23.02.2019 15:41

Þilskipið Æskan EA 20 / SI 1.

Hákarlaskipið Æskan var smíðuð á Siglufirði árið 1887 af Bjarna Einarssyni skipasmið. Eik og fura. 24,34 brl. Þetta var fyrsta skipið sem Bjarni smíðaði. Eigendur voru auk Bjarna, þeir Kristinn Havsteen, Einar Guðmundsson bóndi á Hraunum og Guðmundur Vonarformaður svokallaði, frá sama ári. 16 ha. Dan vél var sett í skipið, óvíst hvenær. Fékk skráningarnúmerið EA 20 um árið 1903. Seinna komst skipið í eigu Gránufélagsverslunar og svo 1913-14 var skipið í eigu hf. Hinna sameinuðu Íslensku verslana á Siglufirði. Árið 1922 heitir skipið Æskan SI 1. Selt 1928-29, Einari Malmquist Einarssyni á Akureyri, sama nafn og númer. Skipið var endurbyggt árið 1928-29, mældist þá 28 brl. Einnig var sett 50 ha. Tuxham vél í skipið sama ár. Æskan strandaði við Sauðanes, vestan Siglufjarðar 14 október 1934 eftir að hafa fengið á sig brotsjó sem sópaði lóðum og öðru lauslegu fyrir borð. Lóðirnar fóru í skrúfuna og við það stöðvaðist vélin. Rak skipið síðan upp í vík eina rétt við Sauðanesvitann. Áhöfnin, 10 menn, komust hjálparlaust upp í fjöruna. Æskan eyðilagðist á strandstað.


Þilskipið Æskan. Ljósmyndin mun vera tekin árið 1903.                        Ljósmyndari óþekktur.

                    Bátur ferst
                 Menn bjargast

Einkaskeyti til Morgunblaðsins Siglufirði, mánudag.
Flestir stærstu fiskibátarnir hjer réru á laugardagskvöldið. Var þá sæmilegt sjóveður, en útlit slæmt. Þegar um miðjan dag í gær (sunnudag) var komið stórbrim. Bátarnir komu að landi kl. 8-9 um kvöldið, allir nema "Æskan", eign Einars Malmquists útgerðarmanns.
"Æskan" strandaði skammt frá Sauðanesvitanum á tíunda tímanum í gærkvöldi með þeim hætti, að hún fékk brotsjó á sig á tönginni norður af vitanum. Sjórinn tók út lóðir af þilfari og vöfðust þær í skrúfuna svo að vjelin stöðvaðist. Var báturinn að berjast þarna í brimgarðinum í þrjár klukkustundir, en rak að lokum upp í Breiðuvíkina, rjett suðaustan við vitann, og svo hátt, að skipverjar gengu þar svo að kalla á þurrt land úr honum. Voru þeir allir ómeiddir að því frekast er kunnugt. Þegar sást til bátsins frá vitanum, var þegar brugðið við og sent suður að Dalabæjunum. Þaðan voru svo sendir tveir röskir menn hingað til Siglufjarðar og komu þeir hingað laust fyrir miðnætti og sögðu frjettirnar. Var þá þegar safnað mönnum og fóru 20 í hóp skemmstu leið vestur yfir fjallið. Lögðu þeir af stað um miðnætti og var hjerðaslæknir í för með þeim. En hann komst ekki alla leið sökum þess hvað færð var erfið. Þegar Siglfirðingar komu á strandstaðinn, höfðu bátsverjar bjargast í land fyrir nokkru. Goðafoss lá hjer í Siglufirði, en brá þegar við er frjettin um strandið kom og lagði þegar af stað þangað út eftir. Jafnhliða sendi hann stýrimann sinn vestur yfir fjallið með línubyssu og Morsetæki, og hafði hann samband við skipið, svo að hingað komu fregnir með því um björgunina. Flestir Siglfirðingarnir og strandmennirnir eru enn ókomnir að vestan.
"Æskan" var 28 smálestir að stærð og besta skip, smíðað 1887, en umbyggt 1928, og þá settur í það 50 hestafla Tuxham-hreyfill. Formaður var Bjarni Vilmundarson. Skipið er mjög brotið. Það mun hafa verið óvátryggt.
Í útvarpsfrjett í gær segir að báturinn hafi kastast á land undir hömrum þar sem erfitt var um uppgöngu. Tókst þó vjelamanni, Eggert Stefánssyni að klífa hamarinn og komast heim að Sauðanesi. Var þá farið þaðan með kaðla út á strandstaðinn, og hinir skipbrotsmenn dregnir upp á hamrana og gekk það greiðlega og slysalaust.

Morgunblaðið. 16 október 1934.


Flettingar í dag: 1533
Gestir í dag: 391
Flettingar í gær: 798
Gestir í gær: 301
Samtals flettingar: 1963985
Samtals gestir: 497385
Tölur uppfærðar: 12.8.2020 14:36:31