27.01.2018 05:49

B. v. Seagull RE 100. LBJM.

Botnvörpungurinn Seagull RE 100 var smíðaður hjá J. R. Oswald & Co í Milford Haven í Wales í Bretlandi árið 1894. 146 brl. 94 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Ross & Duncan í Glasgow í Skotlandi 1874. Smíðanúmer 267. Hét fyrst Seagull M 4 og var gerður út frá Milford. Kom togarinn til landsins 10 júní árið 1905 (3 mánuðum á eftir Coot). Eigendur hans voru kaupmennirnir Benedikt Stefánsson og Eyjólfur Ófeigsson, Bjarnhéðinn Jónsson járnsmiður og Guðmundur Einarsson steinsmiður. Enginn þessara manna hafði komið að útgerð áður, hvað þá að gera út botnvörpung. Seldur Þorvaldi Björnssyni í Reykjavík árið 1906. Seldur í maí 1907 Pétri Jónssyni í Reykjavík. Seldur í september 1907, Bárði Kristjáni Guðmundssyni í Reykjavík. Togarinn slitnaði upp og strandaði í Vestmannaeyjum haustið 1907. Náðist út af strandstað og var dreginn til Reykjavíkur. Var rifinn í fjöru í Hafnarfirði nokkrum árum síðar. 
Ég var búinn að setja inn innlegg um Seagull 5 október 2015 en það var ekki rétt mynd af honum þá, heldur af frönskum togara sem lá við stjóra í Vestmannaeyjahöfn. Seagull gæti hafa haft skráningarnúmerið M 112 í Milford, en eftir myndinni hér að neðan er ekki betur séð en að það hafi verið M 4. Skipið hér fremst á myndinni ber nafnið Seagull og þá ætti gamli "fjósarauður" að vera kominn í leitirnar.

Botnvörpungurinn Seagull M 4 sem síðar varð RE 100 og kallaður manna í milli "fjósarauður" til háðungar eiganda sínum, Þorvaldi Björnssyni óðalsbónda á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Þeir eru þarna 4 togararnir, allir eins og voru smíðaðir í Milford.       (C) Robert Kettle.

               Botnvörpungurinn Seagull

Í fyrsta tölublaði Ægis, í júlí 1905, er sagt frá komu Seagulls og henni fagnað. Segir þar m.a.:

"Heyrst hefir að margir hér í Reykjavík og nágrenninu hefðu í hyggju að selja þilskip sín ef kostur er og kaupa aftur botnvörpuskip,og sýnir þetta virðingarverðan áhuga fyrir að fylgja með tímanum í fiskiveiðamálunum."


Ægir. 1 júlí 1905.Þorvaldur Björnsson óðalsbóndi.Fæddur í Stóra-Dal undir Eyjafjöllum 18. október 1833, dáinn 30. nóvember 1922. Bóndi í Núpakoti undir Eyjafjöllum 1863-1886, í Svaðbæli 1886-1905, vann þar mjög að jarðabótum, hýsti stórmannlega og nefndi býlið Þorvaldseyri. Dvaldist í Reykjavík 1905-1909 og átti þá talsverðan þátt í togaraútgerð. Fluttist síðan aftur að Núpakoti og var þar til æviloka. Alþingismaður Rangæinga 1886-1891.
                                                                                              Innlendur botnvörpungur sektaður

Botnvörpungurinn Seagull, er keyptur var hingað í vor sem leið frá Englandi af nokkrum Reykvíkingum í félagi (þorvaldi fyrrum óðalsbónda á þorvaldseyri Bjarnarsyni, Guðmundi Einarssyni steinsmið, og 3-4 öðrum) og haldið var út í sumar við botnvörpuveiðar, varð uppvís að því, að hafa brotið landbelgislögin hér suður í Garðsjó og hlaut fyrir það hér í fyrradag, 1.100 kr. sekt, auk málskostnaðar og aflamissis og veiðarfæra, sem var allt gert upptækt. Málskostnaður mun hafa verið töluverður, með því að sýslumaðurinn í Kjósar- og Gullbringusýslu varð að hafa töluvert fyrir að fá brotið sannað, ferðalög og annað. Skipstjórinn, Árni Eyjólfsson (Byron) var ekki betri en hinir útlendu sökudólgar með það, að hann þrætti fyrir brotið, eins og þeir, meðan hann gat. Skipið kvað hafa aflað illa í sumar og skaði því mikill á útgerðinni.

Ísafold. 28 október 1905.

                               Skipsstrand.

Frá Seyðisfirði er símað nýlega "Seagull" slitnaði upp á höfninni í Vestmanneyjum 8. desember og rak í land, bilaði svo, að er ósjófær. Ábyrgðin var í ólagi. Viðlagasjóður hafði lánað út á hann 15,000 kr. Búist er við, að björgunarskip geti náð honum út "Seagull" var botnvörpuskip, fyrrum eign Þorvalds Björnssonar frá Þorvaldseyri en nú sameign allmargra manna hér í bæ og haft til flutninga fyrir Edinborgar verzlun.

Ingólfur. 7 janúar 1908.

                       "Útgerð" Seagull

Útgerð Seagulls gekk alla tíð á afturfótunum. Fljótlega eftir að skipið kom til Reykjavíkur, var því haldið til veiða undir stjórn Árna Eyjólfssonar, en afli var lítill sem enginn. 
Sá maður,sem kunnastur er af útgerð Seagulls, er Þorvaldur Björnsson óðalsbóndi, ýmist kendur við Núpakot eða Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Hann var kominn yfir sjötugt er hann lenti í hinu misheppnaða Seagullsævintýri. Honum hafði græðst fé á búskap og var hann í tölu kunnari bænda á Suðurlandi. Þorvaldur fluttist til Reykjavíkur árið 1905 og mun þá fljótlega hafa komist inn í félagsskapinn um Seagull. Fullkominn eigandi Seagulls er hann ekki talinn fyrr en frá 1 desember 1906. Átti hann togarann einn til 28 maí 1907, en þá var hann gjaldþrota á fyrirtækinu. Togarinn var stundum nefndur manna í milli "Fjósarauður"Þorvaldi til háðungar og einnig vegna litarins, en hann var rauðbrúnn. Síðast var hann notaður til flutninga, allt þar til hann slitnaði upp,rak á land og skemmdist við Vestmannaeyjar í desember árið 1907. Hinn 9 júlí 1908 var auglýst nauðungaruppboð á botnvörpuveiðiskipinu Seagull og skyldi það fara fram hinn 13 sama mánaðar "við skipið, þar sem það nú stendur uppi í fjörunni hjer (þ.e. í Vestmannaeyjum)"Á Seagull hvíldi skuld við Fiskiveiðasjóð Íslands, sem lenti á ekkju Péturs Jónssonar blikksmiðs sem var gerð gjaldþrota þess vegna. Flakið hefur líklega verið dregið til Hafnarfjarðar, því að þar var það rifið mörgum árum seinna.

 Heimildir: Saga Íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917. Heimir Þorleifsson 1974.
                   Birgir Þórisson.

 

Flettingar í dag: 761
Gestir í dag: 362
Flettingar í gær: 1213
Gestir í gær: 485
Samtals flettingar: 2398526
Samtals gestir: 624720
Tölur uppfærðar: 28.9.2021 12:30:21