17.11.2019 12:25

B. v. Leifur heppni RE 146. LCHW.

Botnvörpungurinn Leifur heppni RE 146 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir Firmað Geir & Th. Thorsteinsson í Reykjavík. Kom í fyrsta sinn til heimahafnar, Reykjavíkur þann 8 apríl sama ár. 324 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 136 x 23,3 x 10,7 ft. Smíðanúmer 734. Skipstjóri á Leifi heppna var Gísli Magnús Oddsson og var hann einn af eigendum hans. Togarinn fórst út af Vestfjörðum ásamt Hellyerstogaranum Fieldmarshal Robertson H 104, í Halaveðrinu mikla, 7 eða 8 febrúar árið 1925 með allri áhöfn, 33 mönnum. Ein hörmulegustu sjóslys við Íslandsstrendur fyrr og síðar.

Það var í enduðum maí árið 2016 að togarinn Sturlaugur H Böðvarsson AK var að veiðum á Halamiðum, að upp kom í veiðarfærum hans hlutar af flaki skips. Það er best að gefa skipstjóranum á Sturlaugi H Böðvarssyni AK 10, Eiríki Jónssyni orðið, en þetta er hluti af grein sem birtist í Sjómannadagsblaðinu 2021; 

. "Við vorum að fara í land og maður vissi svona nokkurn veginn hvað þetta var og fannst ómögulegt að fara að henda þessu," segir hann. Þar fyrir utan hafi verið svolítið merkilegt að fá þetta upp. Skipið var á þorskveiðum rétt sunnan við Halann. "Við vorum að draga þarna 31. maí 2016 þegar við festum," segir Eiríkur eftir að hafa ráðfært sig við dagbókina sem hann hélt upp á úr Sturlaugi, en árið eftir var skipið aflagt. "Við vissum að það var eitthvað þarna, en það vissi enginn nákvæmlega hvað." Trollið var hins vegar pikkfast og af því að þetta var á grunnu vatni segir Eiríkur að úr hafi orðið að þeir skæru frá og skildu það eftir. Skipið hélt svo veiðunum áfram en kom aftur daginn eftir.
 "Þá fórum við að slæða og fengum þetta allt upp og svo trollið líka í kjölfarið. En þetta var heljarmagn, einhverjir tuttugu metrar af lunningu, boxalok og partur úr dekki." Vel gekk líka að ná trollinu þegar krækt var í það. "Við fundum það þarna rétt vestan við. Sennilega höfum við bara krækt gröndurunum í flakið því þegar við settum í trollið var það alveg laust." Grandararnir voru langir og trollið aldrei alveg í flakinu. "Eina vitið var að gera þetta svona. Annars hefði endað með að maður hefði slitið þetta allt aftan úr, eða hlera eða einhvern fjandann. Þá var þó skárra að skilja trollið eftir. En við náðum því aftur og það var nokkuð heillegt þegar það kom upp." Skipið hélt svo í land 2. júní og landaði á Ísafirði næsta dag. "Þannig að við vorum með þetta á dekkinu í tvo daga." Á Ísafirði voru hlutarnir úr flakinu hífðir upp á bryggju og Byggðasafn Ísafjarðar tók þá til handargagns. "Ekki kom annað til greina en að þetta væri annaðhvort úr Leifi heppna eða Field Marshal Robertson. Það mátti ráða bæði út af staðsetningunni og svo aldrinum á þessu flaki. Þetta er allt hnoðað og boltað saman, en ekki soðið eins og ef skipið hefði verið yngra. Það var ljóst að þetta væri mjög gamalt."
Það var svo út af öðru óskyldu máli sem Eiríkur var í sambandi við Egil Þórðarson loftskeytamann og í samtali þeirra kom fram að Egill væri að grúska í Halaveðrinu. "Og ég fór þá að segja honum frá þessu flaki sem við hefðum fengið upp og teldum að væri annaðhvort af Leifi heppna eða Field Marshal Robertson." Ekki er hins vegar hægt að slá nokkru föstu um hvoru flakinu þeir festu í. "En núna vitum við að minnsta kosti nákvæmlega hvar bæði flökin eru." Og út frá gögnunum um leitina sem fram fór af skipunum segir Eiríkur að sjá megi að siglt hafi verið nánast beint yfir staðinn þar sem þau lágu og lengst suður í haf. Halaveðrið var mannskaðaveður sem olli tjóni víða um land og lenti fjöldi báta og skipa í vandræðum. Veðurspár voru ekki eins og gerist í dag og veður hafði verið gott áður en brast á með ósköpunum. Skörp hitaskil á milli Íslands og Grænlands urðu til þess að lægðin dýpkaði og dýpkaði og telur Eiríkur að skipin hafi ekki mátt sín mikils í veðrinu. "Þetta voru engin úthafsskip og máttu ekki við miklu. Robertson var smíðaður sem tundurduflaslæðari sem breytt var í togara. Og út af kolaplássi sem fór fram í lestina fór allur aflinn svo framarlega í skipin að þau voru alveg á nösunum. Þetta voru ekki stór skip, 45 metra löng og rúmir sjö metrar á breidd og mjög lág á sjónum." Á milli flakanna eru um það bil fjórar til fimm mílur, segir Eiríkur. "En eitt er svolítið skrítið, því eins lengi og ég er búinn að vera á togara þá var alltaf þarna í vesturkantinum á Djúpálnum flak merkt sem Leifur heppni. Nú er búið að staðfesta að það er bara þvæla. Þar er ekki neitt neitt, bara einhver festa." 



B.v. Leifur heppni RE 146 með trollið á síðunni.                                     Ljósmyndari óþekktur.

 Nýr botnvörpungur "Leifur heppni"

Í fyrradag kom hingað frá Englandi nýtt botnvörpuskip, eitt enn í viðbót við þau sem komin eru í vetur. Skip þetta heitir "Leifur heppni" og er eign þeirra Geirs Thorsteinsson og Th. Thorsteinsson. Er það smíðað í Selby hjá Cochrane & Sons, sömu skipasmíðastöðinni er smíðað hefir hina þrjá nýju botnvörpunga Kveldúlfsfélagsins.
Skip þetta er 140 fet á lengd og á að vera af líkri gerð og "Egill Skallagrímsson", að flestu leyti. Var því lofað í ágústmánuði í sumar sem leið, en smíðin hefir tafist af ýmsum orsökum, meðal annars tafðist skipssmíðin í fjóra mánuði vegna verkfalls stálsteypumanna. Skipstjóri hinns nýja botnvörpungs verður Gísli Oddsson og hefir hann dvalið í Englandi undanfarna mánuði og beðið skipsins.

Morgunblaðið. 10 apríl 1920.


B.v. Leifur heppni RE 146 á toginu.                                                                     (C) Snorri Snorrason.


B.v. Leifur heppni RE 146 á leið í slipp í erlendri höfn.                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Leifur heppni RE 146 á toginu.                                                (C) Guðbjartur Ásgeirsson. ?

             Veðrið mikla

Það brast á íslenzka flotann, sem þá var vestur á »Hala«, um hádegi á laugardaginn 7. febrúar. Varð það með svo skjótri svipan, að slíks munu ekki þekkjast dæmi, enda umhverfðist sjórinn í einu vetfangi, og ekki var hægt að ráða við neitt. Hið síðasta, sem menn vita um þá »Leif heppna« og »Robertson«, er það, að þeir voru skammt hvor frá öðrum, þegar veðrið skall á, en skip þau, er næst þeim voru, misstu brátt sjónar á þeim. Veðrið hélzt óbreytt í hálfan annan sólarhring, en þá tók því heldur að slota. »Leifur heppni« var með talsverðan afla, en um hitt skipið vita menn síður, hvort það hafði veitt nokkuð að ráði.
Á »Leifi heppna« voru þessir 33 menn:
Gísli M. Oddsson, skipstjóri, Skólavörðustíg 3 B.
Ingólfur Helgason, 1. stýrimaður, Hafnarflrði.
Ásgeir Þórðarson, 2. stýrimaður, Bergstaðastræti 37.
Valdemar Árnason, 1. vélstjóri, Hverfisgötu 16.
Jón Halberg Einarsson, 2. vélstjóri, Njálsgötu 39 B.
Magnús Brynjólfsson, loftskeytamaður, Lindargötu 14.
Jón Cornelius Pétursson, bátsmaður, Vesturgötu 25 B.
Ólafur Jónsson, matsveinn, Laugavegi 38.
Sigmundur Jónsson, háseti, Laugavegi 27.
Stefán Magnússon, háseti, Njálsgötu 32 B.
Jón Guðmundsson, háseti, Frakkastíg 23.
Ólafur Gíslason, háseti, Hverfisgötu 32.
Þorbjörn Sæmundsson, háseti, Bergþórugötu 4.
Oddur Rósmundsson, háseti, Bergþórugötu 7.
Ólafur Brynjólfsson, háseti, Lindargötu 14. (bróðir Magnúsar loftskeytamanns)
Jónas Guðmundsson, háseti, Akranesi.
Sveinbjörn Elíasson, háseti, Bolungarvík.
Sigurður Guðmundsson, háseti, Önundarfirði.
Sigurjón Jónsson, háseti, Bergstaðastræti 30 B.
Helgi Andrésson, háseti, Mjóstræti 4.
Jón Sigmundsson, háseti, Laugaveg 50.
Jón Hálfdanarson, háseti, Hafnarstræti 18.
Randver Ásbjörnsson, háseti, Rauðarárstíg 9.
Jón Jónsson, háseti, Austurstræti 11.
Sigurður Lárusson, háseti, Bröttugötu 6.
Sigurður Jónsson, háseti, Miðstræti 8 B.
Sigurður Albert Jóhannesson, háseti, Hávallagötu 16.
Sveinn Stefánsson, háseti, Miðhús í Garði.
Þorlákur Einarsson, háseti, Rúfeyjum, Breiðafirði.
Jón Sigurðsson, háseti, Sveinseyri, Dýrafirði.
Ólafur Þorleifsson, kyndari, Vatnsstíg 4.
Björgvin Kr. Friðsteinsson, kyndari, Laufásvegi 27.
Jón Stefánsson, Sauðagerði C.
Af skipshöfninni á »Leifi heppna* voru 12 menn kvæntir og láta eftir sig 31 barn. Helgi Andrésson var faðir 1. stýrimanns. Hann var gamall þilskipsformaður að vestan. Fyrir mörgum árum hvolfdi undir honum hákarlaskipi; velti skipið sér um kjöl og reisti sig aftur á hinn bóginn, og missti Helgi engan mann. Mun slíkt einsdæmi hér á landi og þótt víðar sé leitað. Magnús Brynjólfsson og Ólafur Brynjólfsson voru bræður. Ólafur Gíslason var bróðir Guðmundar G. Hagalíns skálds. Flestir af þessum mönnum voru á bezta aldri.
»Leifur heppni« var smíðaður í Selby hjá Cochrane & Son, er smíðað hefir marga hinna íslenzku botnvörpunga. Skipið var 140 feta langt og 24 feta breitt, og var að rúmmáli 333 smál.

Dagblað. 1 árgangur 32 tbl. 10 mars 1925.


Flettingar í dag: 355
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720252
Samtals gestir: 53504
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 04:03:39