29.07.2018 10:05

M. k. Svanur SH 183. LBGK.

Mótorkútterinn Svanur SH 183 var smíðaður hjá Ring Andersen skipasmíðastöðinni í Svendborg í Danmörku árið 1916. Eik. 68 brl. 85 ha. Bolinder vél. Eigandi var Breiðafjarðarbáturinn hf í Stykkishólmi frá 10 september sama ár. Heimferð skipsins varð ævintýranleg, skipið var kyrrsett í Leirvík á Hjaltlandseyjum í níu sólarhringa vegna ófriðarins í Evrópu. Einnig lenti Svanur í fárviðri sem hefði getað farið svo að enginn yrði til frásagnar um. Miklar skemmdir urðu á skipinu í þessum hamförum. Skipið var selt 5 mars 1929, Jóhannesi Jónssyni, Sveini Jóhannssyni og Kristjáni Sveinbjörnssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Svanur strandaði við Lóndranga á Snæfellsnesi 17 janúar árið 1932. Áhöfnin, sjö menn, bjargaðist á land við Arnarstapa á skipsbátnum, en skipið eyðilagðist á strandstað.


Breiðafjarðarbáturinn Svanur SH 183 í reynslusiglingu í Svendborg 1916.      Ljósmyndari óþekktur.

          Breiðafjarðar Svanur

Hinn nýbygði mótorkutter »Svanur«, flutningaskip Breiðfirðinga, kom í fyrramorgun til Stykkishólms fullfermdur vörum til Hvammsfjarðar. Skipið fékk versta veður, og brotnaði annar báturinn. Skipið er ca. 75 smálestir að stærð með 80 ha. Bolinder-vél, og getur það í góðu veðri farið 8-9 mílur. Það sýndi sig þegar á leiðinni heim, í hinu vonda veðri, að það er ágætt sjóskip. Það hefir pláss fyrir 10 farþega.
»Svanur< er byggður hjá Ring Andersens skipasmíðastöðinni í Svendborg. Skipið kom við í Lerwick og var haldið þar í 10 daga.

Morgunblaðið. 14 nóvember 1916.


Stykkishólmur um 1900. Stykkið til hægri og Súgandisey í baksýn. Erlend kaupskip á höfninni.
Gamalt póstkort í minni eigu.

     Með Breiðafjarðar Svaninum til Íslands 1916

          Frásögn Hannesar Stefánssonar stýrimanns
                      Skráð af Sveini Sæmundssyni

Áður en bílvegir náðu til að tengja saman flestar byggðir landsins eða flugvélar hófu að flytja farþega og vörur milli landshluta á skammri stund, mátti heita að allur þungaflutningur færi fram á sjó. Hvar sem við var komið, voru vörur bornar á skip og siglt eða róið. Margur dalabóndinn, sem varð oft að lyfta sama bagganum til klakks á langri heimleið úr kaupstað, mun hafa litið með nokkurri öfund til hins, sem bjó við sjó og naut auk sjávarfangs, þess að geta flutt nauðsynjar bús síns sjóleiðina. Við upphaf fyrri heimsstyrjaldar urðu afurðir landsmanna eftirsóttar og komust í gott verð er frá leið. Fjárráð framleiðanda voru því allgóð og peningavelta meiri en áður hafði þekkzt. Áræði manna jókst að sama skapi. Þjóðin hafði öðlazt nýja trú á landið sem hún byggði. Siglingar milli landa voru aftur komnar í íslenzkar hendur.
Fyrstu skip Eimskipafélags Íslands, "Gullfoss" og "Goðafoss" komin til landsins. Þegar hér var komið bundust menn við Breiðafjörð samtökum um að afla skips og halda uppi samgöngum innan fjarðar og milli Breiðafjarðar og Reykjavíkur. Skip til flutninga á Breiðafjarðarhafnir og til Reykjavíkur höfðu verið í förum í nokkur ár og höfðu ýmsir orðið til þeirrar útgerðar; aðallega kaupmenn, sem áttu nokkuð undir því að selja vörur sínar eða kaupa afurðir í þessum landshluta. Má þar nefna Tangs-verzlun á Ísafirði, sem gerði út hvalveiðiskipið "Varanger" og mótorskipið "Heru" og Garðar Gíslason, mótorskipið "Hans". Svo árið 1915 er stofnað hlutafélag, H.f. Breiðafjarðarbáturinn, með það að markmiði, að afla skips og gera það út í strandsiglingar við Breiðafjörð. Ég bað nýlega Hannes Stefánsson, sem varð fyrsti stýrimaður á hinu nýja skipi að segja lesendum Fálkans frá því, og heimsiglingunni, sem varð mjög söguleg.
Hannes Stefánsson er Barðstrendingur, fæddur á Siglunesi á Barðaströnd árið 1892, sonur hjónanna Guðbjargar Hannesdóttur og Stefáns Kristjánssonar. Hannes fór ungur á sjóinn, svo sem venja var röskra sveina vestur þar, rétt rúmlega þrettán ára gamall. Hann fór í stýrimannaskóla á Ísafirði og lauk þar prófi árið 1913. Hann varð nokkru seinna stýrimaður á "Heru", hafði hann áður verið háseti á Varanger. Þegar mótorskipið "Hera" leysti "Varanger" af hólmi í flutningum við Breiðafjörð fluttist Hannes yfir og ári síðar á mótorskipið "Hans". Meðan austan rok og rigning hamaðist á stofuglugganum heima hjá Hannesi í Miðtúni 70, sagði hann mér söguna af því þegar Breiðafjarðar-Svanurinn var sóttur: 
Það voru sýslurnar þrjár, Snæfellnessýsla, Dalasýsla og Barðastrandarsýsla ásamt nokkrum einstaklingum, sem gengu í félag um kaup á skipinu. Það var afráðið, að láta smíða nýtt skip, seglskip með hjálparvél og samningar voru gerðir um smíði þess hjá skipasmíðastöð í Svendborg árið 1915. Valin kunnur maður, Emil Nilsen, forstjóri Eimskips, sem lengi hafði siglt hér við land var fenginn til þess að hafa umsjón með smíðinni. Upphaflega var áætlað að skipið yrði tilbúið 1. apríl 1916. Stríð geisaði í Evrópu og flest gekk úr skorðum. Smíði skipsins seinkaði og það var álitið að það yrði tilbúið á miðju sumri. Skipshöfnin var ráðin vestur í Stykkishólmi og skyldi hún sækja skipið og sigla því heim. Skipstjóri var Oddur Valentínusson, afburða sjómaður, ég var stýrimaður, Árni Kristjánsson vélamaður og Hans Jónasson háseti. Ég var tuttugu og fjögurra ára þegar þetta var og mikið hlakkaði maður til þess að koma til útlandsins. Við fjórmenningarnir lögðum af stað frá Stykkishólmi með Botníu hinn 23. maí. Komið var á ýmsar hafnir hérlendis, en síðan látið í haf og siglt til Kaupmannahafnar. Þú getur þér nærri að maður varð hrifinn af öllu þar, í stórborginni. Ekki dvöldumst við samt lengi í kóngsins Kaupmannahöfn, heldur fórum áfram til Svendborgar með járnbraut. Einnig sú ferð varð manni heilmikið ævintýri.


Hannes Stefánsson stýrimaður á Svani SH 183 á heimleiðinni.                     (C) Fálkinn 1963.
  
Ef við höfum búist við að sjá skipið okkar liggja þar og vagga sér á öldunni, tilbúið til Íslandsferðar, hlýtur okkur að hafa brugðið í brún. Smíði skipsins var hafin, en ekki mikið þar fram yfir. Ekki væsti um okkur í Svendborg. Sumarið og gróðurinn í öllu sínu veldi og ekkert annað að gera, en að sjá skipið okkar smíðað og bíða þess að það yrði tilbúið. Eftir nokkurn tíma fór mér samt að leiðast aðgerðarleysið, og fékk mér vinnu í skipasmíðastöðinni. Þar var mikill skortur á vinnuafli, því margir höfðu verið kvaddir í herinn. Það var uggur í þeim dönsku og allra veðra von. Skipasmíðastöðin var á hólma og efnið var ferjað úr landi á prömmum. Ég vann stundum við það. Kaðall var strengdur milli hólmans og lands og maður halaði sig á milli. Þetta var örstutt. Í þessari skipasmíðastöð voru byggð 300-400 lesta seglskip. Tveir broður að nafni Andersen stjórnuðu stöðinni og stjórnaði annar, Ring Andersen, trésmíðinni en hinn sá um þann hluta stöðvarinnar, sem smíðaði skip úr járni. Allt voru þetta seglskip. Ring Andersen sagði að það borgaði sig ekki að breyta gildleika banda og innviða í skipið okkar, frá því sem var "standard" hjá þeim og sem notað var í miklu stærri skip. Vegna þessa, varð skipið ákaflega sterkt. Loksins í byrjun október var það tilbúið og hlaut nafnið "Svanur", eftir gamla Svaninum frá Ólafsvík, sem Holger Clausen gerði út. Sá Svanur sigldi yfir hundrað ferðir milli Íslands og útlanda og var happaskip.
Hinn 12. október var hinn nýi "Svanur" tilbúinn og afhentur okkur. Hann var seglskip byggður úr eik og var tæpar 70 lestir brúttó. Vélin var 85 hestafla Bolinder vél. Svanurinn var tvímastraður og seglbúnaðurinn var kútter-rettning. Við fremra mastrið var stýrishúsið og sambyggt var reyksalur farþega. Þá var lestarlúga en fyrir aftan hana, við afturmastrið var lítill mótor, sem knúði vinduna og fyrir aftan hann káetukappinn. Fyrir aftan afturmastrið var eldhúsið. Tveir lífbátar voru í bátauglum sitt hvoru megin við stýrishúsið. Þess var getið um það leyti, sem við tókum við skipinu, að skipasmíðastöðin hefði tapað miklum peningum á smíði þess. Það kostaði með rá og reiða og öllu saman 65 þúsund krónur. Frá því samningur um smíðina var gerður, þar til henni var lokið urðu stórfelldar verðhækkanir. Við sigldum frá Svendborg til Kaupmannahafnar til þess að lesta fyrir Íslandsferðina. Áttum að sigla til heimahafnarinnar, Stykkishólms, og farmurinn var allur á hafnir við Breiðafjörð.
Eftir fjögurra daga dvöl í Kaupmannahöfn lögðum við af stað til Íslands, með viðkomu í Leirvík á Setlandseyjum. Það var vegna stríðsins. Auk okkar fjögurra frá Stykkishólmi bættust nú tvö í áhöfnina, danskur vélamaður og íslenzk stúlka, Sólveig Eiríksdóttir, ættuð að austan. Hún var matsveinn á leiðinni og reyndist mjög dugleg, þótt ekki væri alltaf hægt að elda eins og síðar kemur fram. Við vorum í bezta skapi að vera loksins á heimleið, eftir að vera búnir að bíða eftir skipinu á sjötta mánuð í Svendborg. Ferðin til Leirvíkur gekk að óskum. Við komum þangað um kvöld og ætluðum að sigla inn í höfnina, en urðum að hafast við utan hennar alla nóttina, vegna þess að henni var lokað með sprengjum á nóttunni. Það var gert af ótta við Þýzkarann. Um nóttina var vonzku veður og aðstæður langt frá því að vera góðar, þar sem mjög er þarna klettótt, en allt fór samt vel. Um morguninn vorum við teknir inn í höfnina. Skriffinnskan var þarna á hástigi og við urðum að bíða í níu sólarhringa eftir að skipsskjölin kæmu aftur frá London, en þangað voru þau send. Við vorum mikið fegnir að komast af stað frá Leirvík. Annað skip var þarna statt, sem einnig ætlaði til Íslands. Það var dönsk skonnorta þrímöstrúð, þrjú- til fjögur hundruð lesta skip, sem landsstjórnin hafði á leigu til vöruflutninga. Þessi skonnorta átti að fara til Ísafjarðar. Við á "Svaninum" drógum hana út fjörðinn, því hún hafði enga hjálparvél. Þar tók danska skonnortan stefnu austur fyrir Setlandseyjar vegna þess að vindur var hagstæðari, en við fórum vestur fyrir, og nutum þar vélarinnar.
Það var af þessari dönsku skonnortu að segja, að hún týndist í hafi, fórst með allri áhöfn í ofviðrinu sem nú var skammt undan. Önnur ástæða til þess að danska skonnortan fór austur fyrir eyjar var sú, að Þjóðverjar hefðu lagt tundurdufl fyrir vestan eyjarnar. Við urðum einskis varir og ferðin gekk ljómandi vel. Öll segl voru uppi og vélin flýtti fyrir. Satt að segja minnir mig að Svanurinn hafi loggað á tíundu mílu þarna, þótt aldrei væri hann mikið gangskip, en afburða sjóskip var hann. Við sigldum þarna ljúfan beitivind. Síðdegis þegar við vorum suðvestur af Færeyjum fór að hvessa og undir kvöld var komið rok. Við fækkuðum seglum, tókum niður klýverinn og messanseglið. Fokkan var sett yfir til kuls og stórseglið rifað. Ekki sáum við Færeyjar fyrir dimmviðri. Undir svona kringumstæðum var oft venja, að setja upp lítinn klýver, en þannig segl var ekki til um borð hjá okkur svo við notuðum fokkuna í staðinn. Síðan var stýrið bundið og stór-skutið sett þannig að skipið lægi til. Þrátt fyrir þetta sló því oft flötu og var lengi að komast upp í aftur. Nú var ekki annað að gera en bíða og vona hið bezta. Við höfðumst öll við í káeunni. Þar var ofn og olíulampi, en raflögn var ekki í skipinu, enda var vélin stöðvuð þegar því var lagt til. En undir morguninn reið allt í einu ólag á skipið framanvert. Það braut stýrishúsið og farþegarýmið, svo ekkert stóð eftir nema járnvinklarnir sem héldu uppi þakinu, svo og þakið. Oddur skipstjóri hafði látið taka báða björgunarbátana niður úr bátsuglunum og binda þá á hvolfi á þilfarið. Þetta sýnir framsýni hans og fyrirhyggju.


Kútterar í ólgusjó.                                                                                          (C) W.N. Bynting 1905.  

Annar báturinn brotnaði í ólaginu og tók fyrir borð að mestu og ennfremur kista með matvælum sem okkur var ætluð á heimleiðinni. Ekki mátti við svo búið standa og við hófumst handa um að útbúa rekakkeri til þess að halda skipinu uppi í. Við tókum eikartunnu, hjuggum göt á báða botna og drógum grasatóg í gegnum tunnuna. Hnýttum svo tvo hnúta við, svo hana ræki ekki að skipinu, og bundum kolapoka í endann. Síðan gáfum við út sextíu faðma og settum fast. Stórseglið og fokkan voru tekin niður og stýrið sett beint og bundið. Stýrið hafði ekki skemmst í ólaginu og áttavitinn ekki heldur, en hann var í þaki stýrishússins. Skipið lá nú vel uppi í og varði sig áföllum. Okkur rak suð-vestur og veðrið hélzt alltaf jafnmikið. Þegar birti sáum við brezkan togara skammt frá okkur. Hann andæfði, en brátt misstum við sjónar af honum í særokinu. Annars var ekkert að gera nema skiptast á um að gera útkíkk í káetukappanum. Ekki var hægt að hafast neitt að í eldhúsinu, en við gátum hitað okkur kaffi og te á ofni í káetunni. Leið svo þessi dagur og nóttin. Það vildi okkur til að ekki var frost svo ekki var hætta á ísingu. Þriðju nóttina sló skipinu allt í einu flötu og í sama bili reið á það ólag. Rekakkerið hafði slitnað frá, grastóið kubbaðist í sundur rétt fyrir framan stefnið. Það var eins og allt ætlaði sundur að ganga. Við vorum sem betur fór öll niðri og vissum ekki fyrr en tunnan, sem hafði losnað, braut hurðina í káetukappanum og kolgrænn sjór steyptist niður í káetuna. Við flýttum okkur upp, en það tók stund að rífa tunnuna úr uppgöngunni.
Það voru 40 tunnur af jarðolíu á dekki, ætlaðar fyrir skipið og við höfðum losað nokkrar þeirra í Leirvík og fyllt tankinn í stað þess sem hafði eyðzt á leiðinni frá Kaupmannahöfn. Þegar upp kom var ömurlegt um að litast á þilfarinu. Sjórinn hafði brotið borðstokkinn stjórnborðsmegin, alveg frá forvatni aftur að skammdekki. Það var eins og stytturnar væru höggnar niður við þilfarið. Eldhúsið sem var aftast á skipinu var mikið brotið, vélarkappinn brotinn og laus, messanmastrið (afturmastrið) klofið og laust. Tunnurnar lausar og rúllandi á þilfarinu. Nú reið á að koma seglum upp að nýju. ekki var vogandi að nota vélina í þessu veðri. Við gengum allir í að setja upp fokku og þrírifað stórsegl, eins og áður en rekakkerið kom til sögunnar. Stórseglið á Svaninum var þannig útbúið, að til þess að rifa það, var snúið upp á bómuna með sérstökum útbúnaði og vafðist þá seglið upp á hana um leið og gafflinum var slakað. Þannig útbúnaður var algengur á dönskum kútterum. Nú þegar við vorum búnir að koma skipinu upp í og gera sjóklárt eftir föngum fórum við að athuga káetuna. Hún var hálffull af sjó. Ofninn hafði hrunið og var ónothæfur upp frá því. Vegna þess hve allt var nýtt og þétt, rann sjórinn ekki niður í austurinn.
Við vorum á annan klukkutíma að ausa káetuna og heldur var vistin hráslagaleg þar á eftir. Ofninn hrundi og allt sem honum fylgdi, svo sem fyrr er sagt. Engin leið að hlýja upp. Skipinu hafði nú verið lagt til með stjórnborðsháls, eins og áður en við fengum fyrra áfallið og svona létum við drífa í sólarhring. Skipið féll frá öðru hvoru á stórum öldum og fjórða daginn var ákveðið að setja vélina í gang og reyna að fá það upp í. Það þætti ekki mikið vélarafl nú, að hafa rúmt hestafl á tonnið, enda fengum við skipið ekki upp í fyrr en sett var á fulla ferð. Svona var andæft og nú fór veðrið að ganga niður. Við vorum búnir að vera í blautum fötum á þriðja sólarhring en eftir að veðrið fór að batna, var hægt að kveikja upp í kabyssunni aftur á, því enda þótt eldhúsið væri mikið brotið, hafði eldavélin ekki gengið mikið úr skorðum. Við tókum stefnu fyrir sunnan Vestmannaeyjar, eftir því sem okkur reiknaðist til að skipið hefði rekið og reyndist sú áætlun rétt þegar til kom. Ekki var önnur siglingatæki við að styðjast, en vegmæli (Logg), og áttavitann. Auk þess höfðum við djúplóð, blýlóð með holu upp í og í holuna var látin feiti. Þegar dregið var upp, sá maður á feitinni hvernig botnlagið var, Veðrið fór nú síbatnandi og við tjólduðum öllum seglum og keyrðum fulla ferð. Þegar við komum að Vestmannaeyjum var komið logn og voru seglin ekki notuð það sem eftir var til Stykkishólms. Fólkið heima var íarið að undrast um okkur.
Það vissi hvenær við fórum frá Kaupmannahöfn og vissi að við mundum tefjast eitthvað í Leirvík. Það duldist hins vegar engum, þegar við komum inn á höfnina í Stykkishólmi, að skipið hafði hreppt harða raun í hafi: Allt brotið og bramlað að ofan og stóran hluta borðstokksins vantaði alveg. Svanurinn var lélegt gangskip eins og ég hef áður minnst á, en alveg afburða gott sjóskip og mjög sterkur. Annars held ég nú að enginn okkar hefði orðið til frásagnar af heimferðinni. En síðast en ekki sízt var það fyrirhyggju og frábærri sjómennsku skipstjórans okkar, hans Odds Valentínussonar að þakka að ekki fór ver. Eg man það, þegar við vorum að sjóbúa í Kaupmannahöfn. Ég var að skálka lúguna og hafði lokið því þegar Oddur kemur og segir að ég skuli binda yfirbreiðsluna á lúguna vel, miklu betur en venja var og binda þar að auki margsinnis yfir yfirbreiðsluna. Mér varð að orði, hvort skipstjórinn byggist við ofviðri á leiðinni heim. Oddur svaraði því til að hann byggist ekki við logni alla leið. Sama var þegar hann lét taka báða lífbátana niður á þilfar og binda þá þar. Það gerðist í Leirvík áður en við komumst af stað þaðan. Það eitt, hefði getað orðið okkur dýrt, að hafa þá í bátsuglunum. Oddur var afburða sjómaður, þegar í hart var komið og mikill fyrirhyggjumaður.
Austan rokið var ennþá á en hann var hættur að rigna þegar Hannes Stefánsson lauk frásögn sinni. Eins og háttur er margra þeirra er hlotið hafa herzlu í átökum við Ægi konung, óx honum ekki í augum þessi sögulega heimferð haustið 1916, sem eins og hann sjálfur tók fram, hefði auðveldlega getað endað á þann veg að af henni hefði engin frásögn verið skráð.

Fálkinn. 11 tbl. 20 mars 1963.


Lóndrangar á Snæfellsnesi. Þar rétt norðan við strandaði Svanur.             (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Vélin úr Svaninum, 85 ha. Bolinder vél árgerð 1915-16. Vélinni var bjargað úr stórgrýtisurðinni á strandstaðnum við Lónsbjörg árið 2003. Það var Páll Stefánsson skipstjóri sem það gerði með aðstoð frá þyrlusveit Bandaríkjahers. Vélin er til sýnis á Sjóminjasafninu á Hellissandi. 
(C) Þórhallur S Gjöveraa.


    V.b. "Svanur" strandar við Lóndranga

                       Mannbjörg

Arnarstapi, FB. 19. janúar. Vjelbáturinn "Svanur", á leið frá Akureyri til Vestmannaeyja með beitusíld, strandaði fyrir norðan Lóndranga í fyrrakvöld um kl. 9. Bylur var og rok, en brimlítið, og má þakka það hve brimlítið var, að mennirnir, sjö alls, komust klakklaust af. Staðurinn er afar slæmur, sker við land, grjót og urð á ströndinni. Báturinn eyðilagðist alveg. Komust mennirnir á land í öðrum bátnum, en fengu engu bjargað af eigum sínum, nema því sem þeir stóðu í. Annar skipsbáturinn fórst með skipinu. Mennirnir eru allir hjer og líður þeim vel. Skipstjóri er Kristján Kristjánsson, sem var skipstjóri á Gottu í Grænlandsleiðangrinum.
Svanur var vátryggður fyrir 40.000 krónur í Sjóvátryggingarfjelagi Íslands.

Morgunblaðið. 20 janúar 1932.


Flettingar í dag: 208
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 998
Gestir í gær: 308
Samtals flettingar: 1921259
Samtals gestir: 487202
Tölur uppfærðar: 11.7.2020 05:08:47