29.03.2018 08:52

87. Heiðrún ÍS 4. TFQM.

Vélskipið Heiðrún ÍS 4 var smíðuð hjá Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1944 fyrir Hlutafélagið Grím í Borgarnesi. Hét fyrst Hafborg MB 76. Eik. 92 brl. 240 ha. Lister díesel vél. Skipið var endurmælt árið 1947, mældist þá 101 brl. Selt 16 desember 1952, Rún h/f í Bolungarvík, hét Heiðrún ÍS 4. Ný vél (1956) 360 ha. Lister díesel vél. Selt 18 júní 1968, Jóni Magnússyni á Patreksfirði og Hjalta Gíslasyni í Reykjavík, skipið hét Vestri BA 3. Selt 5 febrúar 1972, Árna Sigurðssyni og Reyni Ölverssyni í Keflavík, skipið hét Sólfell GK 62. Talið ónýtt og tekið af skrá 18 desember árið 1973.


Vélskipið Heiðrún ÍS 4.                                               (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.

              V.s. Hafborg MB 76

Nýlega bættist nýtt skip í fiskiflota okkar, nefnilega vélskipið Hafborg MB. 76, smíðað af skipasmíðastöð KEA á Akureyri, en yfirsmiður var Gunnar Jónsson. Eigandi er h.f. Grímur í Borgarnesi, framkvæmdastjóri Friðrik Þórðarson. Skipinu var hleypt af stokkunum hinn 6. maí s.l, þá nærri fullsmíðuðu, og fór reynsluför sína 14. s.m. Stærð þess er sem hér segir:
Brúttó 92.22 rúmlestir.
Undir þilfari 78.08. 
Nettó 37.90.
Lengd 24.90 metrar.
Breidd 5.84. 
Dýpt 2.54. 
Aðalvél skipsins er Lister-Dieselvél, 320 hestöfl, en hjálparvél 8 hestafla vél sömu tegundar. Olíugeymar rúma ca. 10 tonn. Í reynsluferðinni náðist 10.2 sjómílna hraði á klst., með 580 snúningum (mest 600 snúningar), en fullhlaðið á venjulegri ferð (ca. 500 snún.), hefir skipið náð 9.6 sjómílna hraða í góðu veðri. Að smíði er skipið hið vandaðasta að öllu leyti, íbúðum skipverja haganlega komið fyrir, og allur frágangur með afbrigðum snyrtilegur, enda er yfirsmiður skipsins þegar orðinn landskunnur fyrir vandvirkni sína. Skipið hefir þegar farið eina ferð með ísfisk til Englands og reyndist þá ágætis sjóskip undir hleðslu. Fullhlaðið bar það 73 tonn fiskjar með 17.5 tonnum af ís, auk fullra olíugeyma. Skipið mun síðar líklega stunda togveiðar. Skipstjóri skipsins er Kristján Pétursson, áður stýrimaður á v.s. Eldborg, sem er eign sama félags.

Sjómannablaðið Víkingur. 6-7 tbl. 1 júlí 1944.


Hafborg MB 76 við bryggju á Siglufirði.                                                    (C) Sigurgeir B Jónasson.

 Tvö fiskiskip bætast við flota Bolvíkinga

            Rún h.f. kaupir 100 tonna skip
  Völusteinn h.f. lætur smíða 50 tonna skip

Nýlega hefur Rún h.f. í Bolungarvík, en framkvæmdastjóri þess og aðaleigandi er Einar Guðfinnsson, útgerðarmaður í Bolungarvík, fest kaup á skipinu Hafborg frá Borgarnesi, sem er 100 smálestir að stærð og er með 240 hestafla Lister-dieselvél. Hafborg hefur nú hlotið nýtt nafn, Heiðrún, og er skrásetningarnúmer hennar ÍS 4. Heiðrún er komin til Bolungarvíkur og er nú um það bil að hefja róðra með línu, en þegar líður á veturinn er ætlunin að skipið fari á togveiðar. Skipstjóri er Halldór G. Halldórsson og stýrimaður Eggert Sigurmundsson.
Þá er Völusteinn h.f. í Bolungarvík, framkvæmdastjóri Guðfinnur Einarsson, en aðalhluthafi þess félags er Einar Guðfinnsson, að láta byggja skip í Fredriksund í Danmörku. Er það 50 tonna skip, búið öllum nýtízku siglingartækjum. Vonir standa til að skip þetta komi til landsins í apríl n.k. Það er ekki að efa, að Bolvíkingum er mikill fengur að komu þessara skipa og er það eftirtektarvert að á tímum erfiðleika og allskyns ófarnaðar hjá bátaútgerðinni, skuli vera hægt að lyfta slíku Grettistaki sem þessu. Mikil er gæfa Bolungarvíkur, að eiga slíka einstaklinga, sem hafa bæði kjark, áræði og trú á framtíð byggðarlags síns. Kjarkmiklir og dugandi einstaklingar eru ávalt traustir hornsteinar hvers þjóðfélags. Það er einlæg ósk Vesturlands, að bæði þessi skip verði eigendum, sjómönnum og öðrum Bolvíkingum til arðs og gæfu.

Vesturland. 1 tbl. 16 janúar 1953.


Flettingar í dag: 735
Gestir í dag: 194
Flettingar í gær: 3151
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1956543
Samtals gestir: 495307
Tölur uppfærðar: 7.8.2020 04:52:36