26.04.2018 18:57

V. s. Edda GK 25 í smíðum hjá Dröfn í Hafnarfirði.

Vélskipið Edda GK 25 var smíðuð í Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði árið 1944 fyrir Einar Þorgilsson & Co hf í Hafnarfirði. Eik. 184 brl. 378 ha. Ruston & Hornsby díesel vél. Edda var stærsta tréskip sem smíðað hafði verið á Íslandi fram til þess tíma. Sjá má meira um Edduna hér á síðunni frá 17 nóvember árið 2016, þar sem saga skipsins er rakin allt til enda.


Vélskipið Edda GK 25 nýsmíðað.                                                                         Mynd í minni eigu.


Edda GK í smíðum hjá Dröfn í Hafnarfirði.                                                    Ljósmyndari óþekktur.


Unnið við stýri og skrúfu Eddunnar hjá Dröfn.      Ljósmyndari óþekktur.

                Vélskipið "Edda"

Þann 23. júní síðastliðinn var rennt til sjávar í Hafnarfirði stærsta skipi, er smíðað hefur verið á Íslandi. Heitir það "Edda" Og hefur einkennisstafina G. K. 25. Skip þetta er 184 rúmlestir brúttó og er smíðað í Skipasmíðastöðinni Dröfn h/f. Í Hafnarfirði, en yfirsmiður var Sigurjón Einarsson skipasmiður. Teikningar allar gerði Hafliði Hafliðason, skipasmiður í Reykjavík. Eftirlit með smíði skipsins hafði Páll Pálsson, skipasmiður í Rvík, en eftirlit með niðursetningu véla Ólafur Einarsson vélfræðingur, er einnig gerði teikningar að stýrisútbúnaði skipsins. Vélsmiðja Hafnarfjarðar h. f. framkvæmdi alla járnsmíði og annaðist niðursetningu véla, undir stjórn Jóhanns Ól. Jónssonar og Magnúsar Kristóferssonar. Raflagnir annaðist Raftækjaverzlunin Ekkó í Hafnarfirði og málningu Kristinn Magnússon málarameistari. Skip þetta er smíðað samkvæmt nýjustu íslenskum reglum um skipasmíðar, en þær eru þær ströngustu, sem þekkjast á Norðurlöndum.
Byrðingur og bönd eru úr eik, en vélarreisn og stjórnpallur úr stáli. Aðalvél skipsins er 378 hestafla Ruston & Hornsby dieselvél. Enn fremur eru í skipinu 85 ha. dieselvél fyrir togvindu, og önnur 18 ha. fyrir rafal og dælur. Dýptarmæli, miðunarstöð og talstöð er komið fyrir í kortaklefa. Alls eru mannaíbúðir fyrir 20 manna áhöfn. Eigendur "Eddu" er hlutaféiagið Einar Þorgilsson & Co í Hafnarfirði. Þeir létu á sínum tíma smíða stærsta togarann, sem enn hefur verið smíðaður fyrir Íslendinga og nú hafa þeir látið smíða storsta vélskipið, sem gert hefur verið á Íslandi. Skipstjóri á "Eddu" er Sigurður Andrésson úr Reykjavík og 1. vélstjóri er Skarphéðinn Þórólfsson, Seltjarnarnesi. Skipið hefur stundað síldveiðar í sumar og lagt upp á Djúpavík.

Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1944.


Flettingar í dag: 986
Gestir í dag: 310
Flettingar í gær: 2042
Gestir í gær: 693
Samtals flettingar: 2035862
Samtals gestir: 520942
Tölur uppfærðar: 30.9.2020 15:51:55