05.05.2018 11:34

Fram GK 328. TFJO.

Vélskipið Fram GK 328 var smíðað í Frederikssund Skipsverft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1946 fyrir Hlutafélagið Stefni í Hafnarfirði. Eik. 66 brl. 200 ha. Tuxham vél. Kom til heimahafnar, Hafnarfjarðar í fyrsta sinn 1 apríl það ár. Ný vél (1954) Alpha díesel vél. Fram strandaði við Hópsnes í innsiglingunni til Grindavíkur 23 mars árið 1959. Áhöfnin, 11 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og komust til lands á honum heilir á húfi.


Vélskipið Fram GK 328 við komuna til heimahafnar 1 apríl 1946.                                    Mynd úr Ægi.

               Fram G. K. 328

Í ágústmánuði 1945 samdi Eggert Kristjánsson stórkaupmaður við Fredrikssund Skibsværft, en hann er umboðsmaður þeirrar skipasmíðastöðvar hér á landi, um smíði á alls 15 bátum, 35-60 rúmlestir. Verð bátanna er um 5000 kr. pr. rúmlest, ásamt aðalaflvél. Bátar þessir eru flestir væntanlegir hingað til lands á þessu ári. Af þeim fara 3 eða 4 til Hafnarfjarðar, en hinir til Húsavíkur, Patreksfjarðar, Sandgerðis og Akraness. Fyrsti báturinn, sem heitir Fram og hefur einkennisstafina G. K. 328, kom til Hafnarfjarðar 1. apríl. Hann er 60 rúmlestir að stærð og hefur 200 hestafla Tuxham-dieselvél. Annars verða sumir bátarnir af þessari stærð með 240 hestafla vél.
Eigandi Fram er Hlutafélagið Stefnir í Hafnarfirði, en framkvæmdarstjóri þess er Guðmundur Guðmundsson. Bátur þessi er smíðaður með styrk frá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Félag þetta hefur samið um kaup á tveimur slíkum bátum til viðbótar frá Fredrikssund og verður Bæjarútgerð Hafnarfjarðar einnig hluthafi í þeim.

Ægir. 4 tbl. 1 apríl 1946.


Fram GK 328 á siglingu.                                                                              Mynd úr Íslensk skip.


Fram GK 328 á strandstað á Hópsnesi við Grindavík.                            (C) Sigurjón Vigfússon.


Fram GK 328 á strandstað.                                                                          (C) Sigurjón Vigfússon.

 Vb. Fram strandaði við Grindavík í gærkvöldi
            Björguðust til lands á gúmbáti

Laust eftir kl. 9 í gærkvöldi strandaði vélbáturinn Fram frá Hafnarfirði í brimi og stormi, rétt við innsiglinguna til Grindavikur. Á honum var 11 manna áhöfn, og björguðust allir mennirnir í land í gúmmíbáti. Munu flestir skipbrotsmannanna hafa komið til Hafnarfjarðar laust eftir miðnætti í gærkvöldi. Í gærkvöldi var með öllu óvíst um örlög Fram, en mikið brim var þá í Grindavík. Báturinn var á leið inn til Grindavíkur þegar þetta gerðist. Í það grynnsta var að fara inn ósinn fyrir svo djúpristan bát sem Fram, en hann er 65 lestir að stærð, og brim var mikið, sem fyrr segir, og braut yfir leiðina inn. Var hann kominn inn undir ytri bryggjuna í Grindavík, er hann tók niðri í hælinn, en við það hrökk stýrið upp af standinum. Skipstjóranum, Jóhanni Frímanni, tókst þó að ná bátnum út úr ósnum aftur. Fór nú vélbáturinn Arnfirðingur, sem lá í Grindavíkurhöfn, út til þess að aðstoða Fram og tókst að koma yfir í hann dráttartaug. En þegar Arnfirðingur ætlaði að fara að draga Fram af stað, vildi svo óheppilega til, að festingin á tauginni bilaði, einhverra orsaka vegna. Skipti það nú engum togum, að Fram rak upp á flúðir, sem eru inn af Djúpsundinu, en svo nefnist aðalinnsiglingarleiðin til Grindavíkur; sat báturinn þar fastur og braut á honum.
Mbl. átti í gærkvöldi tal við Sigurð Þorleifsson, símstöðvarstjóra í Grindavík, sem er jafnframt formaður slysavarnadeildarinnar þar. Skýrði hann svo frá, að björgun áhafnarinnar af Fram hefði gengið ágætlega, en reyndar komust mennirnir til lands af eigin rammleik, eins og fyrr er getið.  Fyrst fóru 8 menn af áhöfninni í gúmmíbátinn, en þeir þrír, sem eftir voru, héldu í kaðal, sem festur var í hann, og gáfu síðan eftir, unz félagar þeirra höfðu náð landi. Þá drógu þeir þremenningarnir bátinn aftur til sín og lögðu síðan í honum til lands. Gekk það að óskum. Lágsjávað var í gærkvöldi, er þessir atburðir gerðust, en mjög óttuðust Grindvíkingar, að á næturflóðinu mundi brimið berja mjög á bátnum og ef til vill brjóta hann. Skipstjórinn á Fram, er eins og fyrr segir Jóhann Frímann, en framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins er Guðmundur Guðmundsson. Þess má geta hér, að um fyrri helgi var Fram nokkuð hætt kominn, er hann fékk net í skrúfuna, þegar hann var að leggja út af Hafnarnesi. Var hann kominn mjög nærri landi, er vélbáturinn Viktoría frá Þorlákshöfn kom honum til hjálpar.

Morgunblaðið. 24 mars 1959.
Flettingar í dag: 587
Gestir í dag: 190
Flettingar í gær: 3151
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1956395
Samtals gestir: 495303
Tölur uppfærðar: 7.8.2020 03:51:25