31.10.2018 09:29

Bátar í höfn.

Þessi sjón var algeng hér áður fyrr í höfnum landsins, og þá sérstaklega þegar vertíðarbátarnir komu úr flestum landshornum á vertíð og gerðu út frá höfnum suðvestan lands, t.d. frá Keflavík, Grindavík og Vestmannaeyjum. Þessi tími er liðinn, öll þessi gömlu tréskip horfin á braut, voru flest þeirra úrelt í hrönnum fyrir stærri skip á árunum 1988 til 1992 og síðar. Þessi mynd er tekin í höfninni í Sandgerði um miðjan 9 áratuginn. Í forgrunni eru 4 Bátalónsbátar, smíðaðir árin 1972-73. Þeir eru ekki margir eftir, voru flestir britjaðir niður eða brenndir. Nokkrir þeirra náðu ekki 10 ára aldrinum áður en þeim var fargað, og voru þeir þó flestir í góðu standi. Þennan tíma mætti kalla "nornaveiðar tréskipanna" Bátalónsbátarnir sem eru í forgrunni eru allir farnir, 3 þeirra voru úreltir og 1 fórst með allri áhöfn, 3 mönnum. Þeir eru frá vinstri taldir;

1289. Bjarni KE 23, hét fyrst Guðný ÞH 41. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. Báturinn var smíðaður fyrir Ásbjörn Magnússon í Reykjavík 1973. Fargað og tekinn af skrá 3 nóvember 1983.

1271. Fram KE 105. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. Báturinn var smíðaður fyrir Benedikt B Guðmundsson í Keflavík 1972. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 6 apríl 1992.

1251. Knarrarnes KE 399, hét fyrst Knarrarnes GK 157. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. Báturinn var smíðaður fyrir Indriða Kristinsson og Guðjón Indriðason í Hafnarfirði 1972. Báturinn fórst um 8 sjómílur norðvestur af Garðskaga 12 mars árið 1988 og með honum áhöfnin, 3 menn.

1217. Sóley KE 15. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. Báturinn var smíðaður fyrir Svavar Ingibergsson og Gunnlaug Jóhannesson í Keflavík. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 18 júlí 1989.

Gunnlaugur Þorgilsson skipstjóri og eigandi Knarrarness KE 399, bjó um tíma í Neskaupstað (1973-76) og gerði þá út bátinn, 486. Dofra NK 100, hét fyrst Guðrún ÞH 116, smíðaður á Akranesi 1961. Gulli, eins og hann var kallaður á Norðfirði og sonur hans, Árni Kristinn og Birkir S Friðbjörnsson úr Keflavík, fórust með Knarrarnesi KE, 12 mars 1988. Ég þekkti þá feðga vel. Blessuð sé minning þeirra.


Bátar í höfn. Sjaldséð sjón nú til dags.                                                 Ljósmyndari óþekktur.
Flettingar í dag: 291
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 767
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 718112
Samtals gestir: 53374
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 05:17:04