20.01.2018 08:54

Sexæringurinn Stanley. Fyrsti mótorbátur landsmanna.

Sexæringurinn Stanley var smíðaður á Ísafirði um 1860. Eik og fura. 2 brl. 2 ha. Möllerup vél var sett í bátinn haustið 1902. Stanley var þá í eigu Sophusar J. Nielsen verslunarstjóra og Árna Gíslasonar fiskmatsmanns og formanns á Ísafirði. Guðmundur Guðmundsson bóndi á Eyri í Mjóafirði lét upphaflega smíða bátinn fyrir sjálfan sig. Skipasmiðurinn var Þórir Pálsson fæddur 1797 og dó skömmu eftir 1880. Báturinn hefur sennilega verið smíðaður fyrir eða um 1860. Um 1885 gekk báturinn undir nafninu Skálin og átti Guðmundur á Eyri verbúð í Bolungarvík sem kölluð var Skálarbúð. Nafngiftin mun hafa komið af því að Guðmundur fór með bátinn eins og hann væri glerskál eða postulín. Þórir skipasmiður prófaði allan við sem nota átti í bátinn með að höggva af spæni og setja á vatn og neitaði að nota við sem illa flaut og kallaði það manndrápsvið. Árni keypti Skálina 1890 af Ebenezer tengdasyni Guðmundar á Eyri og var hún þá nýviðgerð. Ebenezer bjó í Þernuvík og á Hvítanesi við Skötufjörð. Árni breytti nafni skipsins og kallaði það Stanley og bar báturinn það nafn þegar vélin var sett í það. Útgerð bátsins gekk vel þangað til hann rak í land í Borgarbót í Skötufirði árið 1908 og brotnaði þar. Þá var báturinn í eigu Bjarna Sigurðssonar bónda á Borg í Skötufirði. 


Sexæringurinn Stanley.                                                                 Málverk eftir Sigurð Guðjónsson.

    Fyrsti Íslenzki vélknúni fiskibáturinn 

Vestfirðingar hafa löngum eins og vera ber verið forustumenn um sjósókn alla og sjómensku. Það er því ekki undarleg tilviljun, að fyrsta mótorvélin í fiskibát skyldi verða á Vestfjörðum, og þá sérstaklega hér við Ísafjarðardjúp, þar sem sjósókn hefir löngum mest verið. Það þykir hlýða, að rifja hér upp nokkuð úr sögu þessarar merku tilraunar, sem orðið hefir svo afdrifarík fyrir íslenzkar fiskiveiðar, og einmitt í sambandi við sjómannadaginn. Hefir Vesturland því átt viðtal við forgöngumann þessarar merkilegu nýbreytni, Árna Gíslason fyrv. yfirfiskimatsmann. Eru hér birt aðalatriðin úr frásögn hans. En Árni hefir nú í smíðum yfirlitsritgerð um þetta, sem mun birtast innan skamms. Tildrög þess, að Árni fór að hugsa um að fá mótorvél í fiskibát voru fregnir þær, er Árna bárust af mótorvélum, sem Danir, er stunduðu kolaveiðar á Önundarfirði, höfðu í smábátum. Spurði hann Dani, er hann kyntist á spekulantsferðum hér um Djúpið, um mótorvélar í Danmörku og reynslu þeirra þar. Var það álit flestra, að mótorvélar myndu koma íslenzkum fiskiveiðum að gagni. Sannfærðist Árni af þessum viðtölum um að hér væri um merkilega og gagnlega nýbreytni að ræða. Þeir, Árni og Sophus Jörgen Nielsen, fyrrv. verzlunarstjóri Tangsverzlunar hér, áttu þá í félagi sexæringinn "Stanley". Hreyfði Árni því 1901 við sameignarmann sinn, að hann vildi fá mótorvél í bátinn, á þann hátt að sameigendurnir legðu fram andvirði vélarinnar í félagi. Nielsen tók þessu dauflega og með vantrú á nýbreytnina, en Árni endurtók ósk sína. Fór svo, að Nielsen, sem átti bróður í Esbjerg, kvaðst skyldi leita upplýsinga um þessar nýju mótorvélar í Danmörku og reynslu þeirra þar.


Opnir mótorbátar við bryggju á Ísafirði við konungsheimsóknina þangað árið 1907. Trúlega hefur Stanley verið í þessum fríða bátahópi.   (C) Björn Pálsson.
  
Vildi svo til að þessi bróður Nielsens var vélfræðingur á mótorverkstæði C. H. Möllerups í Esbjerg. Skrifaði hann Nielsen ýtarlegt bréf og hvatti hann til þess að reyna mótorvélar á Íslandi. Pöntuða þeir Árni og Nielsen svo 2ja hestafla vél frá C. H. Möllerup í Esbjerg, í júní 1902. Kom vélin hingað 5. nóv. 1902, með síðustu ferð þess árs. Með þeirri ferð kom einnig maður frá vélaverkstæðinu, J. H. Jessen, þá 17 ára gamall. Setti hann niður vélina og kendi Árna meðferð hennar og hirðingu. Tókst það allt vel, og Jessen fór aftur til Danmerkur eftir áramótin. 1904 kom svo Jessen aftur hingað og setti upp hér á Ísafirði fyrsta vélaverkstæði hér á landi, og starfaði hér til dauðadags. Voru þá þegar komnar svo margar mótorvélar hér og í nágrenninu, að nauðsyn var á viðgerðaverkstæði. Beittu útvegsmenn sér fyrir stofnun þess og gengu 14 formenn héðan og úr nágrenninu ásamt Jóni Laxdal verzlunarstjóra í ábyrgð fyrir 15 þús. kr. láni til áhaldakaupa fyrir Jessen. Reyndist Jessen hinn þarfasti og bezti maður í sinni iðngrein og náði almennu trausti og vinsældum. Hjá Jessen lærðu margir efnismenn. Má meðal þeirra nefna: Gisla Jónsson, eftirlitsmann skipa og véla í Reykjavik, Sörensen, 1. vélstjóra á Brúarfossi, Gunnlaug Fossberg vélstj. í Reykjavík, Kjartan Tómasson, vélstj. við rafveitu Reykjavíkur, Hallgrímur Jónsson, vélstj. í Rvik, formaður Vélstj.fél. íslands, Þorsteinn Árnason, féhirðir Vélstj.fél. Íslands og Ágúst Guðmundsson, vélstj. við rafveitu Reykjavlkur. Hin nýja fyrsta íslenzka mótorvél var sett í "Stanley." Var honum breytt aðeins að því leyti, að sett var nýtt afturstefni fyrir vélskrúfuna og byrðingurinn hækkaður með skjólborðum.


Málverk Sigurðar Guðjónssonar af Stanley ásamt upplýsingum. Þarna kemur fram m.a. að Stanley hafi heitið áður Fenix.

Vélin var 2ja hestafla frá mótorverksmiðju C. H. Möllerup í Esbjerg, eins og áður er sagt. Kostaði hún 1300 krónur hingað komin. Manninn til þess að setja niður vélina kostaði verkstæðið, en þeir Árni og Nielsen kostuðu uppihald hans hér. Á Páskum 1903 byrjaði Árni vorvertið í Bolungavík á sínum nýja vélknúna bát, sem margir litu á með vantrúaraugum, eins og gerist og gengur með nýbreytnina. Einkum óttuðust menn, að erfitt yrði að lenda vélbát í Bolungavík, jafn stórgrýtt og oft var í lendingunni, en að eiga þar bát á floti var þá ekki um að ræða, jafnvel ekki að vorlagi. Varð að setja bátana eftir hvern röður og löngum síðar, þar til öldubrjóturinn gaf svo mikið hlé, að óhætt var, að leggja bátum að vor og sumarlagi. Á 3. dag Páska var ágætis sjóveður og reru þá allir Bolvíkingar. Var það fyrsta sjóferð Árna þar á nýja bátnum. Lánaðist hún svo vel, að hann gat vegna vélaflsins verið það fljótari en hinir, að fara tvisvar yfir daginn og fékk hlaðafla í bæði skiftin. Þetta varð sigurdagur þeirrar nýbreytni, að vélaaflið kom í stað mannsorkunnar. Vantrúin fauk út í veður og vind, og menn skildu brátt, að þarna var bæði um aukið hagræði og mikla framtíðarmöguleika að ræða. Árni átti "Stanley" í 3 ár, eftir að vél var sett í hann, og hélt honum jafnan út til fiskjar, hér frá Ísafirði og Bolungarvík. Eina vélarbilunin hjá Árna allan þennan tíma, var það óhapp, að ytra byrði sívalningsins (cylinders) sprakk sökum þess að kælivatn fraus í vatnsrörinu. Gerði Albert sálugi Jónsson járnsmiður hér við þessa bilun, og dugði sú aðgerð meðan Árni átti bátinn. 1906 og næstu ár á eftir varð einskonar mótorbátakapphlaup víðsvegar um land. Fóru menn þá að fá sér báta, er sérstaklega voru smíðaðir fyrir vélar, stærri og betur útbúna. Voru þeir flestir keyptir frá útlöndum. Árni varð aftur sá fyrsti til þess að fá nýjan bát.


Starfsmenn Vélsmiðju J. H. Jessen á Ísafirði, þeirri fyrstu hér á landi árið 1908. Talið frá v: Óskar Sigurgeirsson, Þórður Þórðarson, A. Nyberg, Fridtiof Nielsen, J. H. Jessen, Gísli Jónsson, óþekktur, Þorsteinn Thorsteinsson, Hinrik Hjaltason, Jón Þorbergsson, Guðbrandur Jakobsson og Alfred Jessen. (C) Ljósmyndasafnið á Ísafirði.  

Seldi hann gamla "Stanley" 1906, mági sínum , Bjarna Sigurðssyni á Borg í Skötufirði og fékk sér sama ár nýjan vélbát, smíðaðan í Friðrikshöfn, með 4 hestafla Alphavél. 1909 fékk Árni þriðja vélbátinn með þilfari, einnig með 4 hesta Alphavél. Sá bátur fórst í fiskiróðri héðan 23. des. 1910 með vaskleikamanninum Hrólfi Jakobssyni sem formanni, og einvala skipshöfn. Fjórða vélbátinn, Geysi, með 6 hestafla Alphamótor, keypti Árni 1911 og var formaður á honum til 1912, að hann var skipaður yfirfiskimatsmaður hér á Vestfjörðum.
Endalok "Stanleys" fyrsta vélknúna bátsins, urðu þau, að hann rak á land í Borgarbót í Skötufirði 1908. Líkindi eru til að vélin úr honum hafi náðst, því í leitirnar hefir komið í Bolungavik 2ja hestafla MöIIerupsmótor, smíðaður 1902, sem síðar hefir verið breytt í landmótor, af Th. Thomsen vélsmið, er fyrstur hafði vélaverkstæði í Bolungarvík, en síðar í Vestmannaeyjum. Hefir Friðrik Teitsson vélsmiður í Bolungavík lánað vél þessa til sýningar. Verður hún sýnd í Reykjavík nú á Sjómannadaginn. Bendir ýmislegt til, að þarna sé einmitt fyrsta íslenzka fiskibátavélin, þótt ekki liggi fyrir um það óyggjandi vissa. Er sjálfsagt að grafast þar betur fyrir, og setja vélina á fiskveiðasafn, ef satt reynist, en geyma hana í þjóðmenjasafninu þar til fiskveiðasafnið kemst á fót.

Vesturland. 3 júní 1939.

Flettingar í dag: 899
Gestir í dag: 396
Flettingar í gær: 952
Gestir í gær: 419
Samtals flettingar: 2388370
Samtals gestir: 621433
Tölur uppfærðar: 17.9.2021 18:17:49