17.11.2019 12:25

B. v. Leifur heppni RE 146. LCHW.

Botnvörpungurinn Leifur heppni RE 146 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir Firmað Geir & Th. Thorsteinsson í Reykjavík. Kom í fyrsta sinn til heimahafnar, Reykjavíkur þann 8 apríl sama ár. 324 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipstjóri á Leifi heppna var Gísli Magnús Oddsson og var hann einn af eigendum hans. Togarinn fórst út af Vestfjörðum ásamt Hellyerstogaranum Fieldmarshal Robertson H 104, í Halaveðrinu mikla, 7 eða 8 febrúar árið 1925 með allri áhöfn, 33 mönnum. Ein hörmulegustu sjóslys við Íslandsstrendur fyrr og síðar.


B.v. Leifur heppni RE 146 með trollið á síðunni.                                     Ljósmyndari óþekktur.

 Nýr botnvörpungur "Leifur heppni"

Í fyrradag kom hingað frá Englandi nýtt botnvörpuskip, eitt enn í viðbót við þau sem komin eru í vetur. Skip þetta heitir "Leifur heppni" og er eign þeirra Geirs Thorsteinsson og Th. Thorsteinsson. Er það smíðað í Selby hjá Cochrane & Sons, sömu skipasmíðastöðinni er smíðað hefir hina þrjá nýju botnvörpunga Kveldúlfsfélagsins.
Skip þetta er 140 fet á lengd og á að vera af líkri gerð og "Egill Skallagrímsson", að flestu leyti. Var því lofað í ágústmánuði í sumar sem leið, en smíðin hefir tafist af ýmsum orsökum, meðal annars tafðist skipssmíðin í fjóra mánuði vegna verkfalls stálsteypumanna. Skipstjóri hinns nýja botnvörpungs verður Gísli Oddsson og hefir hann dvalið í Englandi undanfarna mánuði og beðið skipsins.

Morgunblaðið. 10 apríl 1920.


B.v. Leifur heppni RE 146 á toginu.                                                                     (C) Snorri Snorrason.


B.v. Leifur heppni RE 146 á leið í slipp í erlendri höfn.                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Leifur heppni RE 146 á toginu.                                                (C) Guðbjartur Ásgeirsson. ?

             Veðrið mikla

Það brast á íslenzka flotann, sem þá var vestur á »Hala«, um hádegi á laugardaginn 7. febrúar. Varð það með svo skjótri svipan, að slíks munu ekki þekkjast dæmi, enda umhverfðist sjórinn í einu vetfangi, og ekki var hægt að ráða við neitt. Hið síðasta, sem menn vita um þá »Leif heppna« og »Robertson«, er það, að þeir voru skammt hvor frá öðrum, þegar veðrið skall á, en skip þau, er næst þeim voru, misstu brátt sjónar á þeim. Veðrið hélzt óbreytt í hálfan annan sólarhring, en þá tók því heldur að slota. »Leifur heppni« var með talsverðan afla, en um hitt skipið vita menn síður, hvort það hafði veitt nokkuð að ráði.
Á »Leifi heppna« voru þessir 33 menn:
Gísli M. Oddsson, skipstjóri, Skólavörðustíg 3 B.
Ingólfur Helgason, 1. stýrimaður, Hafnarflrði.
Ásgeir Þórðarson, 2. stýrimaður, Bergstaðastræti 37.
Valdemar Árnason, 1. vélstjóri, Hverfisgötu 16.
Jón Halberg Einarsson, 2. vélstjóri, Njálsgötu 39 B.
Magnús Brynjólfsson, loftskeytamaður, Lindargötu 14.
Jón Cornelius Pétursson, bátsmaður, Vesturgötu 25 B.
Ólafur Jónsson, matsveinn, Laugavegi 38.
Sigmundur Jónsson, háseti, Laugavegi 27.
Stefán Magnússon, háseti, Njálsgötu 32 B.
Jón Guðmundsson, háseti, Frakkastíg 23.
Ólafur Gíslason, háseti, Hverfisgötu 32.
Þorbjörn Sæmundsson, háseti, Bergþórugötu 4.
Oddur Rósmundsson, háseti, Bergþórugötu 7.
Ólafur Brynjólfsson, háseti, Lindargötu 14. (bróðir Magnúsar loftskeytamanns)
Jónas Guðmundsson, háseti, Akranesi.
Sveinbjörn Elíasson, háseti, Bolungarvík.
Sigurður Guðmundsson, háseti, Önundarfirði.
Sigurjón Jónsson, háseti, Bergstaðastræti 30 B.
Helgi Andrésson, háseti, Mjóstræti 4.
Jón Sigmundsson, háseti, Laugaveg 50.
Jón Hálfdanarson, háseti, Hafnarstræti 18.
Randver Ásbjörnsson, háseti, Rauðarárstíg 9.
Jón Jónsson, háseti, Austurstræti 11.
Sigurður Lárusson, háseti, Bröttugötu 6.
Sigurður Jónsson, háseti, Miðstræti 8 B.
Sigurður Albert Jóhannesson, háseti, Hávallagötu 16.
Sveinn Stefánsson, háseti, Miðhús í Garði.
Þorlákur Einarsson, háseti, Rúfeyjum, Breiðafirði.
Jón Sigurðsson, háseti, Sveinseyri, Dýrafirði.
Ólafur Þorleifsson, kyndari, Vatnsstíg 4.
Björgvin Kr. Friðsteinsson, kyndari, Laufásvegi 27.
Jón Stefánsson, Sauðagerði C.
Af skipshöfninni á »Leifi heppna* voru 12 menn kvæntir og láta eftir sig 31 barn. Helgi Andrésson var faðir 1. stýrimanns. Hann var gamall þilskipsformaður að vestan. Fyrir mörgum árum hvolfdi undir honum hákarlaskipi; velti skipið sér um kjöl og reisti sig aftur á hinn bóginn, og missti Helgi engan mann. Mun slíkt einsdæmi hér á landi og þótt víðar sé leitað. Magnús Brynjólfsson og Ólafur Brynjólfsson voru bræður. Ólafur Gíslason var bróðir Guðmundar G. Hagalíns skálds. Flestir af þessum mönnum voru á bezta aldri.
»Leifur heppni« var smíðaður í Selby hjá Cochrane & Son, er smíðað hefir marga hinna íslenzku botnvörpunga. Skipið var 140 feta langt og 24 feta breitt, og var að rúmmáli 333 smál.

Dagblað. 1 árgangur 32 tbl. 10 mars 1925.


Flettingar í dag: 277
Gestir í dag: 85
Flettingar í gær: 426
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 2392321
Samtals gestir: 622013
Tölur uppfærðar: 21.9.2021 14:47:19