21.07.2018 09:32

Leifur Eiríksson RE 333. TFVR.

Vélskipið Leifur Eiríksson RE 333 var smíðaður hjá Saltviks Slip & Varv í Oskarshamn í Svíþjóð árið 1947 sem Auður EA 6. Eik. 92 brl. 215 ha. Polar díesel vél. Fyrsti eigandi var Hlutafélagið Auður á Akureyri frá 1 júlí sama ár. Ný vél (1954) 270 ha. Lister díesel vél. Selt 23 desember 1957, Fiskiðjuveri ríkisins í Reykjavík, hét þá Auður RE 100. Selt 15 september 1959, Bæjarútgerð Reykjavíkur hf, hét Leifur Eiríksson RE 333. Skipið sökk um 80 sjómílur ANA af Raufarhöfn 29 ágúst árið 1963. Einn maður fórst en tíu mönnum var bjargað um borð í vélskipin Jón Finnsson GK 506 og Sigfús Bergmann GK 38. Maðurinn sem fórst hét Símon Símonarsson háseti, Reykjavík.


Vélskipið Leifur Eiríksson RE 333.                                                               (C) Snorri Snorrason.

             Nýr Svíþjóðarbátur

Í gær kom til bæjarins nýr Svíþjóðarbátur, Auður, eign samnefnds hlutafélags hér í bæ. Báturinn er 94 tonn, smíðaður í Saltviks Slip & Varv. Oskarshamn Svíþjóð. Skipstjóri er Baldvin Sigurbjörnsson, en framkvæmdastjóri Tryggvi Helgason. Ferðin upp tók 6 sólarhringa. Hrepptu þeir vont veður, og reyndist skipið hið bezta. "Auður" fer á síldveiðar innan skamms.

Verkamaðurinn. 11 júlí 1947.


           Skip strandar við Engey
    skipið er m.b. Auður frá Akureyri

Um kl. 10 í morgun strandaði vélskipið Auður frá Akureyri á Engeyjarrifi. Mun orsök strandsins vera sú, að skipið fór of nærri landi. Bauja er yst á rifinu, en skipið sigldi innan við hana . Lágsjávað var, þegar skipið strandaði og er búizt við að það náist úr á flóðinu.

Morgunblaðið. 15 desember 1947.

  Vélbáturinn Leifur Eiríksson fórst í gærkvöldi

                      Eins manns saknað
       tíu bjargað um borð í "Jón Finnsson" og                                  "Sigfús Bergmann"

Um tíu leytið í gærkvöldi fórst vélbáturinn Leifur Eiríksson RE 333, þar sem hann var að háfa síld á miðunum um 80 sjómílur ANA af Raufarhöfn. Þegar blaðið fór í prentun í nótt, höfðu björgunarskip bjargað öllum skipverjum nema einum, Símoni Símonarsyni, Grettisgötu 57 B. Reykjavík, háseta, (ókvæntur), en þá var hans leitað á slysstaðnum. Þar var þá þungur sjór og slæmt veður. Bátarnir, sem björguðu skipverjum af Leifi Eiríkssyni, voru Jón Finnsson og Sigfús Bergmann, sem voru að veiðum á svipuðum slóðum. Blaðinu var skýrt frá því í gærkvöldi, að skipstjórinn á Leifi Eiríkssyni, Sverrir Bragi Kristjánsson, væri um borð í Jóni Finnssyni, ásamt sjö skipbrotsmanna, en ekki var unnt að ná sambandi við hann, þar eð talstöðin í Jóni Finnssyni var ekki í fullkomnu lagi. Tveir skipbrotsmanna voru um borð í Sigfúsi Bergmann og að sögn skipstjórans á honum, Helga Aðalgeirssonar, voru það Ingimundur Jónsson og Einar Skúlason. Ekki tókst að ná sambandi við þá í gærkveldi, þar sem þeir höfðu gengið til náða, en hinsvegar átti Morgunblaðið samtal við Helga Aðalgeirsson skipstjóra og skýrði hann í höfuðdráttum frá slysinu, aðdraganda þess og björgun mannanna. Fer frásögn hans hér á eftir, en þess má þó áður geta, að Leifur Eiríksson var rúmar 90 lestir að stærð, eikarskip, smíðað í Svíþjóð 1947, eign Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Ellefu manna áhöfn var á skipinu.
Frásögn Helga Aðalgeirssonar skipstjóra á Sigfúsi Bergmann er svohljóðandi: Leifur Eiríksson kastaði á svipuðum slóðum og við, eða um 80 sjómílur ANA af Raufarhöfn. Þegar þeir voru að háfa stórt kast, fengu þeir á sig kviku og skipið lagðist undan síldinni og náði ekki að rétta sig aftur. Þá höfðu þeir ekki háfað í fulla lestina. Við vorum að háfa ekki alllangt frá Leifi Eiríkssyni, þegar við heyrðum neyðarkallið, skárum við af okkur pokann, en nokkurn tíma tók að losna við kastið. Í millitíðinni kom Jón Finnsson sem var á svipuðum slóðum, á vettvang, og tókst að bjarga skipbrotsmönnum úr gúm bátnum. Ingimundur Jónsson og Einar Skúlason komust í lítinn hjálparbát, sem lá við síðuna á skipi þeirra og rak hann undan sjó og veðri. Þá voru VNV 5 vindstig og mikill sjór. Við fundum mennina tvo með því að beina ljóskastara að bát þeirra. Samtalið við Helga Aðalgeirsson fór fram skömmu eftir miðnætti í nótt. Þá voru þeir að leita Símonar Símonarsonar, sem enn var saknað. Helgi sagði, að tveir bátar andæfðu á slystaðnum annar með síldarnótina á floti, og leituðu í myrkrinu. En skilyrði voru því miður ekki sem bezt. Þess má enn geta, að Helgi skipstjóri hafði það eftir þeim skipbrotsmönnum, sem voru um borð í báti hans, að Leifur Eiríksson hefði sokkið mjög skjótlega og skipti ekki neinum togum, að um leið og báturinn tók sjó inn á síðuna hallaðist hann snögglega og lagðist á hliðina. Af því má sjá að lítið svigrúm hefur verið fyrir skipshöfnina að komast í bátana. Að lokum má geta þess, að engin slys urðu á skipbrotsmönnum, sem bjargað var, og líður þeim öllum vel.

Morgunblaðið. 31 ágúst 1963.


Flettingar í dag: 307
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 408
Gestir í gær: 137
Samtals flettingar: 1920360
Samtals gestir: 486906
Tölur uppfærðar: 10.7.2020 06:44:10