30.03.2018 21:32

Norðfjarðartogararnir Egill rauði og Goðanes við bryggju í Neskaupstað.

Nýsköpunartogarar Norðfirðinga, Egill rauði NK 104 og Goðanes NK 105 liggja hér við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað á vordögum árið 1952. Mönnum ber saman um að Nýsköpunartogararnir hafi verið afkastamikil fiskiskip og góð sjóskip, en með undantekningum þó. Sumir þeirra þóttu blautir og það með afbrigðum, en það var ekki algilt. Þó að afkoma togaranna versnaði til muna þegar líða fór á sjötta áratuginn, hafði útgerð þeirra gríðarleg áhrif á afkomu fólks og útgerðarbæjanna sem gerðu skipin út. Eins og sést á myndinni er bryggjuaðstaðan langt í frá að vera fullnægjandi á Norðfirði fyrir svona stór skip eins og Nýsköpunartogararnir voru. Það áttu eftir að líða rúmlega tíu ár þangað til uppfyllingin neðan við Steininn og Kastalann var tekin í notkun og almennt kölluð bæjarbryggjan í Neskaupstað.


Nýsköpunartogarar Norðfirðinga, Egill rauði og Goðanes við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað á vordögum árið 1952.         (C) Guðni Þórðarson.

     Norðfjarðartogararnir nýkomnir                       af Grænlandsmiðum

Neskaupstað. Frá fréttaritara Þjóðviljans. Norðfjarðartogararnir hafa nú báðir landað hér á Norðfirði saltfiski er þeir veiddu á Grænlandsmiðum. Goðanes 334 tonnum og Egill rauði 379 tonnum.
Goðanes kom til Norðfjarðar í gærmorgun frá Færeyjum, en þangað flutti það færeyska sjómenn sem verið höfðu á skipinu. Nauðsynlegar lagfæringar verða nú framkvæmdar á togurunum og fara þeir í slipp, en að því loknu fara þeir báðir á veiðar, en þó sennilega ekki fyrr en um mánaðamót.

Austurland. 18 júlí 1954.


B.v. Egill rauði NK 104. TFKC.                                        (C) Róbert Ingi Guðmundsson. (Ringi)


B.v. Goðanes NK 105. TFUD.                                               (C) Róbert Ingi Guðmundsson. (Ringi)

     Atvinnutæki nýsköpunaráranna
   undirstaða góðrar afkomu fólksins

Þar skildum við síðast við Neskaupstað að hátíðisdögum 25 ára afmælisins var lokið og framundan önn virkra daga. Sú fregn hafði borizt að Egill rauði væri væntanlegur næstu daga með 300 lestir af fiski. Og ekki þarf að dveljast lengi á Norðfirði til að finna hvernig nýsköpunartogararnir tveir, Egill rauði og Goðanes, móta atvinnulíf bæjarins og veita beint og óbeint hundruðum bæjarbúa lífsuppeldi. Í hátiðaræðu Bjarna Þórðarsonar bæjarstjóra var vikið að atvinnumálum og horfum í Neskaupstað. Ég bað hann að segja lesendum Nýja tímans nokkru nánar frá bæjarmálunum, og koma hér spurningar mínar og svör hans. :
Hver er þáttur bæjarins í atvinnulífinu? Hvað snertir þátttöku í framleiðslunni, má heita, að rekstur togaranna og fiskverkun við þann rekstur sé eina beina þátttaka bæjarins í framleiðslustörfunum. Bærinn á og rekur tvo togara, Egil rauða og Goðanes. Þessi rekstur er það umfangsmikill, að bærinn er stærsti atvinnurekandinn á staðnum. Hvert er gildi togaranna fyrir atvinnulíf bæjarbúa? Með sanni má segja, að á síðustu árum hafi afkoma bæjarbúa að langmestu leyti byggzt á togaraútgerðinni. Vegna margra ára aflabrests á fiskimiðum Austfirðinga hefur bátaflotans gætt miklu minna í atvinnulífinu en eðlilegt getur talizt. Til að viðhalda atvinnu í bænum hefur verið lögð á það áherzla, að togararnir legðu hér upp afla sinn, en vegna fjarlægðar staðarins frá helztu fiskimiðum togaranna hefur heimalöndun í þetta stórum stíl oft verið útgerðinni fremur óhagstæð. Á togurunum hafa margir sjómenn atvinnu sína og á vegum togaranna beinlínis starfar fjöldi verkafólks, sem hefur þaðan meginhluta tekna sinna. Sú vinna er fyrst og fremst við afgreiðslu skipanna, skreiðarverkun, saltfiskverkun, pökkun á saltíiski og skreið o. s. frv. Skreiðarverkun togaranna er allmikil og fylgir henni mikil vinna. Sama er að segja um saltfiskverkunina. Á síðasta ári höfðu mörg heimili góðar tekjur af að taka saltfisk til verkunar (sólþurrkunar) í ákvæðisvinnu. Auk þess er svo geysimikil vinna, sem ekki er beinlínis á vegum togaranna, en er þó að þakka rekstri þeirra. Er þar einkum átt við hráefnisöflun þeirra fyrir frystihúsin, en að undanförnu hafa þau einkum unnið úr togarafiski. Einnig hafa þurrkhúsin fyrst og fremst haft togarafisk til verkunar. Erfitt er að sjá, hvernig menn hefðu getað lifað hér á síðustu árum, ef togaranna hefði ekki notið við.
Hvernig eru atvinnuhorfur og afkomuhorfur manna yfirleitt? Þeirri spurningu er erfitt að svara svo að á verði byggt. Bær, sem byggir alla afkomu sína á fiskveiðum eins og Neskaupstaður gerir, býr alltaf við mikið öryggisleysi í þessum efnum. En þess má geta, að nú um mörg ár hafa heildartekjur bæjarbúa vaxið jafnt og þétt ár frá ári og hafa án efa aldrei verið eins háar og, síðasta ár, þó að tölur þar að lútandi liggi ekki fyrir enn. Það sem af er þessu ári má telja, að atvinna hafi verið góð, þótt eyður séu þar í, og tekjur verkafólks góðar. Um framtíðarhorfur vil ég sem mlnnst segja vegna óvissunnar sem alltaf fylgir fiskveiðunum. En þó má geta þess, að ef unnt verður að reka togarana, má fullyrða, að bæjarbúar muni fyllilega halda í horfinu hvað afkomu snertir. En neyðist bærinn til að stöðva  rekstur togaranna um lengri tíma, má telja víst, að afkoma manna versni stórum, nema að svo vel vildi til, að afli glæddist aftur á Austfjarðamiðum.
Hvað vantar helzt til framhaldandi vaxtar bæjarins? Það er sitt af hverju, sem okkur vantar. Af atvinnutækjum held ég að við höfum mesta þörf fyrir hæfilega stóra síldarbræðslu, svo okkur megi takast að notfæra okkur síldveiðarnar við Austurland. Bærinn hefur gert talsverðar uppfyllingar, en við getum ekki orðið samkeppnisfærir fyrr en bræðslan er fengin. Í vor verður haldið áfram að gera uppfyllingu og við það batnar enn aðstaðan til söltunar. Ég tel rétt, að hlutafélag framleiðenda reisi bræðsluna, gjarnan með þátttöku hafnarsjóðs og bæjarsjóðs. En ef á allt er lítið, verður að telja, að Norðfirðingar séu vel settir með framleiðslutæki. Þau eru að vísu einhæf, eingöngu, eða svo til, miðuð við fiskveiðar og hagnýtingu sjávarafla, en þau eru góð og afkastamikil.

Nýi Tíminn. 17 júní 1954.




 
Flettingar í dag: 234
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 196
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 722420
Samtals gestir: 53630
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 15:00:20