17.02.2019 08:08

Evangersverksmiðjan á Siglufirði.

Árið 1907 hafði mjög sneyðst um það land sem nothæft var fyrir umsvifamikla útgerð og síldarsöltun Norðmanna á Siglufirði. Hvanneyrin var orðin þéttsetin og nokkuð farið að nýta sjávarlóðir í landi Hafnar, sunnan eyrarinnar. Gustav og Olav Evanger frá Eggesbönes á Sunnmæri fengu það sumar lóð í landi Staðarhóls, hér austan fjarðar. Strax var hafin bygging síldarstöðvar með fiskihúsi og bryggju og Herlö, gufuskip þeirra, landaði þar síld til söltunar. Það blés byrlega fyrir hinum framkvæmdasömu bræðrum og hafinn var undirbúningur að byggingu stórrar og fullkominnar síldarverksmiðju.
Með samningi við fyrirtækin H. F. Hartner og Thomas Morgan & Sohn í Hamborg var stofnað hlutafélagið a/s Siglufjord Olje & Guanofabrik og annaðist það rekstur hinnar glæsilegu síldarverksmiðju sem tók til starfa í ágúst 1911 - einnar þeirrar fyrstu á landinu.
Verksmiðjuhúsið var byggt úr timbri, þrílyft á steyptum grunni, 50 álnir á lengd (31,4 metrar) og 20 á breidd (12,5 metrar). Á jarðhæð var 140 hestafla vél knúin gufuafli. Gufan var leidd í járnrörum frá kolakyntum gufukatli. Reim frá gufuvélinni lá upp á næstu hæð og sneri þar löngum öxli. Á öxlinum voru margar og misstórar reimskífur og þaðan lágu reimar upp og niður og sneru pressum, kvörnum, færiböndum og margs konar öðrum vélbúnaði. Allt var upplýst með rafmagni frá gufutúrbínu.
Fyrir framan þetta stórhýsi, í fjörunni, var mikil steinsteypt síldarþró. Úr henni var síldin flutt með færibandi í sex suðukör á efstu hæð. Milli 80 og 100 manns unnu við verksmiðjuna og var afkastagetan um 500 mál síldar,  eða 60 lýsisámur og 100 mjölsekkir á sólarhring. Forstjóri verksmiðjunnar var Gústav Evanger. Ofurlítið þorp reis smám saman á staðnum. Þótti Siglfirðingum það tilkomumikið á síðkvöldum að sjá ljósadýrðina þar speglast í lognkyrrum sjávarfletinum og gufumökkinn frá síldarbræðslunni hverfa út í rökkrið.
Þann 12. apríl 1919 féll gríðarlegt snjóflóð af brúnum Staðarhólshnjúkanna nærri 1000 metrar á breidd og gjöreyddi mannvirkjum Evangersbræðra, húsum og bryggjum. Níu manns biðu bana í snjóflóðinu. Þótt slysið væri Evangersbræðrum mikið áfall byggðu þeir aftur upp á Staðarhólsbökkum 1922 og ráku þar umtalsverða síldarsöltun í nokkur ár áður en umsvifum þeirra á Íslandi lauk endanlega.

Heimild: Síldarminjasafnið á Siglufirði.


Síldarbræðsla Evangersbræðra á Staðarhólsbökkum við austanverðan Siglufjörð. Þessi verksmiðja var hin fyrsta stóra síldarbræðsla sem reyst var hér á landi.       (C) Örlygur Kristfinnsson.


Evangersverksmiðjan á Staðarhólsbökkum. Þetta er eina ljósmyndin sem vitað er um með vissu að til er af þessari síldarbræðslu.     Ljósmyndari óþekktur.

     Landnám Norðmanna og fyrsta
    úthafssíldin berst til Siglufjarðar

Svo segir í Landnámu: "Þormóður inn rammi hét maðr. Hann vá Gyrð, móðurföður Skjálgs á Jaðri, og varð fyrir það landflótti og fór til Íslands. Hann kom skipi sínu í Siglufjörð. Hann deildi við Ólaf bekk (Iandnámsmann í næsta firði) og varð sextán manna bani áðr en þeir sættust".
Fyrsti íbúi Siglufjarðar var því norskur víkingur, sem lét sverðið gera út um vandamálin, að þeirra tíma sið. Eftir því sem sagan greinir, var það fyrir hreina tilviljun, að hann nam land í Siglufirði. Ísland var þá að mestu fullnumið, nema útnes og litlir firðir. Skjálgur á Jaðri var einn mesti höfðingi Noregs á sinni tíð. Hann var faðir Erlings Skjálgssonar, eins helzta stuðningsmanns Ólafs Tryggvasonar. Og þessi tilviljun, að Þormóður rammi skyldi óvingast svo gróflega við þennan áhrifamikla höfðingja, neyddi hann til að leita skjóls á Íslandi, nánar tiltekið á Siglufirði. - Engar sögur fara af afkomendum Þormóðs ramma og reyndar lítið sagt frá Siglfirðingum í íslenzkum sögnum, allt fram undir síðustu aldamót, en þá má segja, að Norðmenn hafi numið land á Siglufirði í annað sinn.
Þetta annað Iandnám Norðmanna í Siglufirði hófst með síldveiðunum á úthafinu fyrir Norðurlandi. Það var árið 1903, sem þetta tímabil hófst með komu fyrstu úthafssíldarinnar til Siglufjarðar. Ole Tynes, Norðmaður, sem bjó á Siglufirði um áratugi og rak þar umfangsmikla útgerð og síldarsöltun, skrifar eftirfarandi um þessi merku tímamót:
 "Um miðaftanleytið 8. júlí 1903 flýgur sú fregn eins og eldur í sinu meðal íbúa þorpsins, að seglskip væri í augsýn úti á hafinu á leið til Siglufjarðar. Skipið mjakast ofurhægt inn fjörðinn og það varpar akkerum framan við bryggju þorpsins. Báti er skotið út frá skipinu, sem ber nafnið "Marsley". Báturinn rennir að bryggju, skipstjórinn stígur á land. Um það voru allar konur, sem þarna voru staddar, sammála, að skipstjórinn, sem þarna kom neðan bryggjuna, væri langfallegasti Norðmaðurinn, sem nokkru sinni hefði stigið fótum á Siglfirzka grund. Hann var um þrítugt, hár og íturvaxinn, ljós yfirlitum og norrænn á svip. En þarna á malarkambinum voru saman komnir því nær allir íbúar Siglufjarðarþorps, ungir og gamlir, enda var fólksfjöldinn ekki mikill í þá daga. Allir vildu fagna og heilsa hinu nýja skipi. Þá var einhver, sem spurði, hvað það væri, sem skip hans hefði á þilfari og glitraði svo mjög. Þá brosti skipstjóri og sagði, að það væri síld. - Síld? - Já, Við létum reka í fyrrinótt og fengum þá ellefu tunnur. En svo létum við reka aftur í nótt, og þá komu í netin sextíu og sjö tunnur síldar. Við verðum að fá hjálp til að koma þessu í salt. Skipið leggst að bryggju og allt kemst á ferð og flug. Snjóhvítar tunnur hlaðast upp í stafla ofan við bryggjuna. Og er þannig hafði gengið um stund, hófst sá starfinn, sem mest var um verður: Fyrsta hafsildin, sem veidd var á djúpmiðum, er affermd til söltunar á Siglufirði. Klukkan eitt miðnættis er fyrsta siglfirzka hafsíldin komin í salt. Fólkið er að hætta og farið að þvo sér og þrífa sig. Þá kemur skipstjórinn með tvær litlar skjóður. Hann ber sína í hvorri hendi. Hann sezt á tóman síldarstamp og hefur hreina heiltunnu fyrir afgreiðsluborð. Og þarna greiðir hann fólkinu kaup þess í glerhörðum peningum. Þetta var nýlunda á Siglufirði. Hver gengur til sinna heimkynna í blíðu sumarnæturinnar í þann mund, er nætursólin hellir geislaflóði sínu yfir bæinn og breytir hverri rúðu í lýsigull. Á morgun er helgidagur. Þetta er sunnudagsnótt. Nú eru peningar komnir inn á hvert heimili á Siglufjarðareyri. Menn leggjast til hvílu ánægðir í friði og kyrrð sólskinsnæturinnar. Í hverju brjósti ríkir óvenjulegt öryggi og sælublandin von. Menn sofna með bros á vör. Það er kominn nýr dagur. - Nýi tíminn hefur haldið innreið sína í hið litla, fátæklega þorp norður við heimskautsbauginn." Þannig byrjaði síldarævintýrið á Siglufirði.

Sveitarstjórnarmál. 3 hefti 1 júní 1976.


Síldarsöltunarstöð Norðmannsins Hans Söbstad á Siglufirði. Talið er að síldin úr reknetaskipinu Marsley hafi verið söltuð í þessari stöð 8 júlí 1903. Þessi síldarstöð Söbstads brann til grunna hinn 6 júlí árið 1919 ásamt íbúðarhúsi og tunnuverksmiðju.   (C) Sílsarsaga Íslands.

              Snjóflóð í Siglufirði Stórkostlegar skemmdir og manntjón

Siglufirði í gær. Í nótt kl. 4 féll snjóflóð úr Staðarhólsfjalli og tók með sér allar byggingar Evangers, að einu litlu húsi undanskildu, og bar á sjó út. Flóðbylgjan gerði afskaplegar skemmdir hérna megin fjarðarins, mölvaði allar bryggjur og fjölda skipa og bata. Um manntjón er ókunnugt, því að ófært hefir verið yfir um vegna roks og fádæma stórhríðar, en því miður líklega eitthvað. Skaðinn skiftir hundruðum þúsunda króna. Hér er komin svo afskapleg fönn, að heita má að bærinn sé kominn í kaf. Nánar í kvöld eða á morgun. Annað símskeyti, sem hingað barst frá Siglufirði, hermir það að 18-20 manns muni hafa látið lífið í snjóflóðinu, en vonandi er að sú fregn sé orðum aukin.

Morgunblaðið. 13 apríl 1919.

         Snjóflóðið mikla í Siglufirði

Snjóflóðið mikla, sem féll í Siglufirði aðfaranótt laugardagsins, mun hafa valdið meira tjóni en nokkurt annað snjóflóð hér á landi. Það hljóp ofan úr háfjalli og kom fyrst á bæinn Neðri-Skútu. Heimilisfólkið þar, sjö talsins, mun hafa verið í fasta svefni, er flóðið reið á bæinn með ómótstæðilegu afli. En bærinn var þéttari fyrir heldur en timburhús og sópaðist eigi brott, heldur fór í kaf. Óttuðust menn að fólkið mundi allt hafa biðið bana, Og því kom sú fregn fyrst, að um 20 manns mundi hafa farist. En í fyrradag var þó gerð tilraun til þess að grafa upp bæinn og fannst þá fólkið allt lifandi, en nokkuð þjakað og meitt, því að niður hafði bærinn fallið undan snjóþunganum. Blindhríð var á allan laugardaginn og því eigi unt að leita þeirra, sem búið höfðu í timburhúsunum niður á bakkanum, sem flóðið tók og bar á sjó út. Þar áttu heima 10. eða 11 manns. Var það gamall maður, Sæther, umsjónarmaður stöðvar Evangers, og kona hans. Í öðru íbúðarhúsi, sem þar var, bjuggu tvenn hjón í þurrabúð: Friðbjörn Jónsson, kona hans og fóstursonur, og Benedikt Sveinsson, kona hans og 3 eða -4 börn. Má telja víst, að þetta fólk hafi allt saman farist. Þegar snjóflóðið skall í sjóinn, varð af svo mikil flóðalda, að hún gekk langt á land upp kaupstaðarmegin og braut þar fimm bryggjur svo að segja í spón, en jakar úr flóðinu bárust langt á land og bátum, sem stóðu uppi í f jöru, fleygði til. Snjóflóð hafa áður fallið úr Staðarhólsfjalli og gert skemmdir. Eftir seinasta flóðið var gerður grjótgarður uppi í hlíðinni til varnar gegn snjóflóðum framvegis, en nú kom hann að engu haldi, því að snjórinn var svo mikill, að hann var í kafi.
Ákaflega mikill snjór er nú á öllu Norðurlandi. Eru menn víða hræddir við snjóflóð, t. d. í Bolungarvík og á Seyðisfirði. Er mælt að verzlun hf. Framtíðin á Seyðisfirði hafi verið lokað af ótta við snjóflóð.

Morgunblaðið. 14 apríl 1919.

Flettingar í dag: 745
Gestir í dag: 268
Flettingar í gær: 1610
Gestir í gær: 153
Samtals flettingar: 1952307
Samtals gestir: 494580
Tölur uppfærðar: 5.8.2020 10:22:57