02.02.2019 18:39

821. Sæborg BA 25. TFBE.

Vélskipið Sæborg BA 25 var smíðað í Bardenfleth í Þýskalandi árið 1956 fyrir Kamb hf á Patreksfirði. 66 brl. 280 ha. MWM vél. Selt 20 maí 1967, Sveini Valdimarssyni og Hilmari Árnasyni í Vestmannaeyjum, hét Sæborg VE 22. Ný vél (1971) 425 ha. Caterpillar vél. Selt 16 desember 1972, Heimi hf í Keflavík, hét þá Sæborg KE 177. Ný vél (1979) 425 ha. Caterpillar vél, 313 Kw. Selt 25 september 1981, Sæborgu sf á Blönduósi og Særúnu hf, einnig á Blönduósi, hét Sæborg HU 177. Selt 1988, Sæborgu sf í Ólafsvík, hét þá Sæborg SH 377. Skipið fórst í róðri 7 mars árið 1989 eftir að hafa fengið á sig tvö brot. Einn maður fórst, Magnús Þórarinn Guðmundsson skipstjóri frá Ólafsvík. 7 skipverjar komust í gúmmíbjörgunarbát við illan leik og var bjargað um borð í vélskipið Ólaf Bjarnason SH 137 frá Ólafsvík.

821. Sæborg BA 25 nýsmíðuð í Þýskalandi.                                      Ljósmyndari óþekktur.

     Nýr stálbátur til Patreksfjarðar

Patreksfirði í gær. Nýr stálbátur kom hingað í morgun frá Þýzkalandi. Er  þetta 67 tonna skip. Báturinn  hreppti versta veður á leiðinni heim frá Þýzkalandi og segja skipverjar, að báturinn hafi reynzt mjög vel. Var báturinn 6 sólarhringa á leiðinni en yfirleitt voru 11 vindstig. Hinn nýi bátur ber nafnið Sæborg og er eign Kambs h.f. Skipstjóri er Gísli Snæbjörnsson og er hann einn hluthafi. Aðrir hluthafar eru Hraðfrystihús Patreksfjarðar og ýmsir einstaklingar.

Alþýðublaðið. 29 desember 1956.


Áhöfnin sem sótti Sæborgu til Þýskalands. Þeir eru frá vinstri talið; Andrés Finnbogason skipstjóri, óþekktur, Jón Þórðarson kokkur, Jón Magnússon síðar útgerðarmaður á Patreksfirði, Gísli Snæbjörnsson, Finnbogi Magnússon og Ingimar Jóhannesson.     Ljósmyndari óþekktur.


Sæborg BA 25 á siglingu.                                                                    Ljósmyndari óþekktur.

     Sæborg SH 377 sökk á Breiðafirði

      Sjö björguðust, eins er saknað

Sæborg SH 377, 66 tonna bátur frá Ólafsvík sökk, á Breiðafirði um kl. 20.30 í gærkvöldi. Átta manns voru um borð og var sjö þeirra bjargað af Ólafi Bjarnasyni SH-137 sem staddur var í grenndinni. Mikil leit var gerð að þeim sem saknað er af Sæborgu í gærkvöldi og tóku átta skip þátt í henni, en auk þess er varðskip á leiðinni. Senda á flugvél Landhelgisgæslunar til leitar í birtingu í dag. Björn Erlingur Jónasson skipstjóri á Ólafi Bjarnasyni segir að hann hafi heyrt neyðarkall frá Sæborgu laust fyrir kl. 20.30. Þá var Sæborgin stödd um 4-5 mílur undan Rifi á leið til Ólafsvíkur og átti eftir um klukkutíma siglingu til heimahafnar eftir veiðitúr. Björn segir að Sæborgin hafi sokkið mjög skyndilega eftir að hafa fengið á sig brot að hann telur. Veður á þessum slóðum var fremur slæmt, austan 7-8 vindstig með frosti og fór versnandi. Þeir sem Ólafur Bjarnason bjargaði tókst að komast um borð í gúmmíbjörgunarbát. Björn Erlingur segir að ekkert hafi amað að þeim er þeir voru teknir um borð í Ólaf.

Morgunblaðið. 8 mars 1989.

   Fengum á okkur tvö brot hvort á eftir öðru
     segir Eymundur Gunnarsson stýrimaður                                       á Sæborgu

Eymundur Gunnarsson stýrimaður á Sæborgu segir að skipið hafi fengið á sig tvo brotsjói hvorn á eftir öðrum með þeim afleiðingum að skipið lagðist á hliðina og sökk. Við fyrra brotið fylltist skipið af sjó á stjórnborðsvæng og reyndi skipstjórinn þá að keyra það upp í á fullu vélarafli til að reyna að losa það við sjóinn. Í því kom seinna brotið og þá lagðist skipið á hliðina og sökk skömmu síðar. "Við sem björguðumst gátum allir skriðið út um gluggana bakborðsmegin og upp á skipið þar sem við losuðum um gúmmíbjörgunarbátinn." Segir Eymundur. "Við stukkum síðan frá borði og tókst að komast í gúmmíbjörgunarbátinn. Ólafur Bjarnason kom síðan að okkur um 15 mínútum síðar og tók okkur um borð." í máli Eymundar kemur fram að Sæborgin var á siglingu til Ólafsvíkur eftir veiðiferð. Er veður tók að versna bað skipstjórinn alla um borð að koma aftur í brú og vera við öllu viðbúna. Sjólag fór síðan stöðugt versnandi eftir það. "Það sem einnig gerðist við seinna brotið var að það drapst á vélinni og eftir það varð ekki við neitt ráðið," segir Eymundur. "Ég vil taka það fram að ég og annar skipverji um borð vorum í vinnuflotgöllum og ég tel að það hafi alveg tvímælalaust bjargað lífi okkar." Í máli Eymundar kemur fram að þeir hafi svo komið til Ólafsvíkur um kl.21.30 um kvöldið og þá farið allir í heilsugæslustöðina en fengið að fara þaðan að lokinni skoðun.

Morgunblaðið. 8 mars 1989.


  
Flettingar í dag: 487
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 708
Gestir í gær: 231
Samtals flettingar: 1922865
Samtals gestir: 487669
Tölur uppfærðar: 13.7.2020 20:11:47