23.12.2017 10:02

318. Bára SU 526.

Bára SU 526 var smíðuð af Einari Sigurðssyni á Fáskrúðsfirði árið 1935. Eik og fura. 19 brl. 50 ha. Skandia vél. Eigandi var Samvinnufélag Búðakauptúns á Fáskrúðsfirði frá 16 febrúar sama ár. Seldur 27 mars 1940, Árna Stefánssyni á Fáskrúðsfirði. Ný vél (1947) 88 ha. Kelvin díesel vél. Seldur 30 september 1956, Tryggva Kristinssyni, Kristni Kristinssyni, Birni Þorbjarnarsyni og Guðbjarti Herjólfssyni í Vestmannaeyjum, hét Bára VE 85. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 10 júní árið 1967.


Bára SU 526 á siglingu á Fáskrúðsfirði.                                                            (C) Vilberg Guðnason.


Bára SU 526 á leið í línuróður.                                                                        (C) Vilberg Guðnason.

         Björgun úr sjávarháska.  


Sjómenn við strendur þessa lands, hafa löngum orðið að heyja erfiða baráttu og stundum mannskæða, við óblíð og óvægin náttúruöfl. Margir eru þeir, sem tapað hafa í baráttunni við hinn volduga Ægi, en margir hafa sigrað hinn gáskafulla og stundum ógurlega óvin. Hér verður skýrt frá slíkum átökum, eða þegar v.b. Hvanney SU 442 bjargaði v.b. Báru SU 526 úr sjávarháska við Hornafjarðarós. Hverfum aftur til dagsins 11. febrúar 1944 eða þar til fyrir liðugum 22 árum. Mikil útgerð var þá á Hornafirði og meðal báta, sem þaðan voru gerðir út, voru tveir bátar frá Búðum í Fáskrúðsfirði, Bára, eign Árna Stefánssonar og Hvanney, eign Jens Lúðvíkssonar og bræðranna Þórarins og Stefáns Guðmundssona. Bára var 19 lestir að stærð, smíðuð af Einari Sigurðssyni árin 1934-5. Hún var búin 50 ha. Skandía-vél .Formaður á Báru var Árni Stefánsson, vélstjóri Kristján, bróðir hans, en hásetar voru þeir Jóhann Jónasson, Búðum, Ingólfur Jónsson Þingholti og Jón Árnason. Hvanney var norskur bátur, 20 lestir að stærð, búin nýrri 110 hestafla Grey-vél. Hún var smíðuð í Noregi árið 1913 eftir því, sem næst verður komizt. Formaður var Jens Lúðvíksson, vélstjóri Jóhannes Michelsen, en hásetar Jón Stefánsson, Sandgerði, bróðir Árna og Kristjáns á Báru, Jón Finnbogason, Auðsbergi og Aron Hannesson, sem nú er látinn. Bátar á Hornafirði höfðu búizt til róðrar aðfararnótt 11. febrúar en þar sem veðurútlit var slæmt, hættu sumir þeirra við að fara. Vertíð var nýhafin, búið að fara 3-4 róðra. Í þessari verstöð var mikið kapp í mönnum og ötullega sótt, oft í slæmu veðri.
Hornafjarðarós er ekki árennilegur í slæmu og oft alveg ófær. Þverbrýtur fyrir hann, þegar verst gegnir. Miklar grynningar eru þar úti fyrir, straumþungt, bæði vegna sjávarfalla og Hornafjarðarfljóts, sem fellur um ósinn með enn meiri þunga á útfalli en annars. Yfirmenn á Báru voru lengi vel óráðnir, hvort fara skyldi í róðurinn, en þó var lagt upp, þegar komið var fram undir birtingu. Tveir aðrir bátar höfðu róíð, Svala frá Eskifirði og Sporður frá Húsavík. Allt gekk vel á leiðinni út á miðin, þrátt fyrir veðrið, en á var suðvestan vindur allhvass með skörpum éljahryðjum, og sjóþungt. Ákvörðunarstaðurinn var út af Hornafjarðarskerjum um klukkustundar sigling S.S.V. frá Hlein. Ekki fannst þeiim félögum ráðlegt að leggja alla línuna, og eitthvað mun yfirlegan hafa verið í styttra lagi.Hornafjarðarós á góðviðrisdegi.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.

Línudrátturinn geftk vel, en afli var tregur. Siglingin heim á leið gekk áfallalaust í fyrstu, þó hægt væri, á vél einu sinni eða svo.Eitthvað var rætt um það um borð að ganga vel frá öllu lauslegu. Við öllu mátti búast, er nálgast tæki ósinn, en ekki virtist nein sérstöft ástæða til að vera með frekari varúðarráðstsfanir en vant var. Hásetarnir þrír voru í hásetaklefa, en vélstjóri og formaður í stýrishúsi. Þegar Bára er stödd á siglingaleiðinni S.V. frá Þinganesskerjum og nokkrar bátslengdir ófarnar af þeirri leið, sem varasömust er talin, sjá þeir, sem í stýrishúsi eru, að mjög stór brotsjór tekur sig upp vestan við bátinn og stefna holskeflunnar er beint á hann.
Formaður snýr í skyndi stefni Báru í sjó, þó ekki beint, heldur beitir hann bakborðskinnung í sjóinn, af ótta við að stýrishús og allt ofan þilja geti sópast brott með sjónum. Sýnt þótti, að ekki varð undankomu auðið. Þessi feikna holskefla, á hæð við siglutoppa Báru og íhvolf eins og þær verstar geta orðið, ógnaði með sínum ægikrafti, og hamingjan ein mátti vita hvernig fara mundi. Báran mætir örlögum sínum sterkbyggð, en lítil á nútíma mælikviarða, eins og smáhnoðri í hafrótinu.
Hún lyftist fyrst upp á brotið, en svo er eins og kippt sé undan henni skorðuni og hún hafi engan flöt að standa á. Hún snýst undan sjónum í stjórnborða en síðan með miklu afli á hliðina, svo siglutré nema við sjó. Holskeflan æðir yfir og allt hverfur sjónum manna.
Rétt áður en brotið skellur yfir bátinn heyra þeir sem í hásetaklefanum halda sig undarlega háværan gný og finna að eitthvað er öðruvísi en á að vera. Þeir verða varir við að bátnum er snúið og slegið af vél og einn hásetanna stekkur upp í lúkarskappann til, að athuga, hvað um er að vera. Þegar hann lítur út, er sjórinn í þann veginn að skella á bátnum. Hann sér, hvað að fer og finnst hyggilegast að forða sér sem fyrst niður aftur. Um leið og hann fer niður, sér hann að lóðabalar úr bakborðsgangi hefjast á loft og eins og svífi í boga upp og yfir stýrishús bátsins. Síðan verður allt óljóst, hvað gerist. Allt lauslegt í hásetaklefa fer á fleygiferð. það heyrist braka og bresta í tré. Nokkrir menn hafa fylgzt með ferðum Báru frá því hún fór að nálgast landið. Menn eru staddir í Hvanneyjarvita í u.þ.m. 500 m. fjarlægð frá þeim stað, er sjórinn reið yfir bátinn. Nokkrir menn eru staddir uppi á Miklueyjarþúfu, svonefndri, einum bezta útsýnisstaðnum yfir ósinn, í nágrenni Hafnarkauptúns. Þar á meðal tveir bræður formanns og vélstjóra á Báru og faðir þeirra. Einnig urðu vitni að þessu skipsmenn á v.b. Sporði, sem var í tæpra 100 m. fjarlægð frá staðnum. Allir stara þessir menn, lostnir skelfingu, á sjóinn kaffæra bátinn, sjá bann hverfa og þeir standa á öndinni drykklanga stund, að þeim finnst, augu þeirra hvarfla Ieitandi um úfinn sjóinn. Báru er ekki að sjá á yfirborðinu. Allt í einu sjá mennirnir í Hvanneyjarvita eitthvað rautt í vatnsskorpunni, botninn á Báru kemur í ljós, kvikan brotnar yfir rekaldið, sem smáhækkar í sjónum og loksins brýtur báturinn af sér ok sjávarþungans og kemst á réttan kjöl.
Um borð í Báru var ömurlegt um að litast, línur og bólfæri vöfðust um bátinn frá siglutoppi að sjávarfleti. Sjö línubelgir voru fastir við "salningu" á aftursiglu. ÖIIu lauslegu hafði skolað fyrir borð og lunningin stjórnborðsmegin horfin. Framsiglan brotin sundur, en á sínum stað. Bómurnar dingluðu lausar - kaðlar sem héldu þeim höfðu slitnað. Í hásetaklefa var allt á tjá og tundri. Hringir af eldavél og kola glóð höfðu markað brunabletti í loft hásetaklefa og lágu nú m.a. í kojum skipverja. Stýrishúsið hafði staðizt sjóinn að mestu, en allar rúður þar voru brotnar. Í vélarrúminu hafði allt gengið úr skorðum, ekkert lauslegt á sínum stað. Sjór hafði komizt í bátinn, en minna en búast mátti við. Þegar formaður og vélstjóri verða þess varir, að báturinn er að komast á réttan kjöl, gripa þeir báðir til þess að gefa vélinni fullan kraft áfram. Hún hafði gengið allan tímann síðan báturinn fékk á sig sjóinn. Báturinn rífur sig upp, og þeir þykjast úr helju heimtir. En sjaldan er ein báran stök. Er þeir leggjast á stýrið og hyggjast sveigja bátnum inn á ósinn, fór vélin að þyngja ganginn, og að lokum stöðvast hún alveg. Þeir gera sér grein fyrir því, hvað að er. Línur og bátfæri, sem voru allt í kringum bátinn hafa lent í skrúfunni og nú virðast allar bjargir bannaðar. Stormur og straumur bera nú bát og menn í áttina til hinna ógnvekjandi Þinganesskerja austan við ósinn og hér má engan tíma missa. Bátverjar stökkva að akkerinu, losa um það og koma því út. Keðjan rennur á eftir og vír, sem tengdur var keðjunni. Til allrar hamingju nær akkerið festu í botni, og það strengist á vírnum, en sífellt nálgast þeir skerin. Nú er fátt góðra ráða. Skipverjar, sem sáu slysið, snúa á brott frá staðnum. Bát og vél er ekki treyst í þær aðstæður, sem þarna eru. Að hleypa upp í sand var ekki fýsilegt og varla hægt. Veður fór versnandi. Bátverjar hugsa til lands og hvort þaðan væri hugsanleg björgun, en þeim kemur saman um, að enginn mundi fara um ósinn nú. Allar bjargir virtust bannaðar og brotin á Þinganesskerjum varð meira en bátslengd aftan við Báru. Hér varð eitthvað óvænt að koma til og svo lengi er von sem lifir.

 
Hvanney SU 442 var smíðuð í Noregi árið 1913. Var fyrst í eigu P. Stangeland á Fáskrúðsfirði og hét þá Hövding SU 442. 20 brl.                                                          Mynd úr Íslensk skip.
 
Af Miklueyjarþúfu hafði verið fylgzt með því, sem gerðist, og þegar sást að báturinn var kominn upp og rak undan straum og vindi, var brugðið hart við til að leita eimhverra ráða til björgunar. Sennilega mun flestum hafa komið eitthvað svipað í hug. Hvanney ! Hún var með nýju aflmiklu vélina og auk þess þar um borð voru menn í þess orðs fyllstu merkingu. Gætu þeir ekki bjargað Báru, var lítil von. Þangað var farið, tíðindin sögð og það var engin fýluför. Þeir skipverjar af Hvanney, sem ekki voru að horfa á hrakfarir Báru, voru um borð og sem einn maður rísa þeir upp, vélin sett í gang með einu handtaki og leystar landfestar og haldið út að slysstaðnum. Á leiðinni út Ósinn voru lestarhlerar skorðaðir og allt lauslegt fest. Það voru geiglausir menn, sem þarna fóru og aðeins eitt í hug þeirra allra,  "Við björgum Báru, hvað sem það kostar." Eftir skamma stund eru þeir komnir á staðinn. Möguleikar til björgunaraðgerða eru athugaðir og flest, sem í hugann kemur í fyrstu, reyndist ógerlegt. Tvær tilraunir eru gerðar, til að láta lóðabelg með áfastri línu reka að Báru, en í bæði skiptin ber straumurinn hann frá. Aðstæður eru verri en orð fá Iýst. Formaður hugsar sitt ráð í skyndi:
Að koma sunnan að bátnum er ekki gerlegt, en þaðan var björgunarvonin mest. Straumur, stórsjór og vindátt stóð þaðan, og mestar líkur fyrir því að ekkert yrði ráðið við Hvanney ef afturhlutinn sneri í sjó. Formaðurinn kemur auga á eina leið, en ekki álitlega en hún er reynd. Farið er austur fyrir Báru, svo fast með brotunum af Þinganesskerjum, sem fært er, og rennt fram með bátnum, svo nærri, að línu verður komið um borð. Kannski mátti kalla þetta fífldirfsku, allavega áræði og þetta tókst. Grastóg var síðan dregið yfir í Báru, það fest og Hvanney með sín 110 hestöfl fór að mjaka Báru frá voðanum. Meðan á björgun hafði staðið, lá Hvanney undir áföllum. Tók hún á sig tvo sjóa, annan að framan en hinn helltist yfir bátinn að aftan, færði í kaf allt, sem þar var og braut sig fram í stýrishús um eldhús, sem staðsett var aftan stýrishússins og gegnum hurð þar á milli. Einn bátverja af Hvanney komst ekki í skjól, áður en sjórinn skall yfir en hafði tíma til að skorða sig af og ná góðum tökum í rekkann.
Ósinn var nú alveg ófær, svo mikið hafði sjórinn gengið upp meðan á björgun stóð, þó frábærlega stuttan tíma tæki. Haldið var áleiðis austur með landi í ólátasjó og hvössum vindi. Skipshöfnin á Hvanney, sem sýnt hafði bæði samheldni, öryggi og árvekni, hélt því áfram og ferðin til Berufjarðar gekk áfallalaust að kalla, en þangað komast bátarnir kl. 2 um nóttina. Ekki verður feigum forðað, né ófeigum á hel komið, segir máltækið, og hér átti það síðara vel við. Háskinn, sem Bára og "skipshöfn hennar var í, er öllum auðsær, og Hvanney og hennar skipshöfn lagði sig óhikað í sama háskann. En þegar giftan og áræðið, hreystin og manngæzkan haldast í hendur, fer vel. Fréttirnar bárust út um morguninn, Báru hafði verið bjargað úr sjávarháska. Skipshöfnin, sem vann að björguninni lagði út í algjöra tvísýnu, allir voru heimtir úr helju, heilir á húfi. Hvílíkur léttir hefur það ekki verið mönnunum, sem horfðu á allan tímann, aðstandendum og vinum. Öllum sem vit hafa á, ber saman um það, að skipshöfnin á Hvanney hafi hér unnið mikið afreksverk. Gamall og reyndur sjómaður, sem horfði á björgunina, kemst svo að orði, að þetta væri einungis á færi félaganna á Hvanney. Öllum kemur saman um, að þeir eigi heiður skilið, og svo mikið er víst, að skipverjar á Báru líta á þá sem Lífgjafa sína.
Heimildarmenn eru skipverjar af Báru og Hvanney. Einnig sjónarvottar af Miklueyjarþúfu og Hvanneyjarvita.

Tíminn sunnudagsblað. 17 júlí 1966.
Þórólfur Friðgeirsson.

Flettingar í dag: 1968
Gestir í dag: 678
Flettingar í gær: 1092
Gestir í gær: 456
Samtals flettingar: 2034802
Samtals gestir: 520617
Tölur uppfærðar: 29.9.2020 22:39:18