24.04.2019 15:18

V. b. Helgi SF 50. TFDV.

Vélbáturinn Helgi SF 50 var smíðaður í Faaborg í Danmörku árið 1956 fyrir Tryggva Sigurjónsson útgerðarmann og Ólaf Runólfsson skipstjóra á Höfn í Hornafirði. Eik. 56 brl. 230 ha. Deutz vél. Vorið 1961 eru bræðurnir Ólafur og Bjarni Runólfssynir á Höfn eigendur bátsins. Báturinn fórst um 60 sjómílur vestur af Suðurey í Færeyjum 15 september árið 1961. 7 skipverjar fórust, en 2 björguðust í gúmmíbjörgunarbát og var þeim svo sólarhring síðar bjargað um borð í skoska línuveiðarann Verbena KY frá Kirkhaldy í Skotlandi.


Vélbáturinn Helgi SF 50 á leið inn Siglufjörð með síldarfarm.                         (C) Snorri Snorrason. ?

        Tveir bátar til Hornafjarðar

Í fyrradag komu til Hafnar í Hornafirði tveir nýir fiskibátar, sem byggðir voru í Faaborg á Fjóni. Bátarnir eru eins að stærð og gerð, 53 lestir hvor með 230 ha. vélar. Bátarnir heita Akurey og Helgi. Eigendur Akureyjar eru Haukur Runólfsson og fleiri, en eigendur Helga eru Tryggvi Sigurjónsson og Ólafur Runólfsson. Bátarnir munu þegar hefja róðra.

Austurland. 6 apríl 1956.


Helgi SF 50 með góðan afla á Siglufirði.                                                       (C) Hannes Baldvinsson.

       Hörmulegt sjóslys við Færeyjar
          Sjö Íslenskir sjómenn farast

  Tveir komust af, er Helgi frá Hornafirði fórst

Sá hörmulegi atburður varð um hádegisbil á föstudaginn, að vélbáturinn Helgi SF-50 frá Hornafirði fórst í ofsaveðri skammt vestur af Færeyjum og með honum sjö ungir menn, sá elzti um fertugt. Tveir af áhöfninni komust af og var þeim bjargað um borð í skozkan fiskibát eftir að þá hafði hrakið fyrir sjó og vindi í gúmmíbát í tæpan sólarhring. Það var ekki fyrr en í gærmorgun, að vitnaðist um slysið. Skozki línubáturinn Verbena, sem þá var staddur skammt suður af Suðurey í Færeyjum, kallaði laust fyrir kl. 10 f. h. og sagðist hafa bjargað tveimur íslenzkum skipbrotsmönnum. Togarinn Þormóður goði  var á svipuðum slóðum, á leið frá Þýzkalandi, og hafði Marteinn Jónasson, skipstjóri, þegar samband við hið skozka skip. Sagði skozki skipstjórinn, að skip íslendinganna hefði sokkið mjög snögglega um hádegisbil á föstudag. Hefði komið á það hnútur, sem hvolfdi skipinu í einu vetfangi svo að ekki vannst tími til að kalla á hjálp. Hafði skozki skipstjórinn það og eftir skipbrotsmönnum, að vonlaust væri að fleiri hefðu komizt af. Skipbrotsmennirnir töldu, að Helgi hefði verið staddur því sem næst á 60,45 gr. n. br. og 9 gr. v. l., er slysið varð, en skozka skipið fann þá um 25 mílur suður af Suðurey og mun þá hafa rekið 60 mílur eða því sem næst þegar þeir fundust. Eins og fyrr segir var þarna  aftakaveður. Þormóður goði sendi fréttina strax til Íslands og þessi hörmulegu tíðindi komu eins og reiðarslag. Helgi var á heimleið frá Bretlandi, hafði siglt utan með ísaðan fisk. Áhöfnin var öll ungir og vaskir menn, flestir frá Hornafirði. Bræðurnir Ólafur og Bjarni Runólfssynir keyptu Helga SF 50 í vor og þegar lysið varð, voru þeir að koma heim úr fyrstu siglingunni. 
Ólafur var skipstjórinn, 28 ára gamall, kvæntur og fjögurra barna faðir.
Bjarni bróðir hans var háseti, fertugur að aldri, kvæntur, fjögurra barna faðir og átti heimli að Sogavegi 116 hér í bæ.
Bróðursonur þeirra, Trausti Valdimarsson, 2. vélstjóri, var undir tvítugu. Hann var búsettur að Birkihlið 20, Kópavogi.
Olgeir Eyjólfsson, mágur þeirra Ólafs og Bjarna, var háseti, 32 ára, kvæntur og þriggia barna faðir. Einar Pálsson, 1 vélstjóri, 28 ára en ókvæntur. Hann lætur eftir sig aldraða foreldra á Hornafirði.
Birgir Gunnarsson, 19 ára, háseti, sonur Gunnars Snjólfssonar, fréttaritara Mbl. á Hornafirði og
Björn Jóhannsson, stýrimaður, úr Suðursveit, 26 ára.
Mennirnir, sem björguðust voru Helgi Simonarson, matsveinn, ættaður úr Hafnarfirði. Hann er tengdasonur Gunnars Snjólfssonar og búsettur á Hornafirði. Hinn er Gunnar Ásgeirsson, háseti, Hornafirði.
Helgi SF 50 var 56 tonna eikarbátur, byggður í Danmörku 1956. Þeir bræður keyptu bátinn í vor og voru að togveiðum í sumar. Þeir veiddu sjálfir aflann, sem þeir sigldu með í þessari ferð. 

Morgunblaðið. 17 september 1961.

       Hröktust tæpan sólarhring                             í gúmmíbáti  

Morgunblaðið náði í gær sambandi við Martein Jónasson, skipstjóra, um borð í Þormóði goða til þess að fá nánari fregnir af þessum hörmulega atburði, því hann fékk fyrstur fréttir af því, sem gerzt hafði. Verbena kallaði korter fyrir 10 í morgun, sagði Marteinn. Þeir sögðu okkur þá, að þeir hefðu fundið íslendingana tvo, en fyrr vissi enginn um slysið. Ég talaði ekki við skipbrotsmennina, en skozki skipstjórinn talaði við mig örstutta stund og sagði, að Helgi hefði sokkið á Færeyjabankanum, um 70 mílur SV af Suðurey, samkvæmt því, er skipbrotsmennirnir hefðu gefið upp. Skotarnir fundu þá ekki fyrr en í morgun, um 25 mílur suður af Suðurey og samkvæmt þeim staðarákvörðunum, sem skozki skipstjórinn gaf upp, þá hefur mennina rekið um 60 mílur frá því á hádegi á föstudag þar til í morgn. Það var alveg vitlaust veður á þessum slóðum, 12- 13 vindstig, vestan. Og það var mjög slæmt í sjóinn. Skipbrotsmennirnir sögðu björgunarmönnum sínum, að skipinu hefði hvolft í einni svipan og ekki unnizt tími til að gera neinar ráðstafanir til að leita hjálpar. Þeir sögðu líka vonlaust, að fleiri hefðu komizt af. Um hádegið í dag (laugardag) vorum við komnir á þær slóðir, sem skipbrotsmennirnir sögðu Helga hafa sokkið á, en þar var ekkert að sjá, sagði Marteinn, enda ekki við því að búast. Ef eitthvert brak er á reki úr bátnum, þá er það komið austur fyrir Suðurey. Veðrið er heldur skárra núna, en hann versnar með kvöldinu. Ég geri samt ráð fyrir að verða í Reykjavík aðfaranótt mánudags, sagði Marteinn að lokum.

Morgunblaðið. 17 september 1961.


Flettingar í dag: 1975
Gestir í dag: 346
Flettingar í gær: 687
Gestir í gær: 260
Samtals flettingar: 1862054
Samtals gestir: 478918
Tölur uppfærðar: 27.5.2020 22:58:37