27.02.2018 07:39

B. v. Jón forseti RE 108. LBJT.

Botnvörpungurinn Jón forseti RE 108 var smíðaður hjá Scott & Sons Shipbuilders Bowling Near Glasgow í Skotlandi árið 1906. 233 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél. Eigandi var h/f Alliance (Thor Jensen kaupmaður og skipstjórarnir Magnús Magnússon, Jón Ólafsson, Halldór Þorsteinsson, Kolbeinn Þorsteinsson og Jón Sigurðsson) í Reykjavík. Kom skipið til Reykjavíkur hinn 24 janúar árið 1907. Togarinn strandaði á skerinu Kolaflúð við Stafnes á Reykjanesi aðfaranótt 27 febrúar árið 1928. 15 skipverjar fórust en 10 skipverjum var naumlega bjargað við hinar verstu aðstæður. Togarinn eyðilagðist og brotnaði hann fljótlega og sökk. 90 ár eru liðin frá þessu átakanlega sjóslysi sem varð til þess að Slysavarnarfélag Íslands var stofnað. Jón forseti var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga að öllu leiti og mjög til hans vandað.B.v Jón forseti RE á siglingu, sennilega á Arnarfirði.                                           (C) Jón J Dahlmann.

      Botnvörpungurinn "Jón forseti"

»Jón forseti«, hið nýja botnvörpuskip Thors kaupmanns Jensens og þeirra 4 skipstjóra, Magnúsar Magnússonar, Jóns Ólafssonar, Halldórs Þorsteinssonar, Kolbeins Þorsteinssonar og Jóns Sigurðssonar, kom hingað þann 24. Janúar, beina leið frá smíðastöðinni, Glasgow á Skotlandi. Skipið er mjög fallegt útlits og vandað að öllum frágangi. 86 netto smálestir að stærð, en 250 smálestir brúttó. Það er byggt úr 1/20 þumlunga þykkra járni, með 6. 1/10 þumlunga sverari keðju og 200 punda þyngri atkerum, en Lloyds krefst. Skipið kostar hér um bil 145,000 kr. sjótrygging hér um bil 12,000 kr. um árið.

Tímaritið Ægir. 9 tbl. 1 mars 1907.


Áhöfnin á "forsetanum". Guðmundur Guðjónsson skipstjóri á brúarvængnum ?.  Þjóðminjasafnið.


Botnvörpungurinn Jón forseti RE 108.                                                            Mynd í minni eigu.

    Fiskiveiðahlutafjelagið "Alliance"

Elsta og stærsta togaraútgerðarfélag á íslandi

Fiskiveiðahlutafjelagið "Alliance" var stofnað árið 1906. Voru stofnendur þess: Thor Jensen kaupmaður, og skipstjórarnir, Jón Ólafsson, Jón Sigurðsson, Halldór Kr. Þorsteinsson, Magnús Magnússon, Kolbeinn Þorsteinsson og Jafet Ólafsson. Fjórir þessara skipstjóra höfðu áður gert með sjer fjelag og keypt kúttera árið 1904, en þilskipaútgerð stóð þá hjer í mestum blóma. Í páskaveðrinu 7. apríl 1906 fórst Jafet Ólafsson, ásamt mörgum öðrum, en árið 1910 seldi Thor Jensen hlut sinn og gekk úr fjelaginu. Þegar h/f. "Alliance" var stofnað, höfðu Íslendingar litla þekkingu á togaraútgerð og enga reynslu á því sviði.


Athafnasvæði h/f Alliance í Ánanaustum um 1930.                               (C) Magnús Ólafsson.
  
Að vísu höfðu verið keyptir tveir togarar hingað til lands frá Englandi, en þeir voru báðir gamlir og mjög ófullkomnir, enda varð árangurinn eftir því. Í febrúar 1907 kom fyrsta skip fjelagsins, "Jón forseti", hingað til lands, og stýrði honum Halldór Kr. Þorsteinsson skipstjóri, sem þá hafði dvalið á annað ár í Englandi til þess að kynna sjer botnvörpuveiðar. "Jón forseti" var smíðaður í Glasgow svo fullkominn, sem þá var frekast kostur. Var hann fyrsti togari, er Íslendingar ljetu smíða, og má því segja, að með komu hans hefjist togaraútgerð Íslendinga. Það kom strax í ljós, að togaraútgerð gæti, ef skynsamlega væri að farið, orðið arðvænlegur atvinnuvegur fyrir landsmenn, enda fóru menn þá óðum að feta í fótspor þessara manna og hefir togurum síðan fjölgað ár frá ári, uns íslendingar eiga nú 40 togara. Fjelagið hefir eignast 6 togara, en af þeim misst tvo, þá Skúla fógeta, byggðan 1911, fórst hann í Norðursjónum í byrjun ófriðarins, 26. ágúst 1914, og Jón forseta, sem strandaði á Stafnestöngum 27. febrúar 1928; á það því nú 4 togara. Auk þess eiga stofnendur "Alliance", þeir sem enn eru í fjelaginu, 4 aðra togara að nokkru eða öllu leyti, og hafa þannig umráð yfir 1/5 hluta af togaraútgerð landsmanna. Fjelagið hefir komið sjer upp fullkomnum fiskþurrkunarstöðvum með tilheyrandi húsakynnum og getur það nú breitt til þurrkunar í einu ca. 600,000 kg. fiskjar. Auk þess hefir fjelagið byggt fiskþurrkunarhús, sem afgreiðir að meðaltali 10,000 kg. af fullþurrum fiski á sólarhring.


Gamla saltfiskþurrkunarhús Alliance í Ánanaustum.        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 14 sept. 2014.  

Árið 1929 voru útfluttar afurðir h/f. "Alliance" og þeirra fjelaga, sem það hefir umsjón með, sem hjer segir:
Verkaður saltfiskur 3180 þúsund kg.
Óverkaður saltfiskur 2080 þús. kg.
Ísfiskur kr. 675.000.
Lýsi kr. 358.800.
Sama ár flutti fjelagið inn 14,000 smálestir af kolum og 7,000 smálestir af salti. Mestan hluta veiðarfæra lætur fjelagið vinna á vinnustofu sinni við Tryggvagötu, og er unnið að netagerð o. fl. allt árið. Hjá fjelaginu voru sama ár unnin:
Á skipunum 50.000 dagsverk.
Við fiskverkun 27.600 dagsverk.
Netagerð 1.460 dagsverk.
Uppskipun. 7.880 dagsverk.
Önnur störf 7.070 dagsverk, og hafa þannig verið unnin 314 dagsverk að meðaltali hvern virkan dag ársins. Stjórn fjelagsins hafa þeir alla tíð skipað: Jón Ólafsson, Halldór Kr. Þorsteinsson, Magnús Magnússon, Jón Sigurðsson, og Jón Ólafsson, sem jafnan hefir verið framkvæmdastjóri þess.

Morgunblaðið. 26 júní 1930.


B.v. Jón forseti RE 108 á Reykjavíkurhöfn.                                                      (C) Magnús Ólafsson.

               "Jón forseti" strandar
  Eitt af hinum hörmulegustu sjóslysum hjer

Kl. 1 aðfaranótt mánudags 27. febrúar, eða þar um bil, strandaði togarinn "Jón forseti" á Stafnesi. Er það rétt hjá Stafnesvita. Er þar að allra sögn einhver hinn versti og hættulegasti staður hér á landi, fyrir skip, sem stranda. Rifið er langt frá landi og er þar sífellt brim þótt sjór sje hægur annarsstaðar. En að þessu sinni var brim mikið. Skipið var að koma vestan úr Jökuldjúpi og ætlaði suður á Selvogsgrunn. Brimið fór vaxandi með flóðinu, og gengu brotsjóir yfir skipið hver á fætur öðrum. Reis skipið nokkuð að framan, og leituðu hásetar sér skjóls frammi undir "hvalbak". Skipið sendi út neyðarskeyti og varð fyrsta skipið á vettvang "Tryggvi gamli". Kom það þangað kl. 6 um morguninn. Var þá niðamyrkur, svo dimmt að " Tlryggvi gamli" sá skipið alls ekki, fyrr en fór að birta, eða um klukkan 7.30.


Líkan af Jóni forseta RE á Sjóminjasafninu Víkinni.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.

Komu nú þarna smám saman fleiri skip, togarinn "Ver" og "Hafstein", en gátu enga björg veitt mönnum um borð í "Jóni forseta". Litlu seinna kom björgunarskipið "Þór" einnig á vettvang og 2 bátar frá Sandgerði, mannaðir mönnum, sem eru gjörkunnugir á þessum slóðum. Allan daginn, fram í myrkur var björgunartilraunum haldið áfram af mesta hetjudug og dugnaði. En brotsjóirnir slitu sjómennina af skipinu, einn á fætur öðrum, án þess við yrði ráðið. Þegar fram á daginn kom sáu skipin, sem þarna voru, að þau fengu ekkert að gert og týndust burtu smám saman. Eitt hið seinasta, er fór af vettvangi, var "Tryggvi gamli". Kom hann hingað um kvöldið klukkan 10 og flutti hingað lík 5 manna, af skipshöfn "Jóns forseta", sem höfðu fundist á reki framundan skerinu, sem hann strandaði á. "Morg.bl." hitti Kristján Schram skipstjóra á "Tryggva gamla" að máli og spurði hann tíðinda. Honum sagðist svo frá:
Þegar birti svo um morguninn að við sáum "Jón forseta" þar sem hann lá á skerinu, lá hann þannig, að hann hallaðist mikið á bakborða og var þá bátlaus að því er best varð séð. Sáust þá engir menn uppi. Höfðu þeir leitað sér skjóls fram undir "hvalbaknum". Skipið virtist þá óbrotið að ofan. Skömmu eftir að við komum þar að, komu mennirnir út á þilfar. Skiftu þeir sér þá. Fóru nokkrir upp á "hvalbak", sumir í reiðann og sumir upp á stýrishúsið.


B.v. Jón forseti RE 108.                                       Teikning Róberts Inga Guðmundssonar. (Ringi).  

Sáum við þar þrjá menn. Leið nú og beið og komumst við hvergi nærri til að bjarga, en kvikan fór vaxandi og ruggaði skipið mjög á grunninu og gengu brotsjóir yfir það að aftan. Klukkan rúmlega 10 skall á það brotsjór, svo ægilegur, að hann tók með sér stýrishúsið og reykháfinn. Eftir það fór skipið að síga að framan og leituðu þá þeir í reiðann, sem áður höfðu haldist við á "hvalbaknum", og röðuðust þar alveg upp í siglutopp. Gekk nú sjór alltaf yfir skipið, en er fór að fjara dró úr kvikunni nokkuð, en þó voru brotsjóir allt umhverfis skipið, svo að hvergi var hægt að koma nærri.
Bátur frá landi náði þá sambandi við "Þór" og fékk hjá honum björgunartæki og síðan var björgunartilraunum haldið áfram frá landi, þótt aðstaða væri þar afar slæm. Við biðum fram eftir deginum, eða fram til klukkan 6.30. Var þá skollið á myrkur. Vélbátar frá Sandgerði voru sífellt á sveimi fyrir utan rifið til þess að leita að líkum manna er skoluðust fyrir borð, vegna þess að þeir gátu ekki veitt neina aðra aðstoð. Fundu þeir þessi fimm lik, sem við komum með. Er eitt þeirra af Ólafi Jóhannssyni, 2. vélstjóra, annað af Stefáni Einarssyni bryta og hið þriðja af syni hans Árna, sem var hjálparmatsveinn hjá föður sínum. Hin tvö likin af Ingva Björnssyni og Haraldi Einarssyni. Allir voru menn þessir með björgunarbelti og bar útfallið líkin út yfir rifið.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1928.


Togararnir Jón forseti RE og Þór RE við bryggju á Svalbarðseyri.                        (C) Karl L Nielsen.

                    Björgunarstarfið
   Frásögn þeirra Halldórs Þorsteinssonar                                 og Jóns Sigurðssonar.

Í gærkvöldi komu þeir skipstjórarnir Halldór Þorsteinsson og Jón Sigurðsson hingað til bæjarins og náði "Morgunbl." þá tali af þeim, spurði þá um slysið og björgunarstarfið. Þeim segist svo frá: Aðfaranótt mánudags kl. 1.30. barst Hf. Alliance skeyti um það, að "Jón forseti" væri strandaður á Stafnesrifi. Vissum við þá fljótt hvílíkur háski var hér á ferðum, því að flestra kunnugra dómi getur ekki hættulegri og verri strandstað á öllu Íslandi heldur en þennan. Bjuggumst við þegar við því, að skip og öll áhöfn mundi farast þarna, en til þess að reyna að bjarga einhverjum mannanna, rukum við þangað suður eftir í bifreið. Lögðum við á stað héðan kl. 2.30. og héldum til Fuglavíkur, bæjar, sem er svo að segja mitt á milli Sandgerðis og Stafness. Lengra varð ekki komist í bifreið, því að þar tekur við hinn versti vegur suður á Stafnes, og verður tæplega farið nema fetið þótt bjart sé og góð færð. Er þaðan nær 1.1/2. tíma ferð Suður á strandstaðinn. Við fengum okkur hesta í Fuglavík og héldum hiklaust áfram. Komum við að Stafnesi kl. rúmlega 7 um morguninn. Þegar þangað kom sáum við hvar skipið lá í brimgarðinum á Stafnesrifi. Vissi stafn að landi, en skipið hallaðist á sjó. Sáum við þá, að menn stóðu í reiðanum, sem þéttast, maður við mann. Ekki gátum við séð hve margir þeir voru, en aðstaðan var svo að okkur kom ekki til hugar að unt mundi verða að bjarga neinum þeirra. Svo hagar til þarna, að 300-400 faðma undan landi er rif það er nefnist Stafnnesrif. Er grunt á því og sker og flúðir allt um kring og brýtur þar alltaf, þótt gott sé veður, en nú var þar brimgarður einn, og allt umhverfis skipið. En fyrir innan er lón nokkurt, sem nefnist Hólakotsbót og er þar hyldýpi, en var svo lítið að brotsjóarnir af rifinu og skerjunum fara þar yfir um flóð.


Líkan af Jóni forseta RE 108.                                                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.
  
Holskeflurnar hömuðust á skipinu og bjuggumst við við því á hverri stundu að sjá sigluna brotna og fara með alla mennina fyrir borð með sér, eða þá að skipið mundi skrika inn af rifinu og fara á kaf í hafdýpið þar fyrir innan. Þegar við komum á strandstaðinn, voru skipin "Tryggvi gamli", "Ver" og "Hafstein" komin á vettvang til að reyna að bjarga. Lágu þau þar úti fyrir. Seinna kom björgunarskipið "Þór" og togarinn "Gylfi". Reyndu þessi skip með öllu móti að komast í námunda við "Forsetann", meðal annast með því að lægja brimgarðinn á þann hátt að hella olíu og lýsi í sjóinn. En það bar engan árangur. Vindur stóð af landi og hjálpaðist hann að því með straum að bera olíuna og lýsið frá rifinu og til hafs. Komust skip þessi því ekki í námunda við "Forsetann" og var sýnt, að aldrei mundi takast að bjarga mönnunum hafsmegin, hvernig, sem að væri farið. Voru nú góð ráð dýr, því að eina vonin, þótt veik væri, var sú, að takast mætti að bjarga einhverjum úr landi. Brugðum við nú skjótlega við, og náðum í báta á Stafnnesi, áttæring, sem þarna var kominn á flot og tvo minni. Samtímis sendum við hraðboða ríðandi til Fuglavíkur til að ná í lækni. Brá hann (Helgi Guðmundsson læknir) skjótt við og kom suðureftir. Varð koma hans þangað til hins mesta gagns við björgunina, því að hann tók á móti hverjum manni, sem við náðum, jafnharðan, og veitti honum alla þá hjálp, sem læknisvísindin eru um megnug. Nú komu tveir vélbátar frá Sandgerði á vettvang. Gátu þeir að vísu ekki veitt "Forsetanum" neina hjálp, en þeir færðu okkur steinolíu. Var nú reynt úr landi að lægja brimskaflinn með því að bera olíu í sjóinn úr því að það tókst ekki að utanverðu, en árangur varð enginn vegna þess að olían barst með landinu, Annar Sandgerðisbáturinn kom við hjá "Þór" og fékk léða þar línubyssu, ef vera mætti að hann gæti fremur notað hana en skipið, en hún kom ekki að neinu gagni. Það var sýnt þegar í upphafi, að engum manni mundi verða bjargað, nema það tækist með fjörunni.


Líkan af Jóni forseta RE 108.                                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.
  
Skipverjar höfðu um nóttina gert ýmsar björgunarráðstafanir um borð og útbúið sig með ýms tæki, en meðan á flóðinu stóð, og flestir mennirnir fórust, skoluðust og fyrir borð öll þeirra tæki. En af tilviljun var mjór kaðall bundinn í reiðann og var þar fastur. Þegar skipverjar sáu nú að viðbúnaður var í landi að taka í móti þeim, leystu þeir kaðal þennan, náðu í dufl og bundu þar við og vörpuðu svo duflinu fyrir borð. Voru bátarnir þrír komnir frá landi. Lagðist áttæringurinn við festa milli lands og skips en minni bátarnir fylgdu honum. Tókst þeim að ná í duflið og festa kaðlinum í áttæringinn. Voru nú bundnir 8 lóðarbelgir á annan litla bátinn svo að hann gæti ekki sokkið, og hann búinn út sem dragferja milli skipsins og áttæringsins.
Fylgdu honum engir menn og var hann oftast nær í kafi meðan hann var dreginn á milli. Urðu skipverjar að fara ofan í hann fullan af sjó, marandi í kafi og með holskeflurnar yfir sér. Þetta lánaðist svo vel, að 10 menn björguðust heilir á húfi. Hafa minni sögur, sem frægar eru, verið settar í letur en þær sögur er segja mætti um afrek ýmsa þeirra manna, og hinna, sem störfuðu að því að bjarga þeim. Fyrstu mennirnir náðust á fjórða tímanum. Einn maður henti sér fyrir borð og synti út í bátinn. Kafaði hann undir hvert ólag, er að honum reið. Annar maður, sundmaður góður, hljóp líka fyrir borð, en útsogið tók hann og hvarf hann í brimólguna.


Það hefur verið eitthvað svipað um að litast á strandstað Jóns forseta við Stafnes. Þessi mynd er hinsvegar frá strandi Alliance togarans Skúla fógeta RE 144, en hann strandaði rétt vestan Staðarhverfis í Grindavík 10 apríl árið 1933. Þar fórust 13 menn en 24 var bjargað á land.

Í annari ferð, sem báturinn var dreginn fram að skipinu, brotnaði hann við skipshliðina vegna öldugangsins. Fór þá úr honum stafninn og losnaði bandið, sem hann var bundinn með. Þeir skipverjar, sem eftir voru, fleygðu nú öðru dufli fyrir borð og fylgdi kaðall. Náðist þetta dufl líka. Var þá fenginn annar bátur í stað hins, sem brotnað hafði og björguðust nú fleiri menn. Að lokum voru þrír eftir. Gátu þeir dregið bátinn að skipinu, en áttu afar erfitt með að halda honum þar, vegna brimgangsins. Þá slitnaði kaðallinn aftur. Tveir af mönnunum fleygðu sér í sjóinn og ætluðu að bjargast á sundi, en hinn þriðji varð eftir og kleif upp í reiðann. Það er af mönnum þessum að segja, er fleygðu sér útbyrðis, að annar þeirra synti langa hríð og náði loks bátnum. Var báturinn alveg í kafi og svamlaði maðurinn upp í hann, náði tökum og bjargaðist svo.
Hinn náðist líka og var fluttur í land. Læknir var í 2 klst. að reyna að lífga hann, en það tókst ekki. Þriðji maðurinn, sem eftir var um borð, fórst með skipinu. Var engin leið að bjarga honum, því að með aðfallinu óx brimið afskaplega. Fór þá líka myrkur að, en með morgni, um áttaleytið brotnaði skipið í tvent. Mennirnir, sem björguðust, báru sig framúrskarandi karlmannlega og enginn þeirra er mikið meiddur. Voru þeir ótrúlega hressir, er þeir komu á land. Læknir tók þar fyrstur manna á móti þeim, en síðan voru þeir fluttir heim til Stafness og gistu þar um nóttina. Voru hafðir 4 hestar til að flytja þá jafnharðan neðan af klöppunum heim til bæjarins og fylgdu þeim menn, til að styðja þá. Á Stafnesi var þeim tekið framúrskarandi vel og fólkið þar á bæjunum í kring gerði allt, er í þess valdi stóð til þess að hjúkra þeim sem best. Ekki bera þeir skipstjórarnir verra orð þeim, sem unnu á sjónum að björguninni. Voru þeir allir boðnir og búnir til bess að hætta lífi sínu fyrir skipverja. Munu á bátunum hafa verið allt að 20 manns, og lögðu þeir allir líf sitt bersýnilega í hættu við björgunina. Fundin eru lík 10 manna sem fórust.


Minnisvarðinn um strand Jóns forseta á Stafnesi.                                           (C) Reynir Sveinsson.

Nöfn þeirra skipverja sem fórust með togaranum voru:
Magnús Jóhannsson, skipstjóri, fæddur 7 júní 1894. Átti heima á Bjargarstíg 6. Kona hans heitir Kristín Hafliðadóttir og áttu þau 5 börn á aldrinum 2-10 ára.
Guðmundur Knútur Guðjónsson, 1. stýrimaður, til heimilis á Lindargötu 20. Hann var fæddur 22. júlí 1891. Hann var kvæntur maður og heitir ekkja hans Pálína Vigfúsdóttir. Á framfæri þeirra er eitt fósturbarn og aldurhnigin móðir hans.
Skúli Einarsson, 1. vélstjóri. Hann var fæddur 14. febrúar 1881 að Mykjunesi í Holtum. Fluttist hann hingað til Reykjavíkur árið 1914, og átti nú heima að Efri-Selbrekkum. Hann lætur eftir sig konu, Ingibjörgu Stefánsdóttur og 8 börn; tvö af þeim eru komin yfir fermingaraldur.
Ólafur Jóhannsson, 2. vélstjóri fæddur 27. nóvember 1888 á Hrófá í Strandasýslu. Var fyrstu 5 árin hjá móðurafa sínum, Páli Ingimundarsyni í Mýratungu, föður Gests sál. Pálssonar; er móðir Ólafs enn á lífi hér í Reykjavík, 78 ára gömul. Hann kvæntist 25. júní 1921 eftirlifandi konu sinni, Valgerði Guðnadóttur, Símonarsonar frá Breiðholti. Eiga þau tvo sonu á lífi, báða unga og óuppkomna.
Ingvi Björgvin Björnsson loftskeytamaður, fæddur 14. febrúar 1905 að Hvítanesi í Skilmannahreppi. Fluttist hingað til Reykjavikur árið 1914 og átti nú heima á Bakkastíg 5, hjá foreldrum sínum, Birni Jóhannssyni og Þórunni Guðbjörgu Guðmundsdóttur.
Stefán Einarsson, matsveinn, fæddur 20. mars 1880. Hann átti heima á Kárastíg 6, og var kvæntur Ólínu Hróbjartsdóttur. Áttu þau 9 börn og eru átta þeirra á lífi en hið níunda, Árni Kr. Stefánsson fórst með föður sínum. Hann var aðstoðarmatsveinn á skipinu, fæddur 10. júlí 1911.
Sigurður Sigurðsson, háseti, Framnesveg 2, fæddur í Reykjavík 3 október 1900. Faðir hans, Sigurður Oddgeirsson drukknaði árið sem hann fæddist, en móðir hans er Málfríður Jóhannesdóttir. Sigurður var einhleypur maður og átti heima hjá móður sinni og stjúpa.
Jóhann Jóhannsson, háseti, Hverfisgötu 60 a. Hann var fæddur 1. apríl 1887 að Hámundarstöðum í Vopnafirði. Ungur fór hann í siglingar, fyrst á norsk flutningaskip og síðan á hvalveiðaskip í Suðurhöfum. Þá réðist hann á þýsk skip og var í siglingum til nýlenda Þjóðverja í Suður-Afríku er stríðið hófst. Englendingar náðu skipinu, en vegna þess að Jóhann var útlendingur, losnaði hann brátt úr haldi. Fór hann þá til Höfðanýlendu (Cape Town) og gekk í nýlenduher breta. Var hann þar í eitt ár meðan á stríðinu stóð, en kom hingað til lands alfarinn aftur 1921, þá frá Suður-Ameríku. Foreldrar hans eru á lífi enn; móðir austur á Seyðisfirði, en faðir hér í Mosfellssveit, gamall og blindur.
Magnús Sigurðsson, háseti, Grandaveg 37, fæddur 15. febrúar 1885 að Bug, Innra-Neshreppi í Snæfellsnessýslu. Hann var kvæntur Guðrúnu Jóhannesdóltur, og eru börn þeirra sex, hið elsta komið yfir fermingu.
Haraldur Einarsson, háseti, frá Lágholti í Reykjavík. Hann var fæddur 12. október 1901. Hann var ógiftur maður og hafði allan aldur átt heima hjá foreldrum sínum.
Ólafur Jónsson, kyndari, frá Víðidalsá í Strandasýslu. Hann var 36 ára að aldri. Hann var bóndi á Víðidalsá þangað til í fyrra. Þá brá hann búi og vildi gerast sjómaður. Var hann nýkominn hingað, er hann réðist í þessa ferð með "Jóni forseta". Hann var kvæntur Halldóru Árnadóttur, og dvelur hún nú á Víðidalsá ásamt fjórum börnum þeirra; er hið elsta á 12. ári, en hið yngsta á 5. ári.
Bertel Guðjónsson, kyndari, Hverfisgötu 107 í Reykjavík, 21. árs að aldri. Hann átti alla æfi heima hér í bænum. Faðir hans er á lífi, en móðir dáin.
Guðjón Angantýr Jónsson, háseti, Túngötu 42 í Reykjavík. Hann var fæddur 14. nóvember 1909 og var fyrirvinna móður sinnar, sem er ekkja og heitir Hugborg Ólafsdóttir.
Eyþór Rangar Ásgrímsson, háseti, Vesturgötu 50 í Reykjavík. Hann var fæddur 7. janúar 1911 og dvaldi hjá móður sinni, sem Ingveldur Jónsdóttir heitir. Annan uppkomin son missti hún í október í haust.


Skipverjarnir 9 sem komust af þegar Jón forseti strandaði við Stafnes 27 febrúar árið 1928. Myndin var tekin 27 febrúar árið 1958 þegar þeir minntust skipsfélaga sinna sem fórust. Fremri röð frá v: Gunnlaugur Jónsson, Bjarni Brandsson, Magnús Jónsson og Sigurður Bjarnason. Aftari röð frá v: Ólafur Árnason, Kristinn Guðjónsson, Steinþór Bjarnason, Pétur Pétursson, Guðmundur Guðjónsson (skipstjóri, var ekki með í  síðustu veiðiferðinni) og Frímann Helgason. 10 skipverjinn, Steingrímur Einarsson var fjarverandi, var á sjó.        (C) Ólafur K Magnússon.  

Nöfn þeirra skipverja sem björguðust af "forsetanum" voru:
Bjarni Brandsson, bátsmaður, Selbrekkum,
Magnús Jónsson, Hverfisgötu 96, Pétur Pétursson, Laugaveg 76,
Sigurður Bjarnason, Selbrekkum,
Kristinn Guðjónsson, Selbrekkum,
Steingrímur Einarsson, Framnesveg 61,
Gunnlaugur Jónsson, Króki, Kjalarnesi,
Steinþór Bjarnason, Ólafsvík,
Frímann Helgason, Vík í Mýrdal.
Ólafur I. Árnason, Bergþórugötu 16. "Jón Forseti" var smíðaður árið 1906. Hann var minnstur af íslensku togurunum, 233 "brúttó" smálestir, eign h.f. Alliance. Skipstjóri var Guðmundur Guðjónsson en hann var ekki með skipið þessari ferð, né í hinni næstu þar á undan, því að hann hefir legið rúmfastur um hríð.
Stýrimaðurinn, Magnús Jóhannsson, var skipstjóri báðar þessar ferðir.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1928.
(Morgunblaðið. 29 febrúar 1928.)


Flettingar í dag: 1245
Gestir í dag: 334
Flettingar í gær: 798
Gestir í gær: 301
Samtals flettingar: 1963697
Samtals gestir: 497328
Tölur uppfærðar: 12.8.2020 06:20:10