04.01.2020 17:14

B. v. Maí GK 346. LCHP / TFMD.

Botnvörpungurinn Maí GK 346 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920. Hét á smíðatíma Ephraim Bright FY 4407 (á pappírunum), en kláraður sem Maí RE 155, og var í eigu Fiskiveiðahlutafélagsins Ísland frá maí sama ár. 339 Brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 423. Kom fyrst til heimahafnar Reykjavíkur hinn 4 júní 1920. Skipið var selt í febrúar árið 1931, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar og fékk þá nafnið Maí GK 346. Togarinn var seldur í brotajárn til Danmerkur og rifinn í Odense í júlímánuði árið 1955.

Skipið var aldrei skráð með nafninu Ephrain Bright nema einungis á pappírunum. Það var einungis FY 4407 númerið sem var á skipinu þangað til það var selt Íslandsfélaginu í maí 1920, eftir því sem ég best veit.


B.v. Maí GK 346 á toginu.                                                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

          Botnvörpungurinn Maí 

Hinn nýi botnvörpungur fiskifélagsins "Ísland", kom í nótt frá Bretlandi og liggur fánum skreyttur við hafnarbakkann. Einar skipstjóri Guðmundsson kom með hann hingað, en Björn Ólafsson tekur nú við skipstjórninni. Maí er samskonar skip eins og Apríl.

Vísir. 4 júní 1920.


Sannarlega mannfagnaður um borð í Maí. Held að myndin sé frá árinu 1931 þegar Bæjarútgerðin keypti skipið.      Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Maí GK 346.                                                                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

           Hafnarfjörður á togaraöld

  Bæjarútgerð Hafnarfjarðar fram til 1960

Hugmyndin að bæjarútgerð kom fram strax árið 1916 í Hafnarfirði og í Reykjavík, sama ár og Alþýðuflokkurinn og Alþýðusambandið var stofnað. Þar átti hugmyndin sínar rætur og lifði áfram þó ekki yrði af framkvæmdum. Fyrsti vísir að bæjarútgerð var myndaður í Hafnarfirði veturinn 1927. Þá var atvinnuleysi nokkuð í bænum, en Alþýðuflokksmenn höfðu náð meirihluta í bæjarstjórninni árið áður. Tók bæjarsjóður á leigu botnvörpunginn Clementínu í samvinnu við Akurgerði sf. sem þeir Ásgrímur Sigfússon og Þórarinn B Egilsson stjórnuðu. Útgerðin heppnaðist vel og skilaði hagnaði, en ekki stóð hún nema þessa einu vertíð. Haustið 1930 var atvinnuástand í Hafnarfirði ískyggilegt. Kreppan var skollin á og Hellyers-útgerðin horfin úr bænum. Fyrirsjáanlegt var mikið atvinnuleysi nema eitthvað kæmi til. Þá var að undirlagi Alþýðuflokksmanna stofnuð Bæjarútgerð Hafnarfjarðar í febrúar 1931. Var það fyrsta bæjarútgerðin hér á landi, en mörg bæjarfélög hafa síðan tekið þátt í útgerð og fiskverkun með beinum hætti. Keyptur var togari og hann nefndur Maí og ennfremur fiskverkunarstöðin, Edinborgareignin, sem Flygering-feðgar áttu síðast. Þar með var bæjarútgerðin hlaupin af stokkunum.
Ásgeir G. Stefánsson var ráðinn framkvæmdastjóri og stjórnaði hann fyrirtækinu af mikilli röggsemi allt til ársins 1954.
Skipstjóri á Maí var ráðinn Benedikt Ögmundsson og stjórnaði hann skipum fyrir Bæjarútgerðina í þrjá áratugi, mikill aflamaður alla tíð. Bæjarútgerðin var stofnuð á erfiðum tíma í sjávarútveginum og var stofnfé hennar nær allt fengið að láni. Það þarf því engan að furða þó reksturinn skilaði ekki hagnaði í því árferði. En áfram var stefnt. Fiskverkunaraðstaða fyrirtækisins var illa nýtt með einum togara, svo fljótlega var reynt að auka skipastól þess, en gekk erfiðlega. Hins vegar minnkaði atvinnuleysi í bænum lítið og fór heldur vaxandi er á leið. Var þá reynt að ná í fleiri togara. Ásgeir G. Stefánsson stofnaði ásamt nokkrum sjómönnum samvinnufélag árið 1932 sem keypti togarann Njörð af Útvegsbankanum og tók að gera hann út undir nafninu Haukanes. Árið 1939 var félaginu slitið og stofnað hlutafélagið Vífill um rekstur togarans og nafninu breytt til samræmis. Togarinn lagði upp hjá Bæjarútgerðinni. Árið 1934 tókst Bæjarútgerðinni sjálfri að komast yfir annan togara og munaði þar mestu að Maí gerði góða sölu á ísfiski í Englandi og var þá hægt að ganga frá kaupum á togara þar í landi fyrir 150.000 kr. Var togarinn nefndur Júní. Enn voru uppi áform um að kaupa togara til bæjarútgerðarinnar 1938, en þá hafði fyrirtækið safnað svo skuldum að viðskiptabanki þess treystist ekki að lána því fyrir meiri fjárfestingum. Brugðu þá Alþýðuflokksmenn, sem höfðu alla stjórn þessa óskabarns síns með höndum, á það ráð að stofna hlutafélagið Hrafna Flóka og keyptu togara sem nefndur var Óli Garða.
Sífellt tap varð á bæjarútgerðinni árin 1931-1939 eða samtals 690 þús. kr. Þetta samsvaraði þreföldum útsvörum bæjarbúa árið 1939. En á sama tíma hafði fyrirtækið greitt í vinnulaun 2,8 milljónir króna, og hefur verið sagt að með atvinnurekstri sínum hafi fyrirtækið komið í veg fyrir fjárhagslegt hrun í bænum. Slíkt var ástandið á þessum erfiðu árum. En skjótt skipast veður í lofti og er heimsstyrjöldin síðari hófst haustið 1939 tók fiskverð að stíga á fiskmörkuðum í Evrópu og um veturinn urðu fyrstu roksölur togaranna í stríðinu. Næstu árin var mestallur fiskur seldur ísaður til Bretlands, og varð mikill hagnaður af allri togaraútgerð. Hagnaður bæjarútgerðarinnar árin 1940-1946 varð samtals 9 milljónir króna. Af þessu lagði fyrirtækið eina milljón fram til bátakaupa árið 1944 og voru smíðaðir átta bátar í samvinnu við bæjarútgerðina, þar af fimm í Hafnarfirði. Næstu árin varð aðalverkefnið að endurnýja togaraflota útgerðarinnar. Bæjarútgerðin keypti einn nýsköpunartogaranna árið 1947, og nefndist hann Júlí. Árið eftir strandaði Júní við Vestfirði. Í marz 1951 fékk B.Ú.H. enn nýjan togara og hlaut hann nafnið Júní. 1953 var keyptur togari frá Vestmannaeyjum og nefndur Ágúst. Þá var hætt að gera út gamla Maí og hann seldur úr landi. Apríl var svo keyptur frá Eskifirði árið 1960. Árið áður hafði útgerðin orðið fyrir sínu mesta áfalli er nýsköpunartogarinn Júlí fórst við Nýfundnaland með allri áhöfn. Nýr togari var smíðaður í Þýskalandi og kom hann 1960 og var nefndur Maí.

Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1986.

Flettingar í dag: 941
Gestir í dag: 399
Flettingar í gær: 952
Gestir í gær: 419
Samtals flettingar: 2388412
Samtals gestir: 621436
Tölur uppfærðar: 17.9.2021 18:48:30