18.09.2019 19:41

M. b. Hansína VE 200.

Mótorbáturinn Hansína VE 200 var smíðaður í Vestmannaeyjum árið 1917. Eik og fura. 11 brl. 22 ha. Alpha vél. Eigendur voru Guðjón Eyjólfsson, Magnús Guðmundsson, Hannes Jónsson, Sigurður Hróbjartsson og Jóhannes Hannesson í Vestmannaeyjum frá sama ári. Ný vél (1933) 35 ha. June Munktell vél. Báturinn sökk norðvestur af Vestmannaeyjum 19 apríl árið 1937 eftir að óþekkt skip sigldi á hann. Var hann þá búinn að vera í nokkurn tíma vélavana. Áhöfninni, sjö mönnum, var bjargað um borð í breska togarann Blakk GY 378 frá Grimsby, en skipstjóri þar um borð var íslendingur, Guðmundur Ebenezerson að nafni. Blakkur fór síðan með skipverjanna til Vestmannaeyja.

S.t. Blakkur GY 378 var systurskip Venusar GK 519 frá Hafnarfirði. 
Heimild: Birgir Þórisson.


Hansína VE 200 á siglingu til hafnar í Vestmannaeyjum.                               Ljósmyndari óþekktur.


S.t. Blakkur GY 378, smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley árið 1931 fyrir útgerðarfélagið Rinovia Steam Fishing Co Ltd í Grimsby. 403 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. smíðanúmer 566. Á myndinni heitir togarinn Rinovia GY 378, hét það frá árinu 1938. Var síðan tekin í þjónustu breska flotans haustið 1939, sem tundurduflaslæðari, hét þá H.M.T Rinovia. Afdrif hans urðu þau að hann fórst á tundurdufli á Falmouth Bay við Englandsstrendur 2 nóvember árið 1940 með allri áhöfn, 14 mönnum.

 Vjelbátur sekkur eftir langa hrakninga
  Enskur togari bjargaði skipverjunum
 Ókunnugt skip sigldi á bátinn og hvarf síðan!

Vjelbáturinn "Hansína" frá Vestmannaeyjum sökk í gærmorgun, eftir mikla hrakninga. Skipshöfninni, 7 mönnum, bjargaði enskur togari, "Black". Fór hann með bátsverja til Vestmannaeyja. "Hansína" réri aðfaranótt sunnudags frá Vestmannaeyjum og fór á mið á Selvogsbanka. Klukkan 3 e. h. á sunnudag bilaði kælivatnsdæla í vjel skipsins svo vjelin gat ekki gengið lengur. Vindur var þá hvass á austan. Skipverjar settu upp segl og ætluðu að reyna að ná til Eyja, en ferðin gekk illa, þar sem vindur var óhagstæður, eða beint á móti. Klukkan 7 á sunnudagskvöld átti báturinn eftir um 7 sjómílur frá Vestmannaeyjum. Hittu þeir þá færeyskt vjelskip og náðu sambandi við það. "Hansína" var síðan bundin aftan í færeyska vjelskipið og haldið áleiðis til Eyja. Veður fór mjög versnandi er leið á kvöldið og klukkan 11 slitnaði "Hansína" aftan úr vjelskipinu. Voru ekki tök á að ná sambandi við skútuna eftir það vegna óveðurs og myrkurs.
Vjelbáttirinn "Hansína" var nú algerlega hjálparlaus og gátu skipverjar ekkert aðhafst nema beðið átekta. Neyðarmerki voru send út við og við, en ekkert svar fékst við þeim. Í fulla tvo klukkutíma var vjelbáturinn á reki, án þess að verða var við nokkurt skip. En klukkan 1 um nóttina urðu skipverjar á "Hansínu" varir við seglskip sem kom slagandi í áttina til bátsins. Lenti seglskip þetta á framstefni bátsins og klofnaði stefnið langt niður, svo sjór fossaði inn í bátinn. Kallað var frá skútunni á færeysku hvort nokkuð væri að hjá bátsverjum, en síðan hélt skútan í burtu án þess að bíða svars og sást ekki eftir það. Þetta færeyska seglskip var svartmálað með hvítu skjólborði. Það var kútterbyggt, en nafn eða númer gátu skipverjar á ,Hansínu' ekki greint. Hinir 7 skipverjar á "Hansínu" voru nú ver staddir en nokkru sinni fyrr. Sjór hækkaði stöðugt í bátnum og varð að henda aflanum, sem var um 600 af þorski fyrir borð til þess að reyna að halda bátnum á floti sem lengst. Neyðarmerki voru send út frá bátnum svo að segja viðstöðulanst, en ekkert svar fékkst enn við þeim. Gekk nú svo í fullar tvær klukkustundir og var þá eldsneyti til neyðarmerkja nærri þrotið. Bar þá að togarann "Black" frá Grimsby, sem bjargaði skipverjunum á "Hansínu" og tók bátinn í eftirdrag. Togarinn var á hljéborða við "Hansínu" og tókst skipverjum greiðlega að komast um borð í togarann, Var síðan haldið til Eyja. Eftir skamma stund slitnaði "Hansína'' aftan úr togaranum, en náðist þó aftur. Klukkan rúmlega 6 í  gærmorgun var kominn svo mikill sjór í  "Hansínu" að hún sökk. "Black" kom með skipverjana til Vestmannaeyja kl 8 í gærmorgunn, og leið þeim öllum vel.
Formaður á "Hansínu" var Ólafur Jónsson, Vestmannaeyjum. Vjelbáturinn, "Hansína" var 11 smálestir að stærð. Smíðaður 1917, Eigandi var Jón Jónsson, útgerðarmaður í Hlíð í Vestmannaeyjum og var báturinn vátryggður í Bátaábyrgðarfjelagi Vestmannaeyja.

Morgunblaðið. 20 apríl 1937.


Flettingar í dag: 277
Gestir í dag: 85
Flettingar í gær: 426
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 2392321
Samtals gestir: 622013
Tölur uppfærðar: 21.9.2021 14:47:19