02.04.2019 15:11

Geir goði VE 10.

Mótorbáturinn Geir goði VE 10 var smíðaður í Reykjavík (Skipasmíðastöð Reykjavíkur ?) árið 1925 fyrir Gunnar Ólafsson & Co og Sigurð Hróbjartsson í Vestmannaeyjum. Eik og fura. 21 brl. 46 ha. Hansa vél. Ný vél (1934) 70 ha. June Munktell vél. Geir goði sökk í róðri við Vestmannaeyjar 27 janúar árið 1943. Áhöfnin, 5 menn, björguðust um borð í Vestmannaeyjabátinn Glað VE 270.


V.b. Geir goði VE 10 í innsiglingunni til Vestmannaeyja.                             Ljósmynd í minni eigu.

      V.b. Geir goði VE 10 sekkur

Hinn 27. Janúar þetta ár, sökk vélbáturinn Geir Goði frá Vestmannaeyjum, í fiskiróðri. Áhöfn bátsins var bjargað. Báturinn sökk þegar hann var á heimleið úr róðrinum. Veður var heldur slæmt, allmikill vindur og mikið brim. Kom mikill leki að bátnum um kl. 18, og jókst hann svo ört, að vélin stöðvaðist skömmu síðar. Kveiktu skipverjar þá bál á þilfari til þess að vekja á sér eftirtekt annarra báta, sem voru á sjó á svipuðum miðum, en það gekk illa, og var búið að brenna öllu sem til var, þegar v.b. Glaður kom á vettvang. Reyndi hann að bjarga skipinu til lands, en það sökk nálægt Þrídröngum. Skipverjar voru þá allir komnir um borð í Glað.
Formaður á Geir goða var Kristinn Sigurðsson, en Ólafur Sigurðsson á Glað. v.b. Geir goði var 21 rúml. brúttó að stærð, byggður í Reykjavík árið 1925. Eigandi var Gunnar Ólafsson & Co. o. fl. í Vestmannaeyjum.

Sjómannablaðið Víkingur. 2 tbl. 2 febrúar 1943.


Flettingar í dag: 409
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 906
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 719136
Samtals gestir: 53446
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 09:13:03