26.12.2018 09:38

B. v. Earl Hereford RE 157. LCDT.

Botnvörpungurinn Earl Hereford RE 157 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1906 fyrir Earl Steam Fishing Co (Alick Black) í Grimsby, hét fyrst Earl Hereford GY 147. 273 brl. 465 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 110. Seldur 21 desember 1912, Christian M Evensen í Þórshöfn í Færeyjum, sama nafn. Seldur í febrúar 1915, Halldóri Kr Þorsteinssyni og Fiskveiðahlutafélaginu Eggert Ólafssyni í Reykjavík. Halldór átti helmings hlut á móti félaginu. Hét þá Earl Hereford RE 157. Togarinn var seldur franska flotanum í ágúst 1917, ásamt 9 öðrum íslenskum togurum. Fékk þá nafnið Guenon. Seldur 1919, F. Evan í Lorient í Frakklandi, hét Pen-er-Vro. Seldur 1925, L. Ballias & Cie í Lorient, hét þá Rauzan. Seldur 1936, G. Gautier, E & A. Gautier Fils & Cia í Laurient. Árið 1942 er togarinn tekinn í þjónustu þýska flotans og bar þá númerið V421. Togarinn var að lokum rifinn í brotajárn árið 1951.

S.t. Earl Hereford GY 147 var skráður 258,77 brl. í enskum skipaskrám en í þeirri íslensku var hann skráður 272,79 brl.


B.v. Earl Hereford RE 157 á Reykjavíkurhöfn.                                   Mynd á gömlu póstkorti.

   Botnvörpungurinn Earl Hereford

Halldór Þorsteinsson skipstjóri kom hingað í gær á botnvörpuskipinu, sem hann keypti í Bretlandi. Er það Earl Hereford, sem lengi hefir verið við veiðar hér við land.

Morgunblaðið. 10 febrúar 1915.


B.v. Earl Hereford RE 157 fánum príddur á Reykjavíkurhöfn við komu Lagarfoss hinn 19 maí árið 1917. Eimskipafélagið hafði leigt togarann til að ferja stjórn félagsins og aðra góðborgara til móts við hið nýja skip.     Ljósmyndari óþekktur.

          "Earl Hereford" kemur

          Viðtal við skipstjórann

Vér áttum í gær viðtal við Guðmund Jónsson, skipstjóra á botnvörpungnum "Earl Hereford". Kom skipið hingað í gærmorgun beina leið frá Grimsby. Spurðum vér Guðmund frétta frá stríðinu.  - Vér komum til Hull þ. 14. þ.m. Á Humberfljótinu kom til okkar brezkur tundurbátur, sem spurði oss hvaðan vér kæmum og hvað vér hefðum meðferðis. Var yfirmanni bátsins sérstaklega ant um að vita hvort nokkrir væru þýzkir eða austurrískir sjómenn á skipinu. Tjáði hann oss að vér eigi mættum halda áfram upp fljótið fyr en dagaði og þá eigi lengra en að tilteknu vitaskipi á fljótinu. Þegar þangað kom var oss enn sagt, af öðru brezku herskipi, að hafa uppi svo tiltekin merki og halda ekki lengur fram ferðinni en að tveim beitiskipum, sem lágu ofar á fljótinu, og var oss gefinn vari um að halda ekki á hlið við þau.
Straumur var í fljótinu og bar skip vort upp fljótið, þegar að beitiskipunum kom, nær þeirri línu, sem bannað var að fara yfir. Fremra beitiskipið var þá farið að skjóta og skullu kúlurnar skamt fyrir framan skip vort. Vér snerum þá við, en síðar var mér tjáð, að hefði oss eigi tekist að stöðva skipið, þrátt fyrir strauminn, þá hefði beitiskipið skotið á »Earl Hereford«. Þegar til Grimsby kom láu þar nær allir botnvörpungar frá þeim bæ. En þann dag, var nokkrum leyft að fara út á fiskiveiðar til Íslands og Færeyja. Í Norðursjónum fá þeir eigi að fiska. Sagt var í Grimsby að um 60 botnvörpungar væru að draga á fyrir þýzkum sprengiduflum í Norðursjónum. Black útgerðarmaður í Hull, hafði meðal annars leigt brezku stjórninni öll sín skip til þessa. Aðdrættinum haga þeir þannig, að tvö skip fara saman og hafa vírstreng á milli sín svo neðarlega í sjónum, að hann lendir undir duflinu á taug, sem liggur ofan í stjórann. 

Guðmundur kvað ágætis markað fyrir fisk í Bretlandi og siglingu þangað hættulausa með öllu.

Morgunblaðið. 23 ágúst 1914.


Flettingar í dag: 1999
Gestir í dag: 683
Flettingar í gær: 1092
Gestir í gær: 456
Samtals flettingar: 2034833
Samtals gestir: 520622
Tölur uppfærðar: 29.9.2020 23:11:02