18.11.2019 18:46

B. v. Snorri Sturluson RE 134. LCDB.

Botnvörpungurinn Snorri Sturluson RE 134 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd South Bridge Road í Hull á Englandi árið 1900 fyrir Humber Steam Trawling Co Ltd í Hull, hét þá Pointer H 513. 228 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél. 125 ft. á lengd, 22 ft. á breidd og djúprista 12 ft. P.J. Thorsteinsson & Co hf (Milljónafélagið) í Reykjavík og í Kaupmannahöfn keyptu skipið í Hull í júnímánuði árið 1907. Skipið var selt í mars 1914, Hlutafélaginu Snorra Sturlusyni í Kaupmannahöfn. Keypt aftur til landsins 24 apríl 1915 og var þá í eigu Thors Jensen útgerðar og kaupmanns í Reykjavík. Togarinn var svo seldur til Englands aftur árið 1919-20.

Hún er athyglisverð frásögnin eftir Guðmund Björnsson landlækni, sem birtist í Lögréttu sumarið 1910 sem kallast "Sumarnótt á Sviði" Þar fór landlæknir í stutta sjóferð á Snorra Sturlusyni og þar var þá skipstjóri Björn Ólafsson í Mýrarhúsum. Þar kemur orðið "togari" fyrst fram. Hún er hér fyrir neðan á síðunni. 

"Nafnið "Milljónafélagið" sem almannarómur gaf hlutafélaginu vegna ákvæðisins í félagslögunum um að hlutafé þess væri 1 milljón króna. Það var aldrei sannefni og þaðan af síður hitt, sem ófróður ímyndaði sér, að félagið hefði slíka upphæð til ráðstöfunar í reiðufé. Stærstu hluthafarnir, P.J. Thorsteinsson og Thor Jensen höfðu lagt fram miklar eignir, Aage Möller fékk hlutabréf fyrir "goodwill", þ.e. viðskiptasambönd, sem hann lagði fram víða í Evrópu, en hélt þó áfram að heimta umboðslaun af fisksölum til Spánar til fyrirtækis síns, A.T Möllers & Co í Kaupmannahöfn. Hlutabréf til annarra en stofnefnda seldust dræmt, og reiðufé félagsins var því frá upphafi lítið. Til rekstursins varð það því að treysta lánstrausti sínu fyrst og fremst hjá bönkunum í Kaupmannahöfn"

Heimild: Ævisaga Thors Jensen. Framkvæmdaár. Valtýr Stefánsson 1955.


B.v. Snorri Sturluson RE 134 á ytri höfninni í Reykjavík.                                (C) Magnús Ólafsson.

            B.v. Snorri Sturluson

Nýjan botnvörpung hefir P. J. Thorsteinssonsfélagið eignast nýlega frá Englandi, ekki nýsmíðaðan þó, heldur 7 ára, á stærð við Marz. Skipstjóri er Guðbjartur Jóakim Bjarnason og skipshöfn öll íslenzk, nema vélstjórar (enskir). Skipið hefir verið skírt Snorri Sturluson. Það lagði á stað héðan í gær til veiða.

Ísafold. 22 júní 1907.


B.v. Snorri Sturluson RE 134 á Reykjavíkurhöfn.                               Mynd á póstkorti í minni eigu.


Hafskipabryggja "Milljónafélagsins" í Viðey. Fyrir miðri mynd er kútter Björn Ólafsson GK 21. Kaupskip og togari við bryggjuhausinn.       (C) Magnús Ólafsson.


        Sumarnótt á Sviði  

Sumarið 1910 birtist í Lögréttu frásaga eftir Guðmund Björnsson, landlækni, sem hann kallaði "Sumarnótt á Sviði". Þar lýsir hann vel og skemmtilega veiðiför með íslenzkum togara út í Faxaflóa. Er þar brugðið upp góðum myndum frá togaraútgerðinni, eins og hún var hér fyrstu árin. Þegar grein þessi var rituð, skorti íslenzk orð yfir marga þá hluti, sem notaðir voru við togveiðar á botnvörpuskipum, og sjást þess nokkur merki á greininni, að landlæknir hefur leitað hentugra orða íslenzkra, í stað hinna erlendu heita. Fullvist mun það vera, að í þessari ferð myndaði Guðmundur Björnsson orðið togari, en það hefur rutt sér til rúms og útrýmt orðunum trollari og botnvörpungur, sem áður voru notuð. - Grein Guðmundar Björnssonar fer hér á eftir, lítið eitt stytt.

Ef litið er til hafs að kvöldi dags ofan frá Skólavörðu, má sjá mikinn skipaflota úti á miðjum Faxaflóa og reykjarmökk yfir hverri fleytu, því að allt eru þetta eimskip. Það eru "trollararnir". Orðið er komið úr ensku, en enska orðið úr frönsku. - Orðin botnvörpuskip og botnvörpungar hafa ekki náð fótfestu í mæltu máli; þau eru of löng. En sjómenn hafa sjálfir fundið orð, sem vel á við; þeir segja: að toga; "þarna er einn að toga", "við togum venjulega tvo eða þrjá tíma í senn", segja þeir. Orðið er ágætt, merkingin söm og í enska orðinu trawl. Við ættum því að segja togari, en ekki trolari, toga í stað trola og tog eða tognet í stað trawl. Þessi skip eru að ýmsu leyti frábrugðin öðrum fiskiskipum. Vinnan er ekki hættulaus. Menn slasast oft. Þeir kenna oftast járnreipunum um slysin. Það eru reipin, sem liggja út af skipinu og teyma netið. Þegar skipið tekur í þessa tauma af öllu afli, má nærri geta, að ekki muni holt að verða fyrir þeim; þeir skella þá oft fingur af mönnum. Eru þau sár því líkust sem þau væru eftir axarhögg. Þess konar meiðsli hef ég oft séð, líka beinbrot og hold marið frá beinum. Ekki alls fyrir löngu bar það við á enskum togara, að annar nettaumurinn kippti mann í sundur, af fót og mjöðm öðru megin, svo að maðurinn dó samstundis. Mér hefur því leikið hugur á að sjá þessa veiðiaðferð, vita, hvort ekki mundi gerlegt að komast hjá þessari meiðslahættu.


Hafskipabryggjan í Viðey. Togarinn sem liggur við bryggjuhausinn er sennilega Snorri Sturluson RE 134. Þetta var eina bryggjan við Faxaflóann og jafnvel víðar sem mátti teljast bryggja fyrir hafskip. Hún var um 80 m. á lengd, 6 á breidd og bryggjuhausinn var um 30 metrar, en var lengdur síðar. Hún var byggð sumarið 1907.
  
Um þetta leyti árs eru íslenzku togararnir við veiðar á nóttum, en liggja í höfn á daginn. Fyrir skömmu fór ég út á einum þeirra næturlangt. Þá gaf mér á að líta. Togarar eru borðlágir. Lyfting er miðskipa. í henni er íbúð formanna aftast, þá gangvél skipsins, en fremst, fyrir framan rykberann, stendur stýrisklefi upp úr lyftingunni, með gluggum á alla vegu. Þar er stýrishjólið og þar er skipstjóri jafnan, þegar skipið er á ferð. Niðri á þilfarinu, rétt fyrir framan lyftinguna, er stórvindan. Henni snýr gufuvél. Á vinduásnum sitja tvær feiknastórar spólur, um þær er vafið járntaumunum, sínum á hvora spóluna. Taumarnir ganga af spólunum fram eftir miðju þilfarinu, kringum tvo uppstandara úr járni nálægt framstafni og þaðan aftur á við og út á borðstokk, sinn í hvorn hlera. Eru tveir hlerar á hvort borð og hanga utanborðs þegar skipið er búið að veiða, annar fram á, hinn aftur á skipinu. En tognetin liggja þá innanborðs og jafnan tvö til taks, sitt hvoru megin, milli lyftingar og borðstokka. Hvert net er í laginu eins og heljarstór botnlangi. Nær opið milli hleranna og er áfast við þá. Þegar toga skal, hangir það nú fyrst á munnvikum sínum, sem fest eru sitt við hvorn hlerann; þá eru taumarnir settir gegnum  kengi á borðstokknum og festir í hlerana, þeim síðan hleypt niður í sjóinn 10 faðma; því næst er skipið skrúfað áfram og gefnir út taumarnir af vinduspólunum, meira eða minna eftir dýpi. Heldur nú skipið leiðar sinnar; dregst netið eftir botninum; er hlerunum svo hagað, að þeir standa á ská í vatninu og gapa móti straumnum þegar skipið gengur; spyrnir straumurinn þeim út til hliðanna; opnast þá netið og strengist efri vör þess beint milli hleranna; en neðri vörin er miklu lengri; hún slapir niður og lepur það sem fyrir verður á sjávarbotninum. Á þilfarinu framanverðu eru fetháar stíur, ferhyrnar, 5 eða fleiri. Niður í þær er fiskinum hleypt úr netinu, þegar það er innbyrt. Þegar taka á upp netið, er skipið stöðvað og snúið svo, að netið verði á kulborða. Þá er vindunni hleypt á stað og vindur hún taumana upp á spólurnar þar til hlerarnir koma upp á hástokkinn, annar fram á, hinn aftur á. Þeir eru í kjaftvikum netsins, eins og áður er getið.


Saltfiski landað úr togara á Hafskipabryggjunni í Viðey.                          (C) Magnús Ólafsson.
  
Er nú tekið í neðri vör netmunnsins, sem nær er borðstokknum, og hún dregin upp á borðstokkinn og því næst efri vörin. Ef Iítið er í netinu af fiski, er það togað inn yfir borðstokkinn mestallt; hrökklast þá fiskurinn niður í pokabotn, er þá brugðið taug utan um pokann, eins og fyrirbandi, fyrir ofan veiðina, sú taug fest í sigludragreipi og pokaendinn dreginn upp svo hátt, að hann sveiflast inn á þilfarið og hangir þar í lausu lofti. Er þá losað um bönd í pokabotninum, svo að op verður, og veiðinni hleypt niður í stíurnar á þilfarinu. Ef mikið er í voðinni, t. d. mikið á annað þúsund af vænum þorski, verður að toga upp veiðina í tvennu lagi; er þá skipið skrúfað ögn aftur á bak; leggst þá netlanginn fram með skipshliðinni; er bandinu brugðið um hann miðjan, veiðin helminguð, pokabotninn innbyrtur, opnaður, tæmdur, lokað aftur, fleygt út til að taka í sig það sem eftir var, og það svo innbyrt á sama hátt. Þá segja togarar, að þeir hafi fengið "tvo poka". Þegar bezt lætur, fá þeir 3 eða 4 poka í einum drætti.

Sumarnótt á Sviði.
Lengjast skuggar, lækkar sól,
leggjum út á Svið;
óþarft er að gefa
þeim gula næturfrið.
Köstum voð, tökum tak,
togum út við hraun;
aldrei bregðast aflamönnum erfiðislaun.


Fullt dekk af fiski og nokkrir pokar eftir ennþá við síðuna.                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Sólin var komin í miðaftansstað; veðrið var fagurt og blítt, sunnan andvari, glitaðar gárur á sjónum, en blámóða á fjöllum. Margir bátar flutu við bryggjuna og var þar margt um manninn, sumir að vinna, aðrir að spjalla og spjátra sig. Við einn bátinn stóðu tveir menn, kyrrir og þögulir. Þangað stefndi ég göngu minni. "Eruð þið Snorrungar?" Þeir brostu, kinkuðu kolli og bentu mér niður í bátinn, hlupu undir árar og réru knálega út á miðja höfnina að togara sem þar lá og bar nafnið Snorri Sturluson. Þangað var ferðinni heitið. Skipstjórinn var góður vinur minn, ungur maður, Björn að nafni Ólafsson frá Mýrarhúsum. Hann hafði boðið mér að koma með sér eina nótt út á Svið og sjá, hvernig þeir færu að toga þann gula upp úr sjónum, hann og Snorri. Mér var vísað til hans upp í stýrisklefann, fremst í lyftingunni. Snorri var ferðbúinn. Hlerarnir héngu utanborðs, tveir á hvort borð, fram á og aftur á, eins og feiknastórir skildir, en netin lágu samanbrotin fram með hástokkunum milli framhlera og afturhlera, sitt hvorum megin við lyftinguna, og voru á að líta eins og gamlar, ryðgaðar hringabrynjur. Reykjarstrókurinn stóð í háa loft upp úr reykberanum. Hásetar stóðu hljóðir á þilfari. Mér var sem stæði ég á herskipi og ætti að leggja til orustu. "Akkerið upp!" sagði skipstjóri - hann sagði það skýrt og skorinort, en æpti ekki, eins og skipstjórum er títt á útlendum skipum. Óðar en hann hafði sleppt orðinu, tók að ymja í vindunni, og fyrr en mig varði var akkerið komið upp. Þá þreif skipstjóri í vélsveifina og sendi bendingu niður í skipið til vélstjórans. Kvað þegar við strokkhljóð úr vélinni og buslugangur undan bakstafni. Snorri skrúfaði sig á stað, fyrst í hægðum sínum, en innan stundar af öllu afli, út úr höfninni, út sundin.


Flattur fiskur í stæðum á dekki í tonnatali.                                        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
Hásetar hurfu af þilfari, gengu til hvíldar. Einn varð eftir í stýrisklefanum og stýrði eftir fyrirsögn skipstjórans. Mér varð fyrir að spyrja um ætt Snorra og uppruna. Hann er 10 vetra og enskur að uppruna; áttu hann fyrst enskir menn; bar hann þá enskt nafn; ekki veit ég, hvort hann hét Georg, Andrés eða Patrekur; en það er kunnugt, að hann var þá mesti ólánsbelgur, fékk aldrei seiði úr sjó; er það trú sjómanna, ef skip fiskar illa í fyrstu, þá verði það aldrei heppið. "Hann er mátulegur handa Mörlandanum", hugsaði Jón Boli, og varð guðsfeginn að geta selt þennan togara, sem ekkert gat togað úr sjónum. Viðeyingar (P. Thorsteinsson & Co.) keyptu hann og höfðu út hingað; var hann nú kristnaður á íslenzku og kallaður Snorri Sturluson. Var svo að sjá í fyrstu, sem hinar ensku spárir mundu rætast, og byrðingurinn gera nafninu skömm. Þá var forustan fengin í hendur Birni Ólafssyni, og síðan hefur Snorri aflað á við þá togara, sem frægastir eru. Björn var áður formaður á seglskipi, alkunnur dugnaðarmaður. Varð hér sú raunin á, að íslenzkur dugnaður mátti sín meir en enskar hrakspár og Mörlandinn hamingjudrýgri en Jón Boli. Ég hef sannar sögur af því, að engir enskir togarar afla eins vel og íslenzku togararnir, þeir, sem nú kveður mest að. Við vorum komnir út fyrir Akurey. Í vesturátt, undir sól að sjá, kom ég auga á skiparöð; þau voru um tuttugu að tölu, öll með þríhyrnu á aftursiglunni, allt togarar, sumir íslenzkir, aðrir enskir, en þó flestir franskir í þetta sinn. Á sumum var farið að rjúka, en margir voru ekki farnir að hita á kötlunum. "Það er ekki til neins að toga, um þetta leyti árs, fyrr en eftir náttmál", sagði Björn mér. Okkur bar fljótt að. "Hvar eru nú landhelgismörkin ?" spurði ég. "Nú eru þau bak við okkur", svaraði skipstjórinn. Rétt á eftir gekk hann að flautulegg, sem lá úr stýrisklefanum niður til hásetanna, og blés í legginn. Það nam engum togum; í einni svipan stóðu hásetar albúnir á þilfarinu. Þeir höfðu legið í öllum fötunum. Skipið var stöðvað. "Netið út á bakborða". Hásetar þustu til, röðuðu sér með borðstokknum og ruddu netpokabákninu útbyrðis. Nú hékk þessi heljar botnlangi niður í sjóinn með ginið upp og munnvikin áföst við hlerana; járntaumarnir af stórvindunni voru nú hespaðir við borðstokkinn og festir í hlerana, en milli þeirra er mjög stórt bil. Var nú vindan losuð og hlerunum hleypt niður 10 faðma. Því næst var skipinu hleypt á stað og gefnir út taumarnir, svo tugum faðma skifti. "Nú togum við", sagði skipstjórinn. "Hvar erum við?" "Við erum á Sandhala", sagði hann, "og hér er kveikjulegt í kvöld". Það kalla sjómenn kveikjulegt, ef mikið er af fugli, einkum svartfugli. Þar er síli og fiskvon. Veslings sílið. Fugl bítur að ofan, en fiskur að neðan.


Karlinn í "hólnum" fylgist með mönnum sínum bæta druslurnar.          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Fuglinn sá ég, en engan sandhala; hann tók ég trúanlegan. Ég veit að Sviðið er geysistórt fiskimið í miðjum flóanum; þar þekkja sjómennirnir okkar hvern blett, allt miðað við landsýn, og vita hvernig botninn er á hverjum stað og hafa ótal örnefni. Hraun er í botninum út allan flóa að sunnanverðu við Sviðið. Togarar verða að varast hraunið, til þess að rífa ekki netin. Nú er oft mestur fiskur út við hraunbrúnirnar. Vandinn er að þekkja þær og þræða með þeim. Snorri togar og togar. Hásetar eru engir uppi. Nú eru öll hin skipin farin að toga. Sólin er sezt; vindinn lægir; nú tekur að dimma í lofti; allt hljóðnar; það líður að lágnætti. En skipstjórinn vakir. Hann horfir til lands, sívakandi, síhugsandi, og heldur skipinu í einlægar bugður og króka. Hásetar taka hvíld, en hann vinnur. Hann er veiðimaðurinn. Undir honum er það komið, kunnugleik hans, árvekni og hyggindum, hvað vel gengur. Þetta hringsól villir um mig hvað eftir annað, svo að ég tapa áttum. Nú sé ég dufl, og á því rifrildi af frönskum fána. þess konar dufl hafði ég séð á Sandhalanum. "Við erum þó ekki komnir á Sandhalann aftur?", spurði ég. "Það er rétt til getið", sagði skipstjórinn, ,,og nú er bezt að sjá hvað komið er". Nú var kallað á háseta og netið innbyrt. Og veiðin? Allmikið af sundurtættum þorskhausum og tveir hálfdauðir steinbítar í pokahorninu, það var öll veiðin eftir þriggja tíma tog. Henni var óðar mokað aftur í sjóinn. "Það er ekki öll nótt úti enn", sagði Björn, hleypti Snorra á sprett góðan spöl vestur á bóginn og kastaði þar aftur út. Ég hefi aldrei heyrt að læknar séu til bölvunar á sjó, eins og prestarnir, en nú fór mig að gruna margt. "Nú fer ég og legg mig, meðan þið eruð að toga", sagði ég við skipstjóra. "Ég ætla að vita, hvort mig dreymir ekki fyrir einhverju öðru en úldnum þorskhausum". Svo fór ég niður og lagðist fyrir og bað fallega sjómannsbæn:

Mardöll á miði
í myrkbláum sal,
seiddu nú að Sviði
sækinda val;
láttu fara í friði
fengsælan hal.


Fullt dekk af fiski. Myndin er tekin um borð í Garðari GK 25.            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
Síðan sofnaði ég. Mig dreymdi að allir þorskhausarnir væru orðnir að stórum fallegum skipum, krökt af þeim á flóanum, brunandi út og inn, og öll með íslenzka veifu við efsta hún. Og margt dreymdi mig fleira, sem ég segi engum frá. Loks hrökk ég upp við hrikt í vindunni. Hamingjan góða; skyldu déskotans"þorskhausarnir vera að ráðast til uppgöngu aftur. Ég þaut á fætur og upp á þilfar. Vindan másaði og vatt utan um sig járntaumunum. Innan skamms komu hlerarnir upp á borðstokkinn, annar fram á, hinn aftur á. Milli þeirra sá í opið á netpokanum. Var nú losað frá fremra hleranum band, sem þaðan gengur í neðri vör netmunnsins, þá sem slapir og lepur af botninum þegar togað er, og liggur nær skipshliðinni, þegar upp er dregið. En hvað er þetta? Allt í einu bólar á löngum dröngul, afar gildum, eins og einhverjum heljar botnlanga, beint út úr skipshliðinni. Það var ekki missýning. Þetta var netpokinn, fullur af gulhvítum stórþorskum. Nú er komin afturelding og aftur líf. Ritur og mávar komu í loftinu úr öllum áttum og 3 togarar sinn úr hverri áttinni á sjónum, til að bera sig eftir björginni. Snorrungar fylktu sér með borðstokknum, tylft manna, til að draga inn netið. Þegar útlendir menn eru margir um eitt átak, æpa þeir jafnan um leið og þeir taka á. Þessir þögðu. Þeir þrifu í möskvana allir í senn, krepptu hnefana og tóku tak, allir í einu, upp aftur og aftur, sem einn maður, alveg hljóðalaust. Þegar netopið var komið vel inn fyrir borðstokkinn, var skipið skrúfað ögn aftur á bak, svo að netlanginn lagðist fram með hliðinni. Var nú brugðið bandi um hann, nær botni en opi, og pokabotninn dreginn upp á skipið með sigludragreipinu og í honum hér um bil helmingur aflans. Þá var losað band, gert op á pokabotninn og hleypt úr honum, lokað aftur, kastað út, til að taka á móti því sem eftir var í langanum, og það svo innbyrt á sama hátt. Þessu var brátt lokið, vörpunni aftur kastað út, tómri, skipið sett á stað, gefnir út taumarnir og farið að toga. Nú áttu hásetarnir nóg að vinna. Þarna lá hátt á annað þúsund af stórþorski í stíunum á þilfarinu, sumir dauðir, flestir í fjörbrotunum. Sumir hásetanna fóru til og skáru á kverkina á hverjum fiski, til þess að úr þeim rynni blóðið. Aðrir tóku við og skáru af hausana og fleygðu í sjóinn. Allir hömuðust. Enginn mælti orð frá munni. Svo voru borð reist og farið að gera að, þvo fiskinn og fleygja honum niður í lestina, til tveggja háseta, sem tóku við og söltuðu. Mér varð starsýnt á þessi vinnubrögð; ég gáði á klukkuna og sá einn mann fletja þrjá stórþorska á einni mínútu.


Pokinn tekinn inn og tæmdur.                                                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Öllu innvolsi var fleygt í sjóinn, nema lifrinni. Hana fá skipverjar í kaupbæti. Sá kaupbætir getur numið 2-4 kr. á mann á sólarhring, þegar vel veiðist. "Hvaðan af Sviðinu kom okkur þessi fengur?" spurði ég skipstjórann. "Ég kastaði á Kambsleiru", svaraði hann, "togaði vestur Lága Múlann, snéri um Háa Múlann og aftur inn í Kambsleiru". Ég var litlu nær. "Hvað hefur Snorri fengið mest í einu togi?" "5000 mest, það voru 4 pokar". "En hvað hefur komið mest á sólarhring?" "11 ½  þúsund fengum við einu sinni". 5000 þúsund í einum drætti mun vera eins dæmi meðal togara. Ég undraðist ákefð og verklægni hásetanna. "Góðir menn, ágætir menn", sagði skipstjóri, "geta vakað og unnið svo dægrum skiftir, án þess að guggna". Eftir stutta stund var allur fiskurinn kominn í salt, 1600 af vænsta þorski. Í næsta togi fengum við 100 í viðbót. Var nú netinu kastað í fjórða sinn og togað góða stund. , Við íslendingar erum undarlega skapi farnir. Það er sagt um marga unga menn til forna, að þeir voru efnilegir í bernsku, en lögðust svo í öskustó og höfðust ekkert að fram undir fullorðins aldur, og þóttu til einskis nýtir; en oft fór svo um síðir, að þeir risu úr öskustónni og urðu afbragð annara manna. íslenzka þjóðin var efnileg í bernsku. Síðan hefur hún legið í öskustó. Nú er hún að rísa á fætur og hrista af sér larfana. Hún er enn ung. Hún getur enn orðið afbragð annara þjóða. Það er mín trú, að þetta muni rætast. Ef enginn trúir því, rætist það aldrei. Það er sagt, að Mörlandinn sé skussi og kunni ekki að vinna. Ég hef það eftir sannorðum manni, að einu sinni fyrir skömmu voru 10 menn að moka upp úr hússtæði í Reykjavík. "Ég sá til þeirra út um glugga", sagði hann, "og tímum saman voru aldrei nema tvær skóflur á lofti í einu, hinir voru að spjalla og taka í nefið". Annar kunningi minn segist hafa setið að gamni sínu og horft á trésmið, sem var að leggja undirgólf milli bita í nýreistu húsi. "Hann var fulla klukkustund að negla 4 stuttar fjalir, 4 nagla í hverja fjöl; þetta var við alfaraveg; hann var síkjaftandi við þá, sem um götuna gengu". Þessir menn eru ekki risnir upp úr öskustónni. Þó er nú margur kominn á legg, og það verð ég að segja, að ég hef hvorki utan lands né innan séð fríðari og röskari verkamannasveit, en skipshöfnina á Snorra Sturlusyni. Á því skipi er enginn útlendur maður. Það er sagt um Þorbjörn Kólku landnámsmann, að hann hafi róið einn á steinnökkva frá Hafnabúðum á Skaga og róið lengra en allir aðrir. Hann hafði til að beita á öngli sínum "Fóhorn og flyðrugarnir, mannaket í miðjum bug og mús á oddi", segir gömul þjóðsaga í Húnavatnssýslu. Hann var afburðamaður, en einrænn og ekki orðmargur; og því líkir voru margir ættfeður okkar Íslendinga. Því líkir eru margir íslendingar enn í dag, ef þeir hafa sig upp úr öskustónni.


Dekkið "smúlað", sennilega á landleið. Takið eftir vara toggálganum sem bundinn er við s.b. toggálgann. 
(C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Bátstjórinn á Snorra minnti mig á Þorbjörn Kólku. Ég þekki hann ekki og veit ekki hvað hann heitir, en íslenzki ættarsvipurinn leyndi sér ekki. Hann var í hærra meðallagi, þrekinn mjög, rjóður og búlduleitur, íbygginn og alvörugefinn, gætti verka sinna og gáði ekki annars. Skipstjóri sagði, að sá maður stæðist hverja raun. Nú hrökk ég upp úr hugsunum mínum, heyrði rymja í vindunni. Þegar ég kom upp, var verið að innbyrða netið í fjórða sinn, og var ekkert í því nema fáeinir nýir þorskhausar, "líklega þeir sem við köstuðum út í nótt", sagði skipstjóri. Það var komið fram yfir miðjan morgun, og Snorri snéri nú til lands. Þennan morgun var sumar á sjó og landi, sunnanvindur hægur og hlýr, og sól í austri, en skýflókar á lofti, svo að skugga bar víðast á láglendið og var sem sæi á myrkan skóg með björtum rjóðrum.
Landsýnin af Sviði er ein hin fegursta við Íslands strendur. Ef litið er inn flóann, má sjá á vinstri hönd "þrjú fjöll há og dali í öllum", eins og segir í Kjalnesingasögu. Það er Skarðsheiði, Akrafjall og Esjan. Til hægri handar sér í Reykjanesfjallgarðinn. En beint fram undan getur að líta nes og eyjar, og þar upp af hæðótt láglendi, víðáttumikið, og bak við það Hengilinn. Þess gætir ekki af sjónum, að landið er hrjóstrugt. Togararnir okkar eru að verða þjóðinni til stórsóma með dugnaði sínum. Ef þið trúið mér ekki, þá farið og gistið hjá þeim eina sumarnótt úti á Sviði.  

Sjómannablaðið Víkingur. 11-12 tbl. 1 desember 1947.

Flettingar í dag: 583
Gestir í dag: 244
Flettingar í gær: 666
Gestir í gær: 196
Samtals flettingar: 1962237
Samtals gestir: 496937
Tölur uppfærðar: 11.8.2020 15:25:23