Sigurjóni Jónssyni á Seltjarnarnesi, hét Fróði RE 111. Seldur 8 mars 1975, Steinþóri Þorleifssyni í Grindavík, hét Sigurþór GK 43. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 27 október árið 1983.


Gylfi EA 628 að háfa síld.                                                                     (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Gylfi EA 628 á landleið eftir góða síldveiði.                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 Mikilsverðar framkvæmdir á Oddeyrartanga

                   Smíði á mótorbátum

byrjun febrúarmánaðar s. l. var hafin hér á Oddeyrartanga smíði á 2 mótorbátum 24/25 smálesta og 1 bát 35 smálesta. Litlu síðar var svo hafin smíði á 12 smálesta mótorbát á sama stað. Ef til vill er bæjarbúum ekki kunnugt um þessar framkvæmdir, þar sem smíði bátanna fer fram á þeim stað í bænum, er almenningur leggur tiltölulega sjaldan leið sína um. En þar sem hér er um að ræða mjög ánægjulegar framkvæmdir, er skapa bæjarbúum mikla atvinnu, skal farið nokkrum orðum um þennan iðnað. Fiskimálanefnd tilkynnti um s. l. áramót, að veittur yrði styrkur til smíða á mótorbátum, og eru líkur til, að það hafi ýtt undir það að hafizt var handa. Eins og að ofan getur eru smíðaðir 2 bátar 24/25 smálesta. Annan bátinn eiga Garðar og Björn Ólasynir, Hrísey, en Þorleifur Þorleifsson og Björgvin Jónsson á Dalvík hinn. Tólf smálesta bátinn á Guðjón Ágústsson, Gróf, Grenivík. Alla þessa báta smíðar Gunnar Jónsson skipasmiður, í ákvæðisvinnu, stærri bátana fyrir kr. 26.400.00 og þann minni fyrir kr. 13.200.00 eða sem næst 1100 krónur smálestin, og er þar í innifalið allt efni og vinna; þar með talið járnsmíði og seglasaumur. Undanskilið ákvæðisverðinu er þó vél og línuspil, en vélarnar kosta um 18.000 krónur. Stærsti báturinn, 35 smál., er smíðaður fyrir Valtý Þorsteinsson í Rauðuvík. Er hann smíðaður í tímavinnu, og annast Kristján Nói Kristjánsson um smíðina. Allir stærri bátarnir verða með 90/100 hestafla Alfa-Diesel vélum, en 12 smálesta báturinn með 42 hestafla Tuxham mótor. Tveir af bátunum eru með nýtízku lagi, en 35 smálesta og 12 smálesta bátarnir með eldra lagi. Bátarnir eru byggðir úr eik og allt efni og vinna er vandað svo sem tök eru á, og gert er ráð fyrir að bátarnir verði tilbúnir um n. k. mánaðamót. Styrkur sá, er Fiskimálanefnd veitir til bátasmíðanna, nemur ca. 23% af andvirði þeirra, miðað við að smálestin kosti um kr. 1.500.00 (með vél). Þau hlutföll breytast og einnig, verði bátarnir allmiklu dýrari en ætlað var í fyrstu, vegna gengisbreytingar íslenzku krónunnar, sem stafar af því, að talsvert af efni og vélarnar voru ókomnar hingað, er gengið breyttist.
Allt efni, áhöld og vélar til bátanna útvegaði Kaupfélag Eyfirðinga.

Dagur. 22 júní 1939.

                      Nýir bátar

Meðal nýrra báta í síldveiðiflotanum eru þrír eyfirzkir bátar, smiðaðir hér á Akureyri í vetur. Bátar þessir eru:
Gylfi (35 tonn) eign Valtýs Þorsteinssonar í Rauöuvík, smíðaður af Nóa Kristjínssyni.
Björn Jörundsson (25 tonn) eign Garðars og Björns Ólasona í Hrísey og
Leifur Eiríksson (25 tonn) eign Þorleifs Þorleifssonar frá Hóli á Upsaströnd og Björgvins Jónssonar á Dalvík, báðir bátarnir smíðaðir af Gunnari Jónssyni.

Íslendingur. 4 ágúst 1939.

                Fyrsta bræðslusíldin

M.b. Gylfi E.A. 628 landaði í Rauðku í gærmorgun fyrstu bræðslusíld sumarsins 170 málum, sem hann fékk í tveimur köstum á Skagafirði á sunnudagskvöld. Síldin var smá og horuð. Nokkur skip eru nú þegar komin út á veiðar, en litlar fréttir berast enn af síld, nema þá helzt af stökksíld, sem ekki er kastandi á.

Siglfirðingur. 29 júní 1948.

          Þorrablótið dró dilk á eftir sér

     Ævintýraferð Gylfa endaði í strandi

Þorrablót var haldið á Flateyri á laugardagskvöld og dró dilk á eftir sér. Vélbáturinn Gylfi úr Eyjafirði, sem leigður hefur verið til Suðureyrar í vetur og er gerður þaðan út fór til Flateyrar á laugardagskvöldið með eitthvað af fólki frá Suðureyri, sem ætlaði á blótið. Þeirra á meðal var skipstjórinn á bátnum. Gekk sú ferð að óskum og héldu menn til fagnaðarins, allir nema einn skipverja. Hann tók bátinn traustataki um kvöldið, og sigldi honum einn til Suðureyrar. Á meðan báturinn var á leiðinni til Suðureyrar var hringt frá Flateyri og sagt frá bátshvarfinu. Óttuðust menn að skipverjinn hefði farið sér að voða einn á bátnum, en þegar hann kom klakklaust í höfn á Suðureyri önduðu menn léttar.
Engum kom til hugar að skipverjinn myndi endurtaka þetta ævintýri, en um nóttina fékk hann tvo eða þrjá menn til liðs við sig og héldu þeir af stað frá Suðureyri um nóttina til þess að sækja skipstjórann og aðra gesti, sem farið höfðu á þorrablótið. Þá tókst ekki betur til en svo að eftir stutta siglingu strönduðu þeir félagar bátnum í árósum hjá prestssetrinu í Staðardal, en þetta er sunnanmegin Súgandafjarðar, um miðja Ieið út fjörðinn frá Suðureyri, Skipbrotsmenn fóru gangandi um 20 mín. leið til Suðureyrar og sögðu farir sínar ekki sléttar. Á sunnudagsmorguninn var hafizt handa um að bjarga bátnum og var varðskipið Albert fengið til að draga bátinn á flot og tókst það giftusamlega á flóðinu. Gylfi virðist ekki mikið skemmdur. Kafari frá Albert athugaði skemmdir á bátnum á strandstaðnum og segir að skemmdir hafi orðið á strákjöl og botninn eitthvað meira nuddaður. Gylfi er kominn til ísafjarðar og á að fara í slipp hjá Marselíusi Bernharðssyni, en í dag var ekki hægt að taka bátinn upp, því annar er fyrir í slippnum. Verður ekki hægt að ganga til fulls frá fyrr en báturinn kemst á flot. Gylfi er 35 tonna bátur.

Morgunblaðið. 5 febrúar 1963.

Flettingar í dag: 479
Gestir í dag: 151
Flettingar í gær: 723
Gestir í gær: 273
Samtals flettingar: 1657087
Samtals gestir: 431320
Tölur uppfærðar: 16.11.2019 23:41:52