12.09.2018 18:44

V. b. Gunnar Hámundarson GK 357.

Vélbáturinn Gunnar Hámundarson GK 357 var smíðaður af Þorgeiri Jósepssyni á Akranesi árið 1942 fyrir Halldór Þorsteinsson útgerðarmann í Vörum í Garði. Eik og fura. 26,72. brl. 90 ha. June Munktell vél. Ný vél (1946) 130 ha. June Munktell vél. Báturinn sökk eftir að breski togarinn York City GY 193 frá Grimsby, sigldi á hann út af Sandgerði 21 ágúst árið 1950. Áhöfnin, sjö menn, bjargaðist. Fimm um borð í York City og tveir um borð í vélskipið Ingólf frá Sandgerði.


Vélbáturinn Gunnar Hámundarson GK 357.                                                  Ljósmyndari óþekktur.

   V.b. Gunnar Hámundarson GK 357

Það sem af er þessu ári hafa aðeins 3 nýir bátar bætzt í flotann. Fyrstur var tilbúinn "Gunnar Hámundarson" G. K 357, en hann kom 1. febrúar til Sandgerðis, en þaðan er hann gerður út í vetur. Byrjað var á smíði hans síðla á síðastliðnu sumri. Er hann smíðaður úr eik og furu. Hann er 26.72 brúttó rúmlestir að stærð, 49.6 fet á lengd, 13.3 fet á breidd og 6 fet á dýpt. Í honum er 80 -90 ha. June Munktell vél, sama vélin og var í "Gunnari Hámundarsyni" hinum eldri. "Gunnar" er smíðaður á Akranesi, og annaðist Þorgeir Jósepsson smíðina, en eigandi hans er Halldór Þorsteinsson útgerðarmaður í Vörum í Garði.

Ægir. 4 tbl. 1 apríl 1942.


Breski togarinn York City GY 193 var smíðaður í Smiths Dock Co Ltd. South Bank í Middlesbrough á Englandi árið 1933. 398 brl.                                                                (C) Peter H Pool.

 Gunnar Hámundarson sigldur niður í gær

                      Mannbjörg

Skipaárekstur varð í gærmorgun í ágætis veðri út af Garðskaga. Breskur togari. York City frá Grimsby, sigldi niður vjelbátinn Gunnar Hámundarson úr Garðinum. Á bátnum voru sjö menn og björguðust þeir allir ómeiddir. Báturinn var horfinn í djúpið tveim mínútum eftir að áreskturinn varð. Gunnar Hámundarson var aflahæsti reknetabáturinn hjer við Faxaflóa.
Áreksturinn varð út af Garðskagavita um kl. 10,30 í gærmorgun, um einnar klst. siglingu frá Sandgerði. Var Gunnar Hámundarson að koma úr róðri, með nær 60 tunnur síldar. Breski togarinn var að koma í veiðiför. Þegar áreksturinn varð, voru aðeins tveir menn uppi, af sjö manna áhöfn, Kjartan Ásgeirsson vjelamaður og Jónatan Ásgeirsson stýrimaður. Hinir voru allir undir þiljum. Um aðdraganda árekstursins er ekki vitað. Skipverjar á Gunnari Hámundarsyni segjast ekki hafa sjeð neitt til ferða breska togarans, og ekki vitað neitt fyrr en hann sigldi á bátinn. Togarinn kom aftan á bátinn, skammt fyrir aftan hvílu skipstjórans sem var stjórnborðsmegin. Skipverjar sem allir eru, að einum undanskyldum, á besta aldri, snöruðu sjer þegar upp, eins og þeir stóðu, fáklæddir úr hvílu og á þilfari þrifu þeir með sjer netabelgi og köstuðu sjer í sjóinn, en í sömu andránni seig vjelbáturinn hægt niður  að aftan og hvarf í djúpið. Þá munu hafa verið liðnar tvær mínútur frá því áreksturinn varð. Skipverjar á breska togaranum fóru sjer að engu óðslega við björgun skipbrotsmannanna. Þeir sem lengst voru í sjónum, biðu björgunar í um 20 mínútur. Þrír skipverja sem syndir eru, syntu að stiga, sem togaramennirnir settu niður með skipshliðinni. Þorvaldur Halldórsson skipstjóri, sem var einn þeirra er synti að togaranum, stakk sjer til sunds af borðstokk togarans, með bjarghring til eins manna sinna, sem ekki var syntur, og orðinn var talsvert þreyttur á að halda sjer á floti á netabelgnum. Tveimur skipsbrotsmönnum bjargaði svo vjelbáturinn Ingólfur frá Sandgerði, skipstjóri Bragi Björnsson, Gillandi. Komu þeir til Sandgerðis nokkru eftir hádegi. Hinir fimm, sem bjargað var um borð í togarann komu til Reykjavíkur um kl. tvö í gærdag.
Nákvæmlega var mánuður liðinn í gær, frá því að Gunnar Hámundarson hóf reknetaveiðar. Var hann aflahæsti báturinn hjer við Faxaflóa, með 1.560 tunnur. Báturinn var hið besta skip, þó ekki væri hann nema 27 tonn. Hann var byggður á Akranesi fyrir einum átta eða tíu árum. Eigandi hans var Halldór Þorsteinsson útvegsbóndi að Vörum í Garði. Þessir menn voru á bátnum:
Þorvaldur Halldórsson skipstjóri, Garði.
Kjartan Ásgeirsson. vjelamaður, Garðinum.
Einar Daníelsson frá Ísafirði.
Sigurbjörn Tómasson Keflavík.
Kjartan Jóhannsson matsveinn.
Þessir menn björguðust allir um borð í togarann.
Mb. Ingólfur bjargaði þeim Lárusi Bjarnasyni frá Reykjavík. Hann er elstur skipverja, rúmlega sextugur og Jónatan Ásgeirssyni stýrimanni. Þeir, sem togarinn bjargaði, Ijetu vel af móttökunum þar um borð. Fimm þeirra skipsfjelaga eru fjöldskyldumenn. 

Morgunblaðið. 22 ágúst 1950.


Flettingar í dag: 237
Gestir í dag: 83
Flettingar í gær: 1558
Gestir í gær: 541
Samtals flettingar: 1960234
Samtals gestir: 496291
Tölur uppfærðar: 9.8.2020 04:32:19