15.04.2018 06:45

857. Tjaldur SH 175. TFVU.

Vélskipið Tjaldur SH 175 var smíðaður í Esbjerg í Danmörku árið 1955. Eik. 53 brl. 265 ha. Alpha díesel vél. Eigandi var Kristján Guðmundsson í Stykkishólmi frá 20 janúar árið 1956. Ný vél (1964) 220 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 2 september 1965, Tjaldi hf á Siglufirði, hét Tjaldur SI 175. Seldur 15 mars 1974, Þorvaldi Baldvinssyni á Dalvík, hét Tjaldur EA 175. Seldur 1976, Valgeiri Sveinssyni í Vestmannaeyjum. Skipið sökk um 16 sjómílur suður af Krísuvíkurbjargi, 29 ágúst árið 1976 eftir að óstöðvandi leki kom að skipinu. Áhöfninni, 3 mönnum, var bjargað um borð í þyrlu varnarliðsins. Eigandinn, Valgeir Sveinsson skipstjóri var nýlega búinn að kaupa skipið frá Dalvík og var á leið með það heim til Vestmannaeyja.


Vélskipið Tjaldur SH 175.                                            (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

          Nýr bátur til Stykkishólms

Stykkishólmi, 6. Febrúar. Nýr bátur kom hingað s. l. sunnudagskvöld. Heitir hann Tjaldur SH 175, og er smíðaður í Esbjerg í Danmörku og var smíði hans lokið 20. janúar s. l. Er báturinn 53 rúmlestir með 240 hestafla Alpha-vél. Er hann smíðaður úr eik og er hinn vandaðasti að öllum frágangi. Vistarverur skipverja eru snyrtilegar og rúmgóðar fyrir 11 menn, auk þess er klefi handa skipstjóra. Báturinn er vel búinn að siglinga- og öryggistækjum og vel gengið frá öllum hlutum. Var hann rúma viku á leiðinni og kom við í Færeyjum. Á- milli Færeyja og Íslands hreppti báturinn hið versta veður, og tafði það hann a. m. k. um einn sólarhring. Reyndist hann hið bezta sjóskip í alla staði. Í vetur verður hann gerður út frá Stykkishólmi og verður eigandi hans, Kristján Guðmundsson frá Nesi, skipstjóri á honum. Hann sigldi bátnum upp. Ógæftir hafa verið miklar undanfarið. í s. l. viku var t. d., ekki farið nema einu sinni á sjó, og fiskuðu bátarnir þá upp í 5 tonn.

Morgunblaðið. 7 febrúar 1956.


Tjaldur SI 175 við bryggju á Siglufirði.                                            (C) Jón Ólafur Karlsson Eyrbekk.

     Veit ekki hvort ég hefði þolað
          að fara mikið oftar í kaf

             segir skipstjórinn á Tjaldi frá                    Vestmannaeyjum sem sökk á sunnudag

"Ég veit ekki hvort ég hefði þolað að fara í kaf mikið oftar, því ég var orðinn gegnkaldur og dofinn, þegar ég var loksins dreginn upp í þyrluna, "sagði Valgeir Sveinsson skipstjóri á Tjaldi EA 175 frá Vestmannaeyjum, sem sökk 16 mílur suður af Krýsuvíkurbjargi á sunnudaginn. Skipverjum þrem að tölu var bjargað um borð í þyrlu frá varnarliðinu, sem kom á staðinn fimm mínútum áður en báturinn sökk. "Þegar við vorum dregnir um borð í þyrluna misskildum við stjórnendur hennar og af þeim sökum fór ég nokkrum sinnum á kaf í iskaldan sjóinn, "sagði Valgeir. Valgeir sagði, þegar Morgunblaðið ræddi við hann, að það hefði verið á tíunda tímanum á sunnudagsmorgun, sem skipverjar hefðu orðið varir við leka í vélarrúminu. "Við vorum búnir að vera niðri í vél nokkru áður, en þegar komið var niður skömmu fyrir kl. 10 var kominn mikill sjór í vélarrúmið og vélin farin á ausa upp á sig. Okkur tókst aldrei að sjá hvaðan lekinn kom. Þegar klukkan var farin að nálgast 11 sáum við, að vonlaust var að reyna að halda bátnum á floti og var þá sent út neyðarkall," sagði Valgeir. Klukkan 10.57 á sunnudagsmorgun barst Reykjavíkurradíói neyðarkall frá bátnum. Hrafn Sveinbjarnarson og Guðmundur Þórðarson frá Grindavík héldu þegar í stað til móts við Tjald og skömmu síðar Harpa og Oddgeir, einnig frá Grindavík. Þyrla frá varnarliðinu fór af stað skömmu síðar og eins og áður sagði sökk Tjaldur stuttu eftir að þyrlan kom á vettvang, en þá var klukkan farin að nálgast eitt.
Báturinn sökk um 16 sjómílur suður af Krýsuvíkurbjargi og áttu bátarnir fjórir þá nokkuð eftir ófarið að honum. "Við fórum ekki í gúmmíbát fyrr en í síðustu lög, því við töldum að betra væri að finna okkur, ef við værum við skipshlið," sagði Valgeir Sveinsson. "Þaðan fórum við aftur um borð í Tjald, þegar þyrlan kom þar sem auðveldara var að draga okkur upp. Þegar við komum um borð í þyrluna var yndislega tekið á móti okkur. Við vorum allir háttaðir um leið og nuddaðir hátt og lágt. Ég vil nota þetta tækifæri til að koma þökkum á framfæri við Slysavarnarfélag Íslands, sem skipulagði björgunina, og eins til varnarliðsmannanna, sem björguðu okkur." Skipverjar á Tjaldi voru fluttir til Reykjavíkur, þar sem þeir voru færðir í þurr föt, en síðan héldu þeir til Vestmannaeyja. 
Tjaldur var 53 tonna eikarbátur, smíðaður í Esbjerg í Danmörku árið 1955. Báturinn var áður gerður út frá Dalvík, en Valgeir skipstjóri hafði nýlega keypt hann. "Það er ekki nema mánuður síðan báturinn var keyptur og vorum við rétt búnir að koma honum í gott lag og hafnir róðra, þegar þetta kom fyrir. Það er því sjálfhætt á sjónum í bili, hvað sem síðar verður," sagði hann.

Morgunblaðið. 31 ágúst 1976.


Flettingar í dag: 1215
Gestir í dag: 375
Flettingar í gær: 2042
Gestir í gær: 693
Samtals flettingar: 2036091
Samtals gestir: 521007
Tölur uppfærðar: 30.9.2020 19:19:25