25.10.2018 09:54

839. Sæljón RE 317. TFLI.

Vélbáturinn Sæljón RE 317 var smíðaður hjá Esbjerg Skibsværft A/S í Esbjerg í Danmörku árið 1955 fyrir Gunnar Guðmundsson útgerðarmann í Reykjavík. 62 brl. 265 ha. GM díesel vél. Ný vél (1960) 335 ha. GM díesel vél. Seldur 25 október 1961, feðgunum Kolbeini Guðmundssyni og Engilbert Kolbeinssyni á Auðnum í Gullbringusýslu, hét þá Sæljón GK 103. Seldur 14 janúar 1966, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, sama nafn og númer. Seldur 6 desember 1968, Friðþjófi hf á Eskifirði, hét Sæljón SU 103. Ný vél (1971) 335 ha. GM díesel vél. Seldur 23 ágúst 1972, Sæveri hf í Stykkishólmi, hét þá Sæljón SH 103. Báturinn var dæmdur ónýtur árið 1979, en var endurbyggður sama ár. Seldur 5 nóvember 1979, Sæljóni hf á Akureyri, hét Sæljón EA 55. Seldur 10 júlí 1981, Rán hf á Dalvík, sama nafn og númer. Báturinn sökk á Skagafjarðardýpi þegar hann var á rækjuveiðum um 25 sjómílur norður af Siglunesi eftir að óstöðvandi leki kom að honum. Áhöfnin, 3 menn, björguðust um borð í Vélskipið Bjarma EA 13 frá Dalvík.


839. Sæljón RE 317 í slipp í Reykjavík.                                               Ljósmyndari óþekktur.

        Myndarlegur vélbátur bætist                          Reykvíska bátaflotanum

Nýlega bættist reykvíska vélbátaflotanum nýr og glæsilegur farkostur, v.b. Sæljón, RE 317. Þetta er nýsmíðaður eikarbátur, byggður við Esbjerg Skibsværft í Danmörku, myndarlegt skip, rúmar 60 lestir að stærð. Eigandi hans og skipstjóri er Gunnar Guðmundsson, útgerðarmaður, Miðtúni 3 hér í bæ. Fréttamaður Vísis átti tal við Gunnar og Magnús Ó. Ólafsson stórkaupmann, sem útvegaði bátinn, og fékk að skoða þenna prýðilega farkost, en hann var á förum norður til síldveiða. Skipið er með alúminíumstýrishúsi, en vélarreisn úr stáli. 200-240 hestafla GM diesel-vél knýr skipið, sem allt er búið hinum nýtízkustu tækjum, svo sem Simrad-dýptarmæli með "útfærzlu", eins og það er nefnt, móttöku- og senditækjum frá hinu kunna danska fyrirtæki, M. P. Pedersen, svo og talstöð. Þá er vélinni að sjálfsögðu stjórnað að öllu leyti frá stýrishúsi. Það er alger nýjung í skipi þessu, að íbúðir eru klæddar plasti, en það gerir m. a. það að verkum, að auðvelt er að halda veggjum og klæðningu í svefnklefum hreinum. Frammi í skipinu eru hvílur fyrir 8 manns, fullkomin olíukynt eldavél af Scandia-gerð, og öllu mjög haganlega fyrir komið. Áhöfnin er alls 10 manns, þar af ein stúlka, sem mun matreiða handa skipsfélögum sínum, Lilja Árnadóttir frá Grindavík. Lilja Árnadóttir er enginn nýliði á sjónum, en fréttamaður Vísis gat skipzt á nokkrum orðum við hana. Hún var áður á v.b. "Gunnari" frá Hólmavík. Henni lízt ljómandi vel á skipið og plastið á veggjunum, sem hún telur til mikilla bóta.  Eruð þér sjóveik? spyr fréttamaðurinn. "Svolítið, til að byrja með," svarar hún, "en það lagast fljótlega, og þegar maður er ekki sjóveikur, er gaman að vera til sjós." Lengra varð samtalið ekki, því að hún var að sinna skyldustörfum sínum, og báturinn senn á förum.

Vísir. 24 júní 1955.


839. Sæljón EA 55.                                                                                                (C) Morgunblaðið.

      Þrír menn björguðust þegar                      Sæljón EA 55 sökk

Þrír menn björguðust í gær er Sæljón EA 55, 61 tonns eikarbátur í eigu útgerðarfélagsins Ránar hf. á Dalvík, sökk um 25 sjómílur norður af Siglunesi. Leki kom að bátnum um kl. 13.30 og var hann sokkinn kl. 18.20 í gærkvöld. Skipverjunum þremur var bjargað um borð í Bjarma frá Dalvík, en báðir bátarnir voru á rækjutrolli á Skagafjarðardýpi. Bjarmi EA kom til Dalvíkur um kl. 23 í gærkvöldi.
Arngrímur Jónsson skipstjóri á Bjarma sagðist í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld hafa verið staddur um 20 sjómílur norður af Siglunesi þegar kall hefði borist frá Sæljóni um kl. 14.00 í gær, en þá var Sæljónið statt um sex mílur norðan við Bjarma. "Skipstjórinn var fyrst og fremst að fá upp hvar ég væri nákvæmlega og lét hann mig þá jafnframt vita um ástandið um borð. Þá var kominn leki í vélarrúmi og lensurnar virkuðu ekki. Við töluðum um að hafa samband reglulega. Hann dreif sig í að hífa trollið og var búinn að því hálftíma seinna. Þá sagðist hann ætla að leggja af stað í áttina til mín og spurðist fyrir um hvort í grenndinni væru bátar eða skip með dælu enda skilst mér að útlitið hafi þá verið farið að versna töluvert.
Ekki voru þó nein skip nálæg með dælur. Um fjögurleytið kallaði hann aftur og bað mig um að koma á móti sér. Þá átti hann eftir um tvær mílur í mig. Ég hífði trollið strax og fór á móti honum. Þá var vélin farin að hiksta og mikill sjór kominn í vélarrúmið. Ég var kominn upp að honum um kl 16.30. Sex vindstig voru um þetta leyti og var heldur að bæta í'ann á meðan við vorum að koma vír á milli og þegar farið var að ná mönnunum um borð til okkar. Ég fór upp að hliðinni á Sæljóninu og bakkaði uppað svo þeir gætu stokkið um borð. Fyrst henti ég tógi um borð sem þeir hnýttu í vírinn hjá sér til að tengja á milli bátanna. Ég ætlaði að reyna að draga Sæljónið að landi svo bjarga mætti einhverju, því það var þarna á réttum kili. Þegar mennirnir voru komnir um borð og ég byrjaði að taka á, slitnaði virinn strax á milli. Ég snéri aftur upp að bátnum og sendi tvo menn með vír yfir. Þeir rétt náðu að stökkva aftur um borð í Bjarma þegar Sæljónið fór á hliðina og sökk skömmu síðar. Þá urðum við að klippa á vírinn," sagði Arngrímur að Iokum.
Þórir Ólafsson skipstjóri á Sæljóninu sagðist hafa uppgötvað leka um kl. 13.30 í gær. "Hann ágerðist stöðugt og dælurnar höfðu ekki undan. Auðvitað má segja að við höfum verið í hættu þarna. Það mátti ekki mikið út af bera. Til dæmis hoppuðum við einfaldlega á milli bátana á öldunni úr því að tíminn var orðinn naumur," sagði Þórir. Auk Þóris voru um borð í Sæljóninu þeir Gunnar Þórarinsson vélstjóri og Viðar Þórisson kokkur. Stefán Rögnvaldsson EA frá Dalvík var einnig í nágrenninu og kom hann að í þann mund er Sæljónið var að sökkva.
Rán hf. útgerðarfélag bátsins, gerir einnig út Sænes EA 75, 110 tonna stálskip. Búast má við að sjópróf fari fram í dag.

Morgunblaðið. 6 október 1988.Flettingar í dag: 382
Gestir í dag: 95
Flettingar í gær: 1558
Gestir í gær: 541
Samtals flettingar: 1960379
Samtals gestir: 496303
Tölur uppfærðar: 9.8.2020 06:23:00