04.11.2019 20:34

B. v. Íslendingur RE 120. LBKC / TFQL.

Íslendingur RE 120 stundaði síldveiðar sumarið 1925 og gerði það eflaust nokkuð vel. En um haustið var skipinu siglt suður til Reykjavíkur og komið fyrir í bóli á Eiðisvíkinni. Svo var það að menn tóku eftir því hinn 10 desember árið 1925 að skipið var horfið. Þegar betur var að gáð sáu menn að Íslendingur var sokkin. Björgunarskipið Geir gerði nokkrar tilraunir að ná honum upp, en það tókst ekki. Það var svo ekki fyrr en einum 17 árum seinna (1942) að gert var eitthvað í því að ná Íslending upp og það hafðist að lokum. Ástand skrokks skipsins var það gott að ákveðið var að gera það upp. Íslendingur RE 120 var smíðaður í Hull á Englandi árið 1893 og var byggt úr járni, hét áður Osprey. 146 brl. 200 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigandi þess var Elías Stefánsson og mun hann hafa keypt skipið í Englandi árið 1908. Þegar skipinu var náð upp var það dregið á land í Eiðisvíkinni. Skipið var gert upp, sett í það 500 ha. Fairbanks-Morse díesel vél. Íslendingur var gerður upp að öllu leiti og því verki var ekki lokið fyrr en vorið 1943. Nýju eigendurnir voru hf. Díeseltogarar (Stephan Stephenssen framkvæmdastjóri, Sveinbjörn Einarsson skipstjóri og Ágúst Ingvarsson vélstjóri).Hét þá Íslendingur RE 73. Skipið var selt 18 mái 1949, Bjarna Sigurðssyni og Kristjáni Guðlaugssyni í Reykjavík og Ingibjörgu Pétursdóttur á Reykjum í Mosfellssveit og Þorvaldi Stephenssen í Saurvogi í Færeyjum. Íslendingur var talinn ónýtur og tekinn af skrá 2 febrúar árið 1961. Ég held að flakið af honum hafi verið lengi upp í fjöru í Kleppsvíkinni og sennilega verið á endanum verið rifið.

Það eru ekki mörg skipin hér á landi með þessa sögu eins og Íslendingur, lá á mararbotni í ein 17 ár áður honum var náð upp og var þá skrokkurinn í það góðu standi að ástæða þótti til að að gera skipið upp. Skipið var gert út til ársins 1960 og var þá talið ónýtt.


Íslendingur RE 120 á siglingu.                                                               Ljósmyndari óþekktur.

           "Íslendingur" sokkinn

Botnvörpuskipið Íslendingur sökk á Eiðisvík í fyrrinótt. Hann hefir legið þar mannlaus í vetrarlagi að undanförnu, og varð ekki séð í fyrradag, að hann væri farinn að þyngjast af sjó. Vita menn ekki, hvernig leki hefir komið að honum svo skyndilega.

Vísir. 11 desember 1925.


Íslendingur RE 120 kominn á land eftir 17 ár á hafsbotni.                         Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Íslendingur RE 73 eftir endurbygginguna.                                               Mynd úr Víkingnum.


Íslendingur RE 73 upp í fjöru í Kleppsvíkinni í júní árið 1966.                       Ljósmyndari óþekktur.


Íslendingur RE 73 í fjörunni í Kleppsvíkinni.                                                   (C) Tryggvi Sigurðsson. 

           B.v. Íslendingur RE 73   

Nýlega er lokið algjörri endurbyggingu og breytingu á togaranum Íslendingi RE 73. B.v. Íslendingur er byggður úr járni í Hull í Englandi árið 1893 og hét þá Osprey, en var keyptur hingað til lands árið 1908 af Elíasi Stefánssyni útgerðarmanni í Reykjavík. Hinn 9. des. árið 1926, er skipið lá í vetrarlægi á Eiðsvík við Reykjavík, kom af ókunnum orsökum skyndilega leki að skipinu svo að það sökk. Lá skipið þar í 15 ár, eða til ársins 1942, er rannsókn á flakinu leiddi í Ijós, að bolur skipsins var ekki meira skemmdur en svo, að það var álitið svara kostnað að bjarga því og endurbyggja. Tókst björgunin vel, en af ýmsum ástæðum gekk viðgerðin seint og var ekki lokið fyrr en í marz-mánuði í ár. Eigandi skipsins er nú h.f. Dieseltogarar í Reykjavík, en að því félagi standa m. a. þeir Stephan Stephensen framkvæmdastjóri, Sveinbjörn Einarsson skipstjóri og Ágúst Ingvarsson vélstjóri. Að björgun og endursmíði skipsins unnu ýmsar af vélsmiðjunum og skipasmíðastöðvunum í Reykjavík, en aðallega Ágúst Ingvarsson vélstjóri að allri járnsmíði og vélaniðursetningu. Einnig vélsmiðjan Bjarg og Sigurður Einarsson og Loftur vélsmiðir. Sömuleiðis Vélsmiðjan Héðinn. Trésmíði framkvæmdi skipasmíðastöð Magnúsar Guðmundssonar, en meirihlutann af trésmíðinni framkvæmdu þeir Hákon Einarsson og Haraldur Guðmundsson skipasmíðameistarar. En yfirumsjón og framkvæmd alla hafa þó haft tveir af eigendum þess, nefnilega þeir Sveinbjörn og Ágúst, sem þar hafa leyst mikið verk af hendi. Að umbyggingunni lokinni reyndust aðalmál skipsins:
Lengd 31.09 m.
Breidd 6.25 m.
Dýpt 2.92 m.
Stærð brúttó 146.11 rúmlestir.
Stærð undir þilfari 138.14 rúmlestir.
Stærð nettó 66.20 rúmlestir.
Við breytinguna hafði skipið stækkað um 3.47 rúmlestir brúttó. Aðalvél skipsins er Fairbanks-Morse Dieselvél (amerísk), 500 hestöfl, í beinu sambandi við skrúfuna. Mesti snúningshraði 400 á mínútu. Eyðir þá 0.38 lbs. á hestafl á tíma. Olíugeymar rúma 21 tonn. Hjálparvélar eru tvær: Önnur 77 hestafla Greyhound fyrir togvindu, og hin 20 hestafla R. A. Lister fyrir ljós, hita, eldun. Fremst í skipinu er "lúkar" með lokrekkjum fyrir 10 manns, og aftast "káeta" með 4 rekkjum, en úr henni er gengið í tvö herbergi, sitt hvoru megin, og er annað þeirra fyrir stýrimann, en hitt fyrir 1. vélstjóra. Aftast í reisninni, yfir káetu, er eldhúsið, og er þar rafmagnseldavél, smíðuð af h.f. Rafha í Hafnarfirði. Fremst á reisninni er herbergi skipstjóra. Allar vistarverur eru klæddar Masonite, útbúnar fataskápum m. a, raflýstar og með rafmagnshitun. Fremst á reisninni er stýrishús og fyrir aftan það lítill leiðarreikningsklefi, en innangengt úr honum niður í herbergi skipstjóra. Í leiðarreikningsklefanum er komið fyrir, auk venjulegra leiðartækja, Hugh's sjálfritandi bergmálsdýptarmæli, svo og talsendi og viðtæki landsímans, en í stýrishúsi vökvastýri af gerðinni Steen & Kaufmann, Eimshorn. Svo má segja að skipið sé allt saman endurnýjað, tréverk allt nýtt. Bolur skipsins allur hnoðaður upp. Mikið sett í skipið af nýjum böndum, settur á skipið bakki, yfirbygging öll ný og sett í það Dieselvélar, svo og allt skipið smíðað að nýju að innan.

Sjómannablaðið Víkingur. 5 tbl. 1 maí 1943.



Flettingar í dag: 1087
Gestir í dag: 64
Flettingar í gær: 906
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 719814
Samtals gestir: 53471
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 22:31:31