05.07.2019 10:36

1067. Tungufell BA 326. TFYJ.

Vélskipið Tungufell BA 326 var smíðað hjá Kaarbös Mekanik Verksted í Harstad í Noregi árið 1968 fyrir Hraðfrystihús Tálknafjarðar hf. 294 brl. 600 ha. Wichmann vél. Selt 28 apríl 1980, Glettingi hf. í Þorlákshöfn, hét Jón á Hofi ÁR 42. Eftir 12 ágúst sama ár heitir skipið Jóhann Gíslason ÁR 42. Frá 28 ágúst 1990 hét skipið Jóhann Gíslason ÁR 52. Talið ónýtt og tekið af skrá 13 nóvember árið 1992. Var síðan rifið niður í brotajárn í Njarðvík.


1067. Tungufell BA 326 nýsmíðað út í Noregi.                                                 (C) Jan Trygve Olufsen.


1067. Jóhann Gíslason ÁR 42 í Vestmannaeyjahöfn.                                      (C) Tryggvi Sigurðsson.

       Grænlandsveiðarnar geta lengt                              vetrarvertíðina

  segir Pétur Þorsteinsson, frkvstj. Hraðfrystihúss
   Tálknfirðinga hf. sem nýlega tók við nýju skipi

Nýtt skip, Tungufell BA 326, kom til Tálknafjarðar 18. júní sl. Eigandi þessa nýja skips er Hraðfrystihús Tálknafjarðar h.f. og hittum við framkvæmdastjóra þess, Pétur Þorsteinsson, að máli í fyrradag. - Þetta er annað skipið, sem við fáum á þessu ári, sagði Pétur. Fyrra skipið var Tálknfirðingur BA 325, sem kom 6. marz sl. Bæði skipin eru smíðuð í Kaabös Mekanik verksted í Harstad í Noregi og eru 296 rúml hvort. Skipstjóri á Tungufelli er Sölvi Pálsson. Hraðfrystihús Tálknafjarðar á nú þrjá báta, auk þessara tveggja á það líka Sæfara, sem er 101 tonn. - Hvernig gekk útgerðin í vetur? - Gæftir voru stirðar og afli tregur í Breiðafirði, en þangað sóttu Sæfari og Tálknfirðingur. Núna gerum við Sæfara út á togveiðar og Tálknfirðingur stundar línuveiðar við Grænland. - Hvernig hafa Grænlandsveiðarnar gengið? - Þetta hefur gengið vel. Tálknfirðingur er nú í þriðja túrnum. Í tveim fyrstu túrunum var hann átta daga að veiðum í hvort skipti og aflaði alls 186 tonn af slægðum fiski.
- Þið Vestfirðingar byrjuðuð að sækja á Grænlandsmið í fyrra? - Já, í fyrra fór Jörundur III, sem þá var gerður út á okkar vegum, með net á Grænlandsmiðin, en afli var tregur. Þá fór Þrymur frá Patreksfirði einnig á Grænlandsmið í fyrra með línu og gekk vel. Nú í vor hafa svo nokkur íslenzk skip sótt á þessi mið, þar á meðal Tálknfirðingur frá okkur. - Heldur þú, að þessar Grænlandsveiðar geti reynzt okkur góð búbót, ef síldinni seinkar á miðin? - Já, ég er mjög bjartsýnn á að þessar veiðar geti lengt vetrarvertíðina okkar á mjög heppilegan máta og við erum að minnsta kosti ákveðnir í að senda okkar skip á Grænland eftir næstu vetrarvertíð. - Á hvers konar veiðar ætlið þið að senda Tungufell? - Ég býst við, að Tungufell fari nú á síldveiðar, eða þá með línu til Grænlands. - Hvað er útgerðarfyrirtækið gamalt? - Hraðfrystihús Tálknafjarðar hf. er nú 20 ára. Fram til ársins 1956 var það eingöngu smábátaútgerð, en það ár keypti fyrirtækið 66 tonna stálbát, sem bar nafnið Tálknfirðingur. Þessi bátur var fyrsta íslenzka síldveiðiskipið með sjálfleitandi síldarleitartækjum og einnig fyrsta skipið, sem japönsk ljósmiðunarstöð var sett í. Nú eru þessi tæki í öllum skipum. Árið 1957 voru keyptir tveir 75 tonna stálbátar, Tálknfirðingur og Guðmundur frá Sveinseyri, Sama ár brann gamla fiskverkunarhúsið okkar og var þá þegar hafin bygging nýs frystihúss, sem tók til starfa 1958. Sæfara keyptum við svo 1960 og árið eftir byggðum við síldar og fiskimjölsverksmiðju. 1962 er svo keyptur 150 tonna stálbátur, Sæúlfur, en hann sökk á síldveiðum í nóvember 1966.
Árið 1963 byggði Hraðfrystihús Tálknafjarðar hf. vélsmiðju í félagi við einstakling og sama ár seldi fyrirtækið bátana tvo, sem það keypti 1957, Tálknfirðing og Guðmund frá Sveinseyri. Þetta er í stórum dráttum saga fyrirtækisins. Ég vil þó ekki skiljast svo við hana, að ég minnist ekki Alberts Guðmundssonar, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá stofnun til dauðadags, en ég tók svo við af honum í fyrra. Þess má geta, að fyrir tuttugu árum, voru aðeins þrír sveitabæir þar sem Sveinseyri er nú, 250 manna þorp. - Hvað vinna margir hjá Hraðfrystihúsi Tálknafjarðar hf.? - Það eru um 100 manns á vertíðinni, sagði Pétur Þorsteinsson að lokum.

Morgunblaðið. 27 júní 1968.


Flettingar í dag: 179
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 455
Gestir í gær: 139
Samtals flettingar: 1867761
Samtals gestir: 480207
Tölur uppfærðar: 4.6.2020 05:33:37