10.11.2019 16:11

797. Straumnes ÍS 240. TFNK.

Vélskipið Straumnes ÍS 240 var smíðað í VEB Volkswerft Ernst Thalmann í Brandenburg í Austur-Þýskalandi árið 1959 fyrir útgerðarfélagið Kögur hf á Ísafirði. 94 brl. 400 ha. Mannheim vél. Selt 15 júlí 1976, Guðna Sturlaugssyni í Þorlákshöfn, hét Jón Sturlaugsson ÁR 7. Skipið var endurmælt árið 1976 og mældist þá 91 brl. Seldur 6 desember 1977, Þór hf á Eskifirði, hét þá Vöttur SU 37. Frá árinu 1978 hét skipið Vöttur SU 3. Selt 19 september 1980, Hermanni B Haraldssyni á Djúpavogi, hét þá Flóki SU 18. Selt 2 janúar 1982, Kögurvík sf á Hofsósi, hét Richard SK 77. Selt 24 september 1982, Stórhóli sf á Dalvík, hét þá Sænes EA 26. Frá 25 nóvember 1985 hét skipið Sænes EA 75. Selt til Svíþjóðar og tekið af skrá 25 september árið 1987.


797. Straumnes ÍS 240.                                       (C) Snorri Snorrason.   Úr safni Atla Michelsen.


Straumnes ÍS 240 að landa síld, veit ekki hvar.                                         Ljhósmyndari óþekktur.

      Þrír glæsilegir vélbátar að Djúpi
   Tveir til Ísafjarðar og einn til Hnífsdals

Ísafirði, 28. des.
Þrír bátar komu til hafnar hér á Ísafirði nú um hátíðarnar, þar af eiga tveir heimahöfn hér og einn í Hnífsdal. Tveir bátanna komu hingað á Þorláksmessukvöld og höfðu þeir haft samflot alla Ieiðina. Voru það "Straumnes" og "Mímir." Þetta eru 93 lesta stálbátar, nákvæmlega eins að stærð og útliti. Báðir eru smíðaðir í Brandenburg skipasmíðastöðinni í A-Þýzkalandi, en það er borg alllangt uppi í landi. Þaðan var bátunum fleytt niður til Stralsund og síðan var þeim siglt til Kaupmannahafnar. Straumnes" verður gert út frá Ísafirði en "Mímir" frá Hnífsdal. ,,Straumnes" er eign "Kögurs" h.f. og er formaður félagsins Matthías Bjarnason hér á Ísafirði. Páll Pálsson skipstjóri sigldi Straumnesi til landsins en skipstjóri verður Haukur Helgason ungur maður héðan úr bænum. "Mímir er eign hlutafélagsins í Hnífsdal og er Ingimundur Finnbjörnsson framkvæmdastjóri þess. Guðmundur Ingimarsson sigldi bátnum til landsins, en skipstjóri verður Karl Sigurðsson í Hnífsdal. Ganghraði bátanna er rúmlega 10 mílur og tók ferðin frá Kaupmannahöfn tæpa sex sólarhringa. Reyndust bátarnir vel. Þeir eru búnir öllum nýjustu siglinga- og fiskileitartækjum og munu hefja róðra næstu daga.
Þriðji báturinn sem hér um ræðir kom hingað í fyrradag. Er nafn hans "Guðbjörg". Báturinn er byggður í Niendorf Ostsee í V-Þýzkalandi. Er þetta 76 smálesta bátur smíðaður úr eik. Hann er eign h.f. Hrönn á Ísafirði og er framkvæmdastjóri þess félags Guðmundur Guðmundsson skipstjóri hér í bæ. Sigldi hann bátnum til landsins og gekk ferðin vel og reyndist báturinn ágætlega. Hann er búinn nýjustu siglingatækjum af Simrad-gerð. Ásgeir Guðbjartsson verður skipstjóri á þessum nýja báti og mun hann fara fyrsta róðurinn nú í kvöld.

Morgunblaðið. 29 desember 1959.


Líkan af HRB 46 smíðuðum í Brandenburg.                                               (C) HRB.


Fyrirkomulagsteikning af HRB 46.


797. Sænes EA 75.                                                                    (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

    100 tonna skip í stað Sæness

Rán hf. á Dalvík hefur samið við sænska skipasmíðastöð um smíði á 100 tonna skipi fyrir fyrirtækið. Rán gerir nú út tvo gamla báta, Sænes og Sæljón og mun Sænes ganga upp í kaupverð á hinu nýja skipi en það er um 67 milljónir. Sænesið fæst metið á um 16 milljónir. Samningarnir voru gerðir með fyrirvara um að lán fengist úr Fiskveiðasjóði. Lánið fékkst og er það 60 % af kaupverði. Skip þetta var í smíðum fyrir annað fyrirtæki þegar Rán hf. gekk inn í kaupin. Skipið átti upphaflega að vera búið til togveiða eingöngu en verður nú búið til netaveiða og línuveiða að auki. Auk þess mun skipið stunda djúprækjuveiðar.
Að sögn Gunnþórs Sveinbjörnssonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins á að afhendaskipið 20. júní. Það er 20 tonnum stærra en Sænes og yfirbyggt þannig að með tilkomu þess aukast möguleikar til lengri veiðitúra auk þess sem það er talið mun afkastameira við rækjuveiðarnar. Lest hins nýja skips verður einangruð eins og frystilest en fyrst um sinn verður það þó ekki búið frystitækjum. Í skipinu er 900 ha. vél og tvö sjálfstæð 10 tonna spil.

Dagur. 9 febrúar 1987.Flettingar í dag: 1421
Gestir í dag: 517
Flettingar í gær: 2631
Gestir í gær: 554
Samtals flettingar: 1959860
Samtals gestir: 496184
Tölur uppfærðar: 8.8.2020 21:07:36