19.11.2018 18:03

527. Hafnfirðingur GK 330. TFKR.

Vélskipið Hafnfirðingur GK 330 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1947 fyrir Stefni hf í Hafnarfirði. Eik. 65 brl. 240 ha. Tuxham vél. Ný vél (1954) 265 ha. Alpha díesel vél. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 16 september árið 1970. Báturinn mun hafa verið notaður til flutninga á síldarúrgangi frá Mjóafirði til síldarbræðslu SVN í Neskaupstað, sennilega seint á 7 áratugnum. Sökk síðan í Mjóafirði, veit ekki hvenær það var, eða hvers vegna.


Hafnfirðingur GK nýsmíðaður í Frederikssundi.                                      (C) Gunnar Egill Sævarsson.

        Nýr bátur til Hafnarfjarðar 

Nýr bátur kom til Hafnarfjarðar í gær frá Danmörku. Nefnist hann Hafnfirðingur, er 66 smálestir að stærð og eign hlutafélagsins "Stefnir" í Hafnarfirði. Guðjón Illugason var skipstjóri á bátnum hingað upp, en Eggert Kristjánsson mun taka við stjórn hans hér. Þetta er þriðji báturinn sem "Stefnir" h. f. kaupir í Danmörku, hinir heita Fram og Stefnir og eru báðir 66 smálestir.

Þjóðviljinn. 8 febrúar 1947.


Um borð í Hafnfirðingi GK 330.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.


Hafnfirðingur GK 330 til hægri ásamt Fiskaskaga AK 47.                  Ljósmyndari óþekktur.

Dekkið á bátnum var þakið skothylkjum

  Tveir aldraðir sjómenn rifjuðu upp daginn þegar
 Hafnfirðingur GK 330 breyttist í léttvopnað herskip.

Þeir voru rúmlega tvítugir og hásetar á Hafnfirðingi GK 330 sem var einn af mörgum bátum á síldveiðum á Faxaflóanum. Notuð voru reknet og eins og oft áður voru háhyrningavöður til vandræða. Dýrin eru yfirleitt nokkur saman í vöðu eða hóp, þau elta síldina og tæta í sundur reknetin. Þórir Sigurjónsson og Gunnar Hallgrímsson í Vogum á Vatnsleysuströnd eru báðir komnir í land enda búnir að skila sínu á sjónum. En um miðjan sjötta áratuginn, þá minnir að þetta hafi verið árið 1954, voru þeir ungir menn og muna vel eftir tveim óvenjulegum gestum frá varnarliðinu. "Við vorum á Hafnfirðingi fram undir 1960, hann var smíðaður í Danmörku og listasjóskip. En maður var alveg skíthræddur, þetta var hálfgerð sjóorrusta og það var svo stutt á milli bátanna á miðunum þegar þeir voru að skjóta. Þeir skutu sumir rétt yfir næsta bát," segir Gunnar. Hann segir það hafa verið lán að enginn skyldi verða fyrir slysaskoti. "Ég vissi ekki alltaf hvort þetta voru Íslendingar eða Kanar að skjóta en kúlurnar voru fljúgandi út um allt." Skipin voru frá öllum helstu höfnum á svæðinu, úr Keflavík, Sandgerði, Hafnarfirði, Reykjavík og af Akranesi. "Við vorum aðallega á Miðnessjónum en líka á Jökuldjúpinu. Ég held að það hafi verið sendir tveir hermenn með hverjum bát og í flotanum hafa sennilega verið 70 til 80 skip. Þetta hafa því verið vel á annað hundrað hermenn," segir Þórir. Þeir segja að mikið hafi verið af háhyrningi um þetta leyti en nokkur áraskipti eru á því. "Við vorum átta manns á skipinu, einn í kapli og sjö að hrista úr netunum. Það voru 60 net í dræsunni.
Í sólskini vorum við glansandi fínir, eins og pallíettur í framan af síldarhreistrinu!" segir Þórir. Þegar lagt var upp í háhyrningaleiðangurinn var klukkan líklega fimm eða sex um morguninn. Einn skipverjanna gat bjargað sér vel í ensku svo að samskiptin voru í þokkalegu lagi en ekki vita þeir Þórir og Gunnar hvaðan úr Bandaríkjunum hermennirnir tveir voru. Hermennirnir virtust báðir algerlega óvanir sjónum, greinilega úr landhernum. Þeir voru í fullum herklæðum, klyfjaðir töskum og með hermannanesti, "súkkulaði og annað dót". Báðir voru með riffla og mikið af skotfærum. Annar riffillinn var öflugur og sjálfvirkur, búinn sjónauka, hinn nokkru minni. - En hvernig stóðu þeir sig? "Annar var nokkuð seigur," segja þeir. "Hann var allan tímann uppi og virtist vera spenntur fyrir þessu, hafa gaman af. Hinn varð strax sjóveikur, alveg fárveikur. Hann fór að vísu upp á dekk, fram á stefnið og lagðist þar niður með byssuna. En hann var fljótur niður aftur og líklega náði hann ekki að skjóta nokkru skoti. Þá fékk einn hásetanna byssuna hans lánaða og skaut eitthvað og líklega skaut einn háseti í viðbót. Þeir kunnu þó að standa ölduna, það var alveg á hreinu. Hinn var allan tímann uppi í brú með sinn riffil og skaut í allar áttir. Hann var harður af sér og skaut meira að segja í sundur einn eða tvo vanta hjá okkur! Dekkið við brúna var alveg þakið tómum skothylkjum, þau runnu til í veltingnum. Og þeir voru með nóg af skotfærum." - Fór á milli mála að ætlunin var að reyna að skjóta dýrin, menn ætluðu ekki bara að hræða þau? "Nei, það var alveg ljóst, menn ætluðu að drepa þau og við sáum blóð í sjónum eftir skothríðina. Þessi dýr ollu miklu tjóni, tættu í sundur netin og stundum var allt í henglum, það var nóg að gera á netaverkstæðunum. Einn skipstjórinn reyndi að hífa dauðan háhyrning upp úr sjónum með bómunni en hún brotnaði, þoldi alls ekki svona mikinn þunga. Þetta var eini dauði háhyrningurinn sem við sáum þennan dag."
Ekki vita þeir til þess að hermenn hafi verið sendir út með síldarbátum annars staðar en á Faxaflóa en muna eftir frásögnum af sprengjuárásunum sem síðar voru gerðar úr lofti á hvalina. - Hvert var upphafið að þessum aðgerðum? Rædduð þið skipverjarnir um þær og hvað fannst ykkur? "Við tókum þátt í þessu alveg af lífi og sál!" segir Gunnar og hlær. "Þetta voru skaðræðisskepnur hérna á miðunum. Þeim fór fjölgandi ár frá ári." Hann telur að skýringin geti verið að meira hafi verið af síld en áður og hvalir elti hana gjarnan, syndi í kringum torfurnar til að þétta þær áður en lagt er til atlögu. En hann efast um að drápin hafi haft umtalsverð áhrif, þau hafi ef til vill fækkað eitthvað dýrunum og fælt þau burt í svolítinn tíma en síðan hafi þau komið aftur. "Ég man að menn voru eitthvað að ræða um þetta á sínum tíma í talstöðvunum, að eitthvað þyrfti að gera í málinu," segir Þórir. "En það þurfti náttúrulega að fara í gegnum ríkisstjórnina þegar varnarliðið var beðið um aðstoð, annað var útilokað. Það voru engir hvalavinir um borð og ekkert spáð í það hvort það væri í lagi að fara svona með dýrin. Það var bara ákveðið að reyna að koma þessum skepnum burt, með öllum ráðum og ekkert reynt að fela það. Ég held að enginn hafi verið á móti þessu þá. En þetta var alvörumál á þessum tíma. Menn vildu losna við skepnurnar til þess að hægt væri að veiða síldina í friði fyrir þeim," segir Þórir að lokum.

Morgunblaðið. 21 september 2003.Flettingar í dag: 1310
Gestir í dag: 444
Flettingar í gær: 1092
Gestir í gær: 456
Samtals flettingar: 2034144
Samtals gestir: 520383
Tölur uppfærðar: 29.9.2020 10:14:08