09.10.2019 20:50

Maður féll milli skips og bryggju í Neskaupstað.

Það var fimmtudaginn 30 maí árið 1974 að Sigurjón Jónsson (1941-1994) matsveinn á skuttogaranum Bjarti NK 121, féll á milli skips og bryggju í nýju höfninni fyrir botni Norðfjarðar. Sigurjón, eða Gói, eins og Norðfirðingar þekktu og kölluðu hann, var að taka á móti vistum fyrir næstu veiðiferð skipsins, en það átti að halda á veiðar þá um kvöldið. Hann var að halda heim á leið er slysið varð, labba landganginn upp á bryggjuna er hann féll á milli skips og bryggju. Í greininni hér fyrir neðan lýsir Gói atburðarrásinni eftir að hann féll í sjóinn, þar til hann komst upp á bryggjuna aftur.

Ég á margar góðar minningarnar um Sigurjón Jónsson (Góa). Hann og faðir minn voru mörg ár saman til sjós á gamla Bjarti NK 121. Hann kom oft í heimsókn til foreldra minna og ekki spillti fyrir þegar Guðmundur Ölversson var með í för. Þá var kátt á hjalla og sögurnar þeirra ógleymanlegar. Þá lærði ég að drekka kaffi, þá á barnsaldri. Gói var bæklaður á fæti. Hann lenti í slysi á togaranum Goðanesi NK 105, veit ekki hvort það var þegar skipið fórst á Skálafirði, eða áður. Held að það hafi verið þegar togarinn fórst.
Ég hitti Góa síðast sumarið 1987, þá var hann í endurhæfingu á Reykjalundi í Mosfellssveit. Það var virkilega gaman að sjá hann. Hann hafði ekki mikið breyst frá því ég sá hann áður. Mér er það nú skylt að halda nafni hans á lofti, eins og hann var mikill öðlingur og drengur góður. Blessuð sé minning þessa mæta manns.


1278. Bjartur NK 121. Það hefur verið á þessum stað sem Sigurjón féll á milli skips og bryggju í höfnina. Fyrir aftan Bjart er 226. Beitir NK 123 og 1548. Barði NK 120.   (C) Mynd úr safni mínu.


Gói að uppfarta um borð í gamla Bjarti NK 121. Kristján Vilmundarson til hægri.
Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Gói við eldavélina um borð í gamla Bjarti NK 121.             Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.

    Þrjá stundarfjórðunga í sjónum
 áður en hann komst upp á bryggju 

"Þegar ég komst upp á bryggjuna missti ég rænu, en þá var ég líklega búinn að vera um þrjá stundarfjórðunga í sjónum," sagði Sigurjón Jónsson, matsveinn á skuttogaranum Bjarti frá Neskaupstað, en Sigurjón féll niður á milli skips og bryggju s.l. fimmtudag þegar hann var að ljúka við að ganga frá vistum skipsins. Þegar atvikið átti sér stað var enginn maður nálægur og varð Sigurjón að vinda sig upp eftir bryggjufríholtum, sem þó var mjög erfitt, þar sem skipið lá alveg utan í þeim. Við þad rifnuðu neglur á honum og æðar slitnuðu. Þykir mörgum sem til þekkja, það ganga kraftaverki næst, að Sigurjón skyldi geta vegið sig upp á bryggjuna, en hann er fatlaður. Ég fór inn í skip um kl. 18 á fimmtudaginn til að taka á móti vistum skipsins." sagði Sigurjón, mér til aðstoðar fyrst var útkeyrslumaður kaupfélagsins, en þeir sem voru að vinna í skipinu, fóru yfirleitt í mat á svipuðum tíma. Þegar maðurinn var búinn að aðstoða mig, fór hann burtu, en ég lauk við að ganga frá. Síðan ætlaði ég í land og vissi ég ekkert fyrr en ég féll niður á milli skips og bryggju við landganginn. Ekki þýddi að hrópa á hjálp, því enginn var nálægur. Þá var erfitt að komast meðfram hlið skipsins, þar sem þad lá fast utan í gúmmífríholtunum, og einnig varð ég mjög kaldur fljótlega og þorði því ekki að synda að stigum, sem þarna eru ekki fjarri." Ég tók það því til bragðs. að reyna að vega mig upp meðfram gúmmífríholtunum, en það var mjög erfitt, því lítið var um handfestu. Þegar ég var hálfnaður upp, varð ég að henda gleraugunum af mér, þar sem ég sá ekkert vegna olíu, sem hafði sest á þau.
Við það missti ég þá litlu handfestu, sem ég hafði og féll því niður aftur. Ekki var annað að gera en að leggja af stað aftur og að lokum komst ég upp á bryggjuna, þá var ég aðframkominn af þreytu og missti ég rænu um leið og ég kom upp," sagði Sigurjón. Þá sagði hann ennfremur, að þegar hann hefði rankað við sér, hefði hann ekið bíl sínum heim til sín og ekki farið að líða verulega illa fyrr en seinna um kvöldið. Þá hefði orðið að flytja hann á sjúkrahúsið. Þar hefði komið í Ijós, að mikil olía hefði komist í lungun og einnig hefðu margar æðar í handleggjunum slitnað við áreynsluna þegar hann var að hífa sig upp. Þá hefðu flestar neglur verið brotnar og sumar hverjar nær horfnar. Að lokum sagði Sigurjón, að líklega hefði hann verið um þrjá stundarfjórðunga í sjónum og einn og hálfur tími hefði liðið frá þvi að hann féll í sjóinn, þangað til hann var kominn heim til sín.

Morgunblaðið. 6 júní 1974.


Flettingar í dag: 499
Gestir í dag: 45
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 723845
Samtals gestir: 53718
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 14:18:08