17.10.2019 19:29

1277. Ljósafell SU 70 að landa afla sínum í Reykjavíkurhöfn.

Mér þykir það nú ekki leitt að hafa Ljósafellið fyrir framan myndavélina, enn nú síður þegar skipið er nýlega komið úr skveringu. Ljósafell var hér í slippnum í Reykjavík í síðasta mánuði. Ég tók þessar myndir af togaranum þegar hann kom hér inn til löndunar. Hann var þá í rannsóknarleiðangri á vegum Hafrannsóknarstofnunar og var að landa hér á markaðinn. Ég fullyrði það hér að samningar og  raðsmíði þessara tíu skuttogara sem smíðaðir voru í Japan fyrir íslendinga á árunum 1972-73, eru þeir bestu sem gerðir hafa verið hér á landi frá upphafi. Skipin voru teiknuð á Hótel Loftleiðum árið 1971. Samið var við tvær skipasmíðastöðvar í Japan, annarsvegar við, Niigata Engineering Co Ltd á Honshueyju og hinsvegar við, Narasagi Shipbuilding Ltd í Muroran á Hokkaidoeyju í Japan. Fimm skipanna voru smíðuð í hvorri stöð. Átta af þessum skipum eru ennþá í drift, tvö hér á landi, en hin eru flest í Austurlöndum fjær. Það er liðin nær hálf öld síðan Japanstogararnir komu til landsins, sá fyrsti, Vestmannaey VE 54 kom til Hafnarfjarðar hinn 21 febrúar árið 1973. Sannarlega vel smíðuð skip. Eigendur Ljósafells hafa haldið skipinu vel við í gegn um tíðina, enda útgerð þessa glæsilega skips byggð á traustum grunni eins og greinin hér að neðan ber með sér.

1277. Ljósafell SU 70 í Reykjavíkurhöfn.


1277. Ljósafell SU 70 í Reykjavíkurhöfn.                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 4 október 2019.

 Kaupfélagið hefur frá upphafi haft forustu
   í fiskvinnslu og útgerð og tryggt atvinnu                        Viðtalið við Pál Jónsson                                   kaupfélagsstjóra á Fáskrúðsfirði

Fáskrúðsfjörður er einn Austfjarða og er bæði langur og mjór. Skrúður, vakir í fjarðarmynninu norðanmegin, ábúðarfullur og fagur, og það virðist óendanlega langt að aka inn Skriðurnar eftir brattri fjallshliðinni, fram hjá Kolfreyjustað, þar sem hann Páll Ólafsson fæddist og inn þar sem heitir Búðir, en svo nefnist 700 manna þorp á Fáskrúðsfirði. Innar er skógivaxinn dalbotn, djúpur og friðsæll, en það stingur í stúf við brimsjóinn úti við Skrúð. Talið er að verzlun hafi verið stunduð lengi i Fáskrúðsfirði, og þar hefur ávallt verið útgerð. Verzlun hófst þar árið 1890 og í eina tíð var staðurinn mikil bækistöð franskra skútumanna og er Fáskrúðsfjarðarfranskan ef til vill bezti minnisvarðinn um það. Fáskrúðsfirðingar og Flandrarar skópu nýtt tungumál, sem raunverulega var hægt að nota í mannlegum samskiptum. Frakkar reistu hér sjúkrahús og kapellu og gerðu sér kirkjugarð fyrir þá sem féllu. En síðan er mikið vatn runnið til sjávar. Nú talar enginn frönsku á Fáskrúðsfirði, en lífið heldur áfram og við finnum að það er ekki laust við að sérstakur lífsstíll hafi fest hér rætur í þröngum firðinum, þótt ekki sé lengur töluð franska yfir búðarborðið eða á götunum.
Timinn kynnir að þessu sinni Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga, en kaupfélagið þar, er eitt þeirra kaupfélaga, sem neyðzt hafa til djarfra fjárfestinga á stundum, til þess að fólkið í firðinum mætti hafa í sig og á, hefur með öðrum orðum haft forystu í atvinnulífi staðarins. Fyrir fjórum árum kom hér ötull kaupfélagsstjóri, vestan frá Snæfellsnesi, Páll Jónsson, og það er mál manna, að hann hafi reynzt réttur maður á réttum stað, því að eftir erfið ár og samdrátt á öllum sviðum, er nú blómleg verzlun á Fáskrúðsfirði og næg atvinna er handa öllum, sem vilja vinnu. Timinn átti stutt viðtal við Pál Jónsson, kaupfélagsstjóra og sagðist honum frá á þessa leið um kaupfélagið og útgerðina:
- Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga mun hafa verið stofnað árið 1933 og er félagssvæði þess Fáskrúðsfjörður allur og fáeinir bæir í Reyðarfirði, sunnanverðum. Kaupfélagið var einkum bændaverzlun og afurðasala, eins og þá tíðkaðist, enda kaupfélögin einkum stofnuð til að tryggja félagsmönnum sínum hagstæða verzlun. Hér á fjörðunum var þá mun meiri sveitabúskapur, en núna er, en þó er hér talsverður landbúnaður og slátraði kaupfélagið, t.d. um 5000 fjár í sláturhúsinu á síðasta hausti. Þá er nokkur mjólkurframleiðsla, en mjólk er lögð inn hjá mjólkurbúinu á Egilsstöðum. Búskapur hefur þó ávallt verið í nokkrum tenglsum við sjóinn hér á fjörðunum, og bændur hafa jafnframt stundð handfæraveiðar og minniháttar útgerð og er svo enn þann dag í dag. Róið er frá Eyri og Vattarnesmenn róa og eins hann Guðjón á Kolmúla, en þótt hér áður og fyrr væri sjórinn nytjaður mest af bændum og vinnuhjúum þeirra, er þetta óvíða svo, enn þann dag í dag, nema helzt hér á Austfjörðum.
Fiskverkun hefur ávallt verið talsverður þáttur í atvinnu manna hér og það eru áratugir síðan kaupfélagið hóf beina þátttöku í vinnslu sjávarafla, þótt hins vegar sé verzlunin, sem fyrr aðalstarfið. Hér munu vera um 300 félagsmenn í kaupfélaginu og kaupfélagsverzlunin mun fara með um 70% af viðskiptum hér. Var heildarvörusala í kaupfélaginu um 30 milljónir króna á síðasta ári. Er þetta að langmestu leyti almenn verzlun við fólkið í héraðinu og við rekum tvær búðir, sláturhús, gistihús, og seljum oliur og bensín. Hjá kaupfélaginu starfa nú um 20 manns. Kaupfélagið er aðaleigandi og rekur Hraðfrystihús Fáskrúðsfjarðar hf. og þá um leið fiskimjölsverksmiðju og útgerð tveggja skipa, 180 tonna stálskips., sem ber nafnið Hoffell og skuttogarann Ljósafell, sem smíðaður var í Japan og kom til landsins 30. maí síðastliðinn. Hefur togarinn síðan aflað vel og hefur landað hér á Fáskrúðsfirði, þar sem aflinn er hraðfrystur og unninn. Togarinn hefur reynzt mjög dýrmætt atvinnutæki og hefur undanfarna tvo mánuði lagt hér á land um 880 lestir af fiski, en þessi mikli afli gjörbreytir auðvitað málunum hér, þar eð hráefnisöflun var mikið vandamál hjá okkur og tímabundið atvinnuleysi gat verið hér á stundum. Skuttogarinn kostar 140-150 milljónir króna, sem er mikið fé fyrir ekki stærra félag, enda varð að selja ágætt skip, Búðafell, til þess að hægt væri að leggja fram fé til smíða togarans, en auðvitað munar mest um forgöngu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna í málinu, en þeir lögðu sem kunnugt er grundvöll að eflingu togaraútgerðarinnar.  
Kaupfélagið rekur eitt elzta hraðfrystihús landsins og voru framleiðsluafköstin árið 1970 og 1971 um 30.000 kassar af hraðfrystum fiski.
Árið 1972 minnkaði þessi framleiðsla verulega þar eð við urðum að selja Búðafellið en í júlílok vorum við búnir að frysta um 25.000 kassa, svo heildarframleiðslan mun aukast verulega á þessu ári. Hjá frystihúsinu starfa um 70 manns og má segja að nokkur skortur sé á vinnuafli þessa síðustu daga, vegna togaraaflans. Eins og áður sagði, er hraðfrystihúsið okkar eitt af þeim elztu, sem fyrir eru á landinu. Þar hefur verið unnið við erfið og kostnaðarsöm vinnuskilyrði, þar sem erfitt er að koma við fullkomnu hreinlæti og nútíma hagræðingu. Því var hins vegar svo farið, að ekki var hægt að hugleiða endurbyggingu, þar er reksturinn var bágborinn og stöðvaðist alveg um tíma. Nú er hins vegar kominn fullur skriður á hraðfrystihúsmálið. Unnið hefur verið að undirbúningi um alllangt skeið, bæði af tæknimönnum og svo forráðamönnum hér á staðnum og er nú búið að teikna nýja vinnslueiningu, þ.e. hraðfrystihús, fiskmóttöku vélasal og frostgeymslu í 2.200 fermetra stálgrindarhúsi, sem reist verður á hafnarbakkanum, eða á hafsbotni, ef svo má orða það, en það þýðir að ekki þarf að aka fiskinum frá bátunum, því að þeir landa beint í fiskmóttökuna og útskipun á frosnum fiski verður beint úr geymslunum í skip. Nýja hraðfrystihúsið teiknuðu þeir Örn Baldvinsson og Karl Bjarnason og verður það stálgrindahús og allt reist úr viðhaldsfríu efni. Byrjað er að steypa undirstöður fyrir húsið sem standa mun á steyptum staurum, sem reknir verða í fjöruborðið. Útboði er lokið og verður innan skamms tekin ákvörðun um það, hverjum verður falin smiði stálgrindahússins.
Við hér bindum að sjálfsögðu miklar vonir við þetta nýja hraðfrystihús og vinnslueiningu og erum bjartsýnir á rekstur þess. Afkastageta hússins verður 40 tonn á 10 klukkutímum, en það er hæfilegt til að taka á móti afla af 2-3 skuttogurum, eins og hann er núna. Hraðfrystihúsið rekur fiskimjölsverksmiðju, sem tók á móti 13.500 tonnum á síðustu loðnuvertið. Þar af voru fryst um 400 tonn af loðnunni, hitt fór í bræðslu. Nú er verið að bæta löndunaraðstöðuna hér og gerum við ráð fyrir að geta brætt svolítið meira á næstu vertið, en verksmiðjan bræðir 200 tonn á sólarhring. Það, sem við beinum orkunni að nú, er að auka þróarrýmið, en á síðustu vertið vorum við með loðnu hreint út um allan bæ, en það er að sjálfsögðu kostnaðarsamara, en að geyma hana á hentugu löndunarplani. Framleiðsluverðmæti fiskvinnslu okkar og fiskimjölsverksmiðjunnar voru á árinu 1972 milli 70 og 80 milljónir króna, en við erum þegar komnir á annað hundrað milljón krónur á þessu ári, enda berst stöðugt fiskur að hér á Fáskrúðsfirði, bæði af togaranum og bátnum og svo er aragrúi smábáta að veiðum hér og leggur upp aflann hjá Hraðfrystihúsinu, segir Páll Jónsson, kaupfélagsstjóri að lokum. Sem fram kemur í þessu stutta spjalli, þá snúast hjólin hratt hjá þeim á Fáskrúðsfirði. Meira að segja kominn togari frá Japan og verkfræðingar og tæknimenn rýna í reislur og kvarða til að kanna sjávarbotn. Þeim sem kunnugir eru atvinnuástandi á Fáskrúðsfirði fyrir aðeins fáeinum árum, sem og öðrum afskekktum fjörðum, er það ljóst, að mikil breyting hefur orðið á til hins betra. Sumt vilja menn og eiga að þakka breyttri stjórnarstefnu, alhliða sókn í atvinnulífi, en samt má ekki ganga framhjá dugnaði Fáskrúðsfirðinga sjálfra, sem lagt hafa nótt við dag, til að endurreisa atvinnulíf staðarins og skapa nýja lífstrú í hinum langa firði.

Tíminn. 19 ágúst 1973.

 
Flettingar í dag: 277
Gestir í dag: 85
Flettingar í gær: 426
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 2392321
Samtals gestir: 622013
Tölur uppfærðar: 21.9.2021 14:47:19