09.10.2018 05:47

388. Emma VE 219.

Vélbáturinn Emma VE 219 var smíðaður af Bárði Tómassyni á Ísafirði árið 1919 fyrir Johan Reyndal í Vestmannaeyjum. Eik. 16 brl. 46 ha. Densil vél. Emma var fyrsti báturinn sem Bárður smíðaði eftir að hann kom heim eftir nám í Danmörku og Englandi. Var báturinn sá fyrsti sem var plankabyggður á Ísafirði. Seldur 1920, Birni Bjarnasyni, Bjarna Einarssyni og Jóni Einarssyni í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Árið 1921 selja Bjarni Einarsson og Jón Einarsson eignarhluta sína í bátnum til Björns Bjarnasonar og Eiríki Ásbjörnssyni í Vestmannaeyjum. Ný vél (1931) 64 ha. Ellwe vél. Ný vél (1944) 70 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 27 janúar 1951, Gústaf Finnbogasyni, Guðmundi Andrési Guðmundssyni og Nikulási Níelsen í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Seldur 1 október 1952, Gústaf Sigurjónssyni í Vestmannaeyjum. Seldur 2 ágúst 1954, Árna H Bachmann í Njarðvík og Sigurði Bachmann í Keflavík, hét þá Emma GK 279. Seldur 26 júní 1963, Sigurgarði Sturlusyni í Reykjavík og Hákoni Sturlusyni í Arnarfirði, báturinn hét þá Emma RE 353. Talinn ónýtur og brenndur á þrettándabrennu í Hafnarfirði 6 janúar árið 1968.


Emma VE 219. Myndin er tekin á Ísafirði.                                             (C) Byggðasafn Vestfjarða.


Emma GK 279. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                               (C) Þórhallur S Gjöveraa.

       "Nú er glatt í hverjum hól"

Myndarleg þrettándagleði var haldin í Hafnarfirði á þrettándanum með bálför og álfadansi. Skátar í Hafnarfirði stóðu að skemmtuninni og var hún þeim til hins mesta sóma. Um leið og kveikt var í bálkestinum komu álfakóngur og drottning með fylktu liði inn á hátíðasvæðið og var farið með ýmsum tilburðum og söng. Bálkösturinn var bátsflalk af Emmu RE 353, en hún var 16 tonn að stærð og smíðuð á Ísafirði 1919. Emma var eikarbátur og fyrsti bátur sem Bárður G. Tómasson smíðaði á Íslandi eftir að hann kom heim frá námi í Danmörku og Englandi, en Bárður var fyrsti tæknimenntaði skipaverkfræðingurinn í íslenzkum skipasmíðum. Hann samdi smíðareglur um smíði trébáta eftir að hann smíðaði Emmu og gilda þær reglur enn í dag í grundvallaratriðum um smíði trébáta. Emma var lengi gerð út frá Vestmannaeyjum, var seinna seld þaðan og fór þá víða. Æviskeið sitt endaði Emma sem bálköstur á álfadansi Hafnfirðinga s.l. laugardag.

Morgunblaðið. 9 janúar 1968.


Flettingar í dag: 388
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 572
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 689334
Samtals gestir: 51465
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 11:04:33