02.12.2018 10:40

Alpha BA 128.

Seglskipið Alpha BA 128 var smíðuð á Borgundarhólmi í Danmörku árið 1882. Eik og fura. 13 brl. Tvístefnungur svokallaður. Það mun hafa verið Þorsteinn Egilsson kaupmaður og útgerðarmaður í Hafnarfirði sem keypti hana árið 1883. Alpha kom þá um vorið með danska áhöfn til síld og þorskveiða. Veiðarnar gengu illa, og var orðið svo áliðið hausts er veiðunum var hætt, að skipstjóri treysti sér ekki heim á svo litlu fari og tók það ráð að selja bátinn. Hinrik Á Hansen, sjósóknari og aflamaður mikill var um tíma skipstjóri á Alpha á meðan hún var gerð út af Þorsteini kaupmanni. Um aldamótin 1900, keypti Ólafur G Jónsson bóndi í Haukadal í Dýrafirði bátinn. Árið 1911 er Alpa skráð ÍS 156 og þá komin í eigu Péturs A Ólafssonar á Patreksfirði. Frá árinu 1912 er skipið skráð Alpha BA 128. Árið 1920-21 er Alpha gerð út af Ólafi Jóhannessyni útgerðarmanni á Patreksfirði. Árið 1922 er hún gerð út af E.M. Bachmann á Patreksfirði. Alpha er síðan gerð út af Pétri kaupmanni á Patreksfirði til ársins 1930-31. Báturinn var umbyggður á Patreksfirði árið 1926, einnig var sett 28 ha. Grey vél í bátinn. Ný vél (1935) 40 ha. Bolinder vél. Báturinn mun hafa gengið á milli manna til ársins 1941, er Andrés Finnbogason skipstjóri og Baldur Guðmundsson kaupfélagsstjóri á Patreksfirði kaupa hann. Seldur árið 1942, Árna Ingimundarsyni á Akranesi. Seldur 5 október 1943, Jóhanni Guðjónssyni (Jói blakk) í Keflavík, hét þá Alpha GK 282. Seldur 1949-50, Óskari Einarssyni í Keflavík, hét Alpha KE 40. Seint á árinu 1950, heitir báturinn Vísir RE 225 og gerður þá út frá Grindavík. Eigandi gæti verið sá sami og áður, ekki viss um það. Báturinn sökk út af Staðarbergi á Reykjanesi 18 janúar árið 1951 eftir að mikill leki kom að honum. Var báturinn þá með vélbátinn Hilmi úr Keflavík í togi, en Hilmir hafði fengið í skrúfuna. Mannbjörg varð.

Andrés Finnbogason skipstjóri og útgerðarmaður getur þess í ævisögu sinni,"Nú er fleytan í nausti" skráð af Guðmundi Jakobssyni 1983; að Alpha hafi verið einn af "Árnapungunum" svokölluðu og sennilega er það rétt hjá honum.
Í fiskiskýrslum frá árinu 1911 er Alpha skráð ÍS 156.


Mótorbáturinn Alpha BA 128. Myndin gæti verið tekin eftir endurbygginguna sem gerð var á honum árið 1926 og þá nýlega orðinn mótorbátur.      (C) Pétur A Ólafsson ? 

        Sökk við að draga annan                              bát til hafnar

Skömmu eftir miðnætti í fyrrinótt var vélbáturinn Vísir frá Grindavík staddur nokkuð út af Grindavík með vélbátinn Hilmi frá Keflavík í togi. Hafði Hilmir fengið kaðal í skrúfuna og var ósjálfbjarga. Nokkur sjór var og fékk Vísir á sig þrjá sjói ,allstóra og reyndi of mikið á sig við dráttinn. Kom svo mikill leki að honum að skipverjar urðu að yfirgefa hann. Óðinn kom von bráðar á vettvang og tók skipverja af Visi um borð, og Hilmi í tog og fór með hvort tveggja til Reykjavíkur. Kom hann þangað í gærkveldi.
Vísir var gamall bátur, smíðaður 1882, 13 smálestir að stærð. Slysavarnarfélagið varaði skip og báta er eiga leið um þessar slóðir við því, ef flakið af Vísi kynni enn að mara í sjávarborði.

Tíminn. 19 janúar 1951.


Flettingar í dag: 363
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 418
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 697902
Samtals gestir: 52751
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 12:37:51