04.11.2018 13:55

Eyfirðingur EA 480. TFBP.

Eyfirðingur EA 480 var smíðaður í Fécamp í Frakklandi árið 1908. 174 brl. 120 ha. Skandia vél. Hét áður Normanner TN 330 og var í eigu Z. Heinesen í Þórshöfn í Færeyjum. Skipið var upphaflega frönsk skonnorta og smíðuð fyrir hinn fræga vísindamann, dr. Jean Baptiste Charcot, sem fórst með skipi sínu, Porquoi Pas ? við Mýrar, 16 september 1936. Magnús Andrésson í Reykjavík hafði skipið á leigu frá Færeyjum frá árinu 1940, uns það strandaði við Raufarhöfn 10 nóvember 1945. Skipið náðist út og var gert upp í Slippnum í Reykjavík. Selt Hirti Lárussyni skipstjóra á Akureyri, hét þá Eyfirðingur EA 480. Selt 6 september 1950, Njáli Gunnlaugssyni í Reykjavík. Skipið fórst við Orkneyjar 11 febrúar árið 1952 með allri áhöfn, sjö mönnum.


Eyfirðingur EA 480 í Vestmannaeyjahöfn.                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

     Skip strandar við Raufarhöfn

Færeyska vélskipið "Normanner" strandaði í nótti við innsiglingu á Raufarhöfn. Skipið er óbrotið. "Normanner" átti að taka síldarmjöl til Reykjavíkur. Hætta er á að skipð brotni, ef veður spillist. Skip þetta mun hafa verið á vegum Magnúsar Andréssonar í Reykjavík síðustu 5 ár, en nú á förum fyrir Ríkisskip.

Morgunblaðið. 10 nóvember 1945.


Normanner TN 330.                                                                    www.vagaskip.dk

"Eyfirðingur" fórst við Hjaltlandseyjar            á miðvikudag með allri áhöfn,                                   sjö mönnum 
Þau hörmulegu tíðindi bárust hingað til lands í gærdag , að vélskipið Eyfirðingur frá Akureyri hafi farizt með allri áhöfn, sjö mönnum , á aldrinum 21 til 48 ára, á Hjaltlandseyjum á miðvikudaginn var. Skipið strandaði og sökk. Eyfirðingur, sem var 174 rúmlestir, var á leið til Belgíu, er slysið bar að höndum . Eyfirðingur er þriðja skipið í flotanum, sem ferst með allri áhöfn síðan um áramót . Eftir því, sem Mbl. tókst að afla sér upplýsinga um í gær er einn hinna látnu sjómanna fjölskyldumaður. Um annan var ekki vitað. Hinir mennirnir voru einhleypir. Sjömenningarnir áttu allir heima hér í bænum, að einum undanskyldum. Skipshöfnin var þessi:
Benedikt Kristjánsson, skipstjóri, 46 ára, Skipasundi 19. Hann lætur eftir sig konu og eitt barn, tveggja ára, og tvö stjúpbörn, 11 og 14 ára. Hann var fæddur í A-Skaftafellssýslu.
Marvin Ágústsson, stýrimaður, hefði orðið þrítugur á sunnudaginn kemur, til heimilis að Nesvegi 58. Fæddur í N-Ísafjarðarsýslu.
Erlendur Pálsson, vélstjóri, 47 ára, Laugarneskampi 10. Hann var Seyðfirðingur.
Vernharður Eggertsson, matsveinn, 42 ára, Suðurlandsbraut 9. Vernharður gekk undir nafninu "Dagur Austan". Hann var Akureyringur.
Guðmundur Kr. Gestsson, háseti, 25 ára. Hann átti annað hvort heima á Laugaveg 5B, eða að Bragagötu 29A. Hann var Reykvíkingur.
Sigurður G. Gunnlaugsson, háseti, 21 árs, Brávallagötu 12. Hann var Eyfirðingur.
Guðmundur Sigurðsson, háseti. Hann var elzti maðurinn á Eyfirðingi, 48 ára að aldri. Hann átti heima að Leiti í Dýrafirði og var Dýrfirðingur.
Eyfirðingur fór héðan frá Reykjavík laust fyrir miðnætti miðvikudaginn 6. febrúar. Hér hafði skipið lestað brotajárn og átti að flytja það til Belgíu. Ekki er kunnugt um hvar á Hjaltlandseyjum skipið fórst og ekki er kunnugt um aðdraganda þessa sviplega sjóslyss.

Morgunblaðið. 15 febrúar 1952.

   Björgunarbátur gat ekki hjálpað              "Eyfirðingi" vegna veðurs

Fregnir hafa borizt um að þrjú lík skipverja af "Eyfirðingi" hafi rekið, ásamt allmiklu af braki. Nokkru nánari fregnir hafa borizt Utanríkisráðuneytinu um hið sviplega slys. Eyfirðingur strandaði á svonefndri Edey í Orkneyja-klasa, er hún í innanverðum eyjaklasanum. Það var á mánudagsmorgun um klukkan 7 að skipið fórst. Var þá á stórviðri og þungur sjór. Þegar kunnugt varð um hættu þá er Eyfirðingur var í, var björgunarbátur sendur á vettvang til að reyna að koma skipinu til hjálpar. En hann gat ekkert aðhafst vegna veðurs. Við Edey er straumkast mikið og rak skipið upp og fórst án þess að nokkrum af skipshöfninni yrði bjargað. Eftir síðustu fregnum hefur þrjú lík rekið. Eigandi Eyfirðings er Njáll Gunnlaugsson, Öldugötu 9 hér í bæ.
Eyfirðingur var upphaflega franskt skip, smíðað fyrir hinn fræga vísindamann, dr. Charcot, er drukknaði upp við Mýrar. Hér var því bjargað af strandi, en þá var það færeyskt. Var það endurbyggt í slippnum og hlaut nafnið "Eyfirðingur".

Morgunblaðið. 16 febrúar 1952.Flettingar í dag: 1367
Gestir í dag: 498
Flettingar í gær: 2631
Gestir í gær: 554
Samtals flettingar: 1959806
Samtals gestir: 496165
Tölur uppfærðar: 8.8.2020 19:33:22