20.05.2018 10:54

200. Stefán Ben NK 55. TFLX.

Vélbáturinn Stefán Ben NK 55 var smíðaður hjá Eidsvig Skipsbyggeri A/S í Uskedal í Noregi árið 1960 fyrir bræðurna og útgerðarmennina Ársæl og Þorstein Júlíussyni í Neskaupstað. 147 brl. 400 ha. Wichmann díesel vél. Báturinn var seldur í október 1961, Nesútgerðinni hf í Neskaupstað, sama nafn og númer. Seldur 2 nóvember 1964, Garðari Lárussyni útgerðarmanni í Neskaupstað, hét þá Sæfaxi ll NK 123. Ný vél (1967) 620 ha. Wichmann díesel vél, 456 Kw. Seldur 3 ágúst 1970, Útgerðarfélagi Borgarfjarðar hf á Borgarfirði eystra, hét Glettingur NS 100. Seldur 2 júlí 1971, Eyjum hf í Stykkishólmi, hét Höskuldsey SH 2. Seldur 15 júlí 1975, Straumnesi hf á Selfossi, hét Birtingur ÁR 44. Seldur 21 febrúar 1977, Guðmundi Haraldssyni í Grindavík, hét Búðanes GK 101. Seldur 31 desember 1980, Einarshöfn hf á Eyrarbakka hét þá Þorlákur helgi ÁR 11. Seldur 28 júlí 1986, Sædóri hf á Siglufirði, hét Þorlákur helgi SI 71. Seldur 1989, Samherja hf á Akureyri, sama nafn og númer. Seldur 21 nóvember 1990, Oddeyri hf á Akureyri, hét Þorlákur helgi EA 589. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 28 október árið 1992.

Stefán Ben NK 55 nýsmíðaður í Eidsvig í Noregi í janúar 1960.              (C) Gunnar Þorsteinsson. 


Stefán Ben NK 55 með fullfermi af síld við bryggju í Neskaupstað.            (C) Gunnar Þorsteinsson.


Stefán Ben NK 55 við bryggju í Neskaupstað.                           (C) Gunnar Þorsteinsson.


Stefán Ben NK 55 við bryggju í Neskaupstað. Glófaxi NK 54 liggur utan á honum.
Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


              Sæfaxi ll NK 123.

Garðar Lárusson, útgerðarmaður, hefur nú skipt um nafn á Stefáni Ben. Heitir hann nú Sæfaxi II og ber einkennisstafina NK 123.

Austurland. 31 desember 1964Sæfaxi ll NK 123 á sjómannadag í Neskaupstað.                                   (C) Þórður M Þórðarson.


Sæfaxi ll NK 123 á veiðum við suðaustur ströndina.                                (C) Hafsteinn Jóhannsson.

                    Nýr bátur
              Stefán Ben NK 55

Eins og lesendum blaðsins er kunnugt, hafa þeir bræður Ársæll og Þorsteinn Júlíussynir, átt bát í smíðum í Noregi. Í fyrravetur sökk bátur þeirra, Langanes, við Vestmannaeyjar og réðust þeir þá í að láta smíða þetta nýja skip, sem er nær þrisvar sinnum stærra. Stefán Ben er smíðaður eftir sömu teikningu og v/s Guðrún Þorkelsdóttir á Eskifirði og að flestu leyti eins búinn að tækjum. Var þeim báti nýlega lýst hér í blaðinu og gildir það, sem þar var sagt einnig um Stefán Ben. Stefán Ben fékk slæmt veður fyrsta sólarhring heimferðarinnar og reyndist hið ágætasta sjóskip. Að undanförnu hafa menn verið að vakna til meðvitundar um að Norðfirðingar þyrftu að eignast báta af svipaðri stærð og þessi er, til að afla fiskjar með heimalöndun fyrir augum. Stefán Ben er fyrsta skipið, sem Norðfirðingar eignast af þessari stærð, og það er trú mín, að síðar verði litið svo á, að með komu hans hafi verið mörkuð merk tímamót í útgerðarsögu þessa bæjar. Og það er von allra, að fleiri bátar af svipaðri stærð komi á eftir og þá frekar fyrr en síðar. Stefán Ben verður gerður út með línu, á útilegu og síðan net héðan að heiman í vetur og á væntanlega eftir að flytja mikla björg að landi. Atvinnuhorfur í vetur batna til mikilla muna við komu þessa skips. Frá því Stefán Ben kom, hefur verið unnið af kappi að því að búa hann á veiðar og mun hann fara í fyrstu veiðiferðina í dag.
Skipstjóri á bátnum er Einar G. Guðmundsson, stýrimaður Birgir Sigurðsson og 1. vélstjóri Freysteinn Þórarinsson. Austurland óskar þeim bræðrum til hamingju með bátinn og Norðfirðingum öllum til hamingju með þessa þýðingarmiklu viðbót við flotann og þau merku tímamót sem koma Stefáns Ben táknar í útgerðarsögu staðarins.

Austurland. 29 janúar 1960.


Flettingar í dag: 587
Gestir í dag: 190
Flettingar í gær: 3151
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1956395
Samtals gestir: 495303
Tölur uppfærðar: 7.8.2020 03:51:25