28.01.2018 09:28

Hera RE 167.

Vélskipið Hera RE 167 var smíðuð af Magnúsi Guðmundssyni í Bátasmíðastöð Reykjavíkur (Völundi) árið 1913. Eik og fura. 19 brl. 38 ha. Vél, tegund óþekkt. Eigandi var Garðar Gíslason stórkaupmaður í Reykjavík frá 17 október sama ár. Seld 11 desember 1916, Lofti Loftssyni og Sigurði Oddssyni, sennilega í Sandgerði. Báturinn var seldur árið 1919-20, Þórði Ásmundssyni á Akranesi. Árið 1921 heitir báturinn  Hera MB 107. Fórst í Faxaflóa 11 febrúar árið 1922 með allri áhöfn, 6 mönnum.
Mennirnir sem fórust með Heru voru:
Guðmundur Erlendsson formaður, Heimaskaga á Akranesi. 31 árs.
Valdimar Jónsson vélamaður, Hákoti á Akranesi. 30 ára.
Valgeir Júlíus Guðmundsson háseti, Akranesi. 20 ára.
Jón Jónsson háseti, Akranesi. 20 ára.
Jón Oddsson háseti, Steinsstöðum. 52 ára.
Magnús Kristjánsson háseti, Bíldudal. 17 ára.


Hera RE 167 sjósett 17 október 1913 með hvítbláann í skut.              (C) Magnús Ólafsson.


          Bátasmíðastöð Reykjavíkur

Árið 1906 eða 1907 gekk Bjarni Þorkelsson til samstarfs við trésmiði í Völundi og stofnuðu Bátasmíðastöð Reykjavíkur sem hafði aðsetur á Völundarlóðinni ( á horni Klapparstígs og Skúlagötu) Þar voru fjölmargir bátar smíðaðir og sumarið 1913 var ráðist í það stórvirki að smíða 19 smálesta mótorbát með 38 hestafla vél fyrir Garðar Gíslason stórkaupmann. Var það mesta stórvirki í vélskipasmíðum til þess tíma. Magnús Guðmundsson var yfirsmiður en Othar Ellingsen forstjóri Slippfélagsins, hafði umsjón með verkinu.

Saga Reykjavíkur. 1870-1940. Guðjón Friðriksson 1991.


             Vélskipið Hera RE 167

Hera, hið nýja  vélarskip, sem Garðar kaupmaður Gíslason lét smíða í vetur, fór fyrstu för sína til Hafnarfjarðar í gær. Var margt manna með, og kemur nákvæm ferðasaga á morgun.

Morgunblaðið. 1 apríl 1914.


Teikning af bát smíðuðum af Magnúsi Guðmundssyni í Bátasmíðastöð Reykjavíkur.


             Með Heru til Hafnarfjarðar

Í fyrradag voru margir Reykvíkingar, 20-30 talsins boðnir að skoða hið nýja vélskip Garðars Gíslasonar kaupmanns, Heru, og fara með þvi fyrstu ferðina, sem heitið var til Hafnarfjarðar. Veður var hið glæsilegasta, skínandi sólskin og blæjalogn. Flestir blaðamenn bæjarins, ýmsir kaupmenn, smiðir skipsins o. fl. voru meðal farþega. Hera tók farþegana á bæjarbryggjunni og lét síðan í haf fánum skreytt »frá hvirfli til ilja«. Þótti öllum skipið hið fegursta og til þess vandað í hvívetna. Gekk ferðin hið bezta út undir Gróttu, en þá kom í ljós, að lítilsháttar aukastykki í vélinni var bilað, hefir liklega brotnað af því að skipið rakst á grunn upp við bæjarbryggju. Varð því að stöðva hana um hríð, meðan að var gert. En ekki margt að því fyrir farþega að sitja á skipsfjöl í slíku veðri eins og í fannhvítum fjallasal, því að sól skein á tinda allra Faxaflóafjalla, hin dýrlegasta sjón.
Meðan beðið var, skemmtu menn sér við söng og samræður. Síðan var haldið með fullum hraða til Hafnarfjarðar, stigið þar í land og notið hressingar í Hótel Hafnarfjörður. Flutti Garðar kaupmaður þar ræðu, sagði frá tilgangi sínum með því að ráðast í að láta smíða Heru, taldi slík smáskip hina hentugustu flóabáta. Var síðan drukkin velfarnaðarskál Heru og eiganda hennar og Garðari fluttar samfagnaðarræður. Um kvöldið var svo haldið til Reykjavíkur, en fyrir innan Gróttu kom það í ljós að vélin hafði hitnað um of og varð að kæla hana, svo af varð dráttur nokkur. Vélin í Heru er hin eina þeirrar tegundar hér. Nú er tilætlun Garðars að fá Jessen vélfræðing, kennara Stýrimannaskólans, til þess að skoða hana grandgæfilega og kenna síðan meðferðina á henni ítarlega, svo að eigi geti bilanir neinar átt sér stað. Til stendur, að Hera verði á Breiðafirði í sumar til vöru- og mannflutninga.
Er Sæmundur kaupmaður Halldórsson frá Stykkishólmi staddur hér nú til þess að gera samninga um leigu á henni. Vér óskum eiganda Heru góðs gengis henni til handa. Framkvæmdasemi hans í þessu efni, ætti að bera góðan ávöxt.
»Hera« var smíðuð hér í skipasmíðastöð Völundar í sumar og haust. Var hún 7 mánuði í smiðum og var Magnús Guðmundsson yfirsmiður en Othar Ellingsen forstjóri umsjónarmaður verksins. Skipið ,er 52,6 fet á lengd, 12,4 á breidd og ber 19 smálestir. Í því er 38 hestafla hreyfivél og á það að geta farið 7-8 mílur á vöku. Það hljóp af stokkunum þann 17. okt. s. l. og hefir legið hér á höfninni síðan.

Morgunblaðið. 2 apríl 1914.


Hera RE 167 á Reykjavíkurhöfn árið 1919.                         (C) Magnús Ólafsson.

                     Hörmulegt manntjón

 14 eða 15 menn farast í laugardagsveðrinu

Ofviðrið á laugardaginn var hefir því miður haft sorglegar afleiðingar í för með sjer. 11 febrúar er langmesti mannskaðadagurinn á þessu ári, eða þeim stutta tíma, sem af því er liðinn og verður vonandi eigi annar dagur sorglegri á árinu. Tveir mótorbátar hafa að öllum líkindum farist, er fullvíst um annan, og því miður örlitlar vonir um hinn. Auk þess hefir menn tekið út af tveimur eða, þremur bátum öðrum. Á laugardagsmorguninn, snemma var besta veður í Sandgerði en útlit eigi sem best. Ganga þaðan um 25 mótorbátar, eigi aðeins frá Sandgerði heldur einnig frá öðrum veiðistöðvum og munu þeir flestir eða allir hafa farið í róður kl. 4-6 um morgnninn. Fara bátarnir um það bil tveggja tíma leið á miðin. Undir klukkan átta versnaði veðrið nokkuð og hvesti á landsunnan og sneru sumir bátarnir þá þegar við. Hjá einum bátnum bilaði vjelin um morguninn og sneri hann því til lands.
Aðeins þessi bátur og tveir aðrir náðu lendingu í Sandgerði, sá seinasti um kl. 10 um morguninn, en þá var komið ofsarok á útsunnan, svo að fleiri bátar náðu ekki lendingu í Sandgerði. Urðu þeir að leita lendingar í Njarðvík, Keflavík og 5 komust alla leið hingað til Reykjavíkur. Allir bátarnir nema tveir náðu lendingu og þessir bátar voru "Njáll" frá Sandgerði og "Hera" frá Akranesi.
Að því er vjer höfum heyrt, höfðu skipverjar á mótorbátnum "Björg" sjeð "Njál" farast nálægt miðjum degi á laugardaginn. Kom feikimikill sjór á bátinn og sökti honum. Á bát þessum voru fimm menn og hafa þeir allir farist. Formaðurinn var Kristjón Pálsson, ættaður úr Ólafsvík, en nú heimilisfastur hjer. Lætur hann eftir sig ekkju og tvö börn, hið síðara vikugamalt. Kristjón var talinn einn allra duglegasti formaðurinn, sem sjó hefir stundað í Sandgerði. Auk hans druknuðu þessir menn á ,,Njáli" : Skarphjeðinn Pálsson úr Ólafsvík, bróðir formannsins, Snorri Magnússon vjelstjóri, heimilisfastur hjer. einhleypur maður, Ingimar Jónsson og Ólafur Sigurðsson báðir einhleypir menn af Miðnesinu. Allir voru þessir menn ungir og miklir dugnaðarmenn.
Nöfn skipverjanna á "Heru" höfum vjer eigi frjett annara en formannsins, sem hjet Guðmundur Erlendsson. Munu 6 eða 7 menn hafa verið á því skipi. Þá missti m.k. "Ása" úr Hafnarfirði tvo menn og "Gunnar Hámundarson einn. Um aðra mannskaða höfum vjer ekki sannfrjett.

Lögrétta. 17 febrúar 1922.


Flettingar í dag: 520
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 723866
Samtals gestir: 53719
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 14:40:40