08.03.2020 10:40

203. Gísli Jónsson GK 30. TFQY.

Vélskipið Gísli Jónsson GK 30 var smíðaður í Lubeck Travemunde í Vestur Þýskalandi árið 1960 fyrir Jón Gíslason útgerðarmann og fl. í Grindavík. 139 brl. 500 ha. MaK vél. Selt 29 október 1960, Búlandstindi hf á Djúpavogi, hét Sunnutindur SU 59. Skipið var lengt í Noregi 1966 og mældist þá 189 brl. Selt 14 janúar 1972, Glettingi hf í Þorlákshöfn, hét þá Jón á Hofi ÁR 42. Ný vél (1972) 830 ha. MWM vél. Skipið hét Sólveig ÁR 42 frá 4 september 1975, sömu eigendur. Selt 7 nóvember 1975, Sigurði hf í Stykkishólmi, hét Sigurður Sveinsson SH 36. Selt 1 desember 1976, Páli H Pálssyni og Ásgeir Lúðvíkssyni í Grindavík, hét Fjölnir GK 17. Selt 20 maí 1986, Dögun hf á Sauðárkróki, hét þá Röst SK 17. Talið ónýtt og tekið af skrá 17 október árið 1989. Skipið var tekið stuttu síðar í tog austur fyrir land og því síðan sökkt á Rauða torginu, um 80-100 sjómílur austur af Norðfjarðarhorni.


Vélskipið Gísli Jónsson GK 30 nýsmíðaður í Lubeck í Þýskalandi.            (C) Sveinn Þorsteinsson.

          Nýr bátur til Grindavíkur

Nýlega kom til Grindavíkur nýr 139,5 lesta stálbátur smíðaður í Vestur-Þýzkalandi. Heitir hann Gísli Jónsson GK 30, og eru eigendur þeir Guðjón, Jón og Óskar Gíslasynir og Sæmundur Jónsson. Báturinn fer á síldveiðar í næstu viku og verður Óskar Gíslason skipstjóri.

Morgunblaðið. 8 júlí 1960.


Vélskipið Sunnutindur SU 59 við bryggju á Djúpavogi.                       (C) Sveinn Þorsteinsson.

   Útgerð og aflabrögð á Djúpavogi

Á Djúpavogi var aðeins v/b "Sunnutindur" gerður út, en hóf ekki róðra fyrr en seint í mánuðinum. Þau tíðindi höfðu gerzt í mánuðinum að v/b "Sunnutindur" fyrri var seldur burt úr plássinu, og er þessi "Sunnutindur" nýr stálbátur 140 lesta, og er búinn öllum nýjustu tækjum til veiða og til öryggis. Hann fór aðeins einn túr og fékk 25 lestir. "Sunnutindur" hinn fyrri þótti of lítill til að stunda útilegu á haustin og vetrarverðtíðinni og var þess vegna seldur, og þessi nýi fenginn í staðinn. Engir minni bátar hafa stundað veiðar í mánuðinum.

Ægir. Desember 1960.


203. Fjölnir GK 17.                                                                   (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

          Nýr bátur til Grindavíkur

Síðastliðinn föstudag bættist í flota Grindavíkur 150 lesta stálbátur og nefnist hann Fjölnir GK 17. Var hann keyptur frá Stykkishólmi. Kaupendurnir eru Páll H. Pálsson og Ásgeir Lúðvíksson en skipstjóri verður Hjálmar Júllusson frá Þórkötlustöðum í Grindavik.

Morgunblaðið. 7 júlí 1976.

  Kaup á nýju skipi til rækjuveiða

Í rækjuvinnslunni Dögun h.f. á Sauðárkróki hefur nánast engin vinna verið frá því í janúar í vetur. Síðustu dagar eru þó undantekning en þá hefur verið unninn afli Hafborgarinnar frá Hofsósi sem aflað hefur mjög vel, 13 tonn í þremur róðrum. Nú hefur Dögun fest kaup á 152 tonna skipi sem fór á veiðar um helgina. Að sögn Garðars Sveins Árnasonar, framkvæmdastjóra, eru þessi kaup tilraun til að tryggja hráefni allt árið um kring, en rækjan hefur ekki fengist í firðinum í vetur. Skipið sem hér um ræðir heitir nú Röst SK 17 en hét áður Fjölnir GK 17. Það er smíðað í Þýskalandi 1960 og síðan stækkað 1966. Í skipinu er 810 hestafla MWN-vél sem er smíðuð árið 1972 og gírskiptiskrúfa, ljósavél og rafkerfi frá árinu 1984, en það ár var vélin yfirfarin. Verð skipsins, fullbúið til veiða, er 27 milljónir króna.
Skipinu fylgir 600 tonna fiskkvóti og sagðist Garðar Sveinn vonast til að samkomulag næðist við fiskvinnsluna og útgerðarfélagið um nýtingu kvótans á sem bestan hátt fyrir alla aðila. Sagðist hann þar hafa í huga að skipta við útgerðarfélagið, þannig að togarar félagsins nýttu þá daga, sem ekki nýttust að sóknarmarkinu, til rækjuveiða eins og veiðiskip á nokkrum öðrum stöðum hafa gert. Skipstjóri á Röst er Friðrik Friðriksson, alvanur rækjuskipstjóri. Sex manna áhöfn er á skipinu. Í sumar munu tíu til tólf manns hafa atvinnu af rækjuvinnslunni.

Dagur. 17 júní 1986.


203. Röst SK 17 til vinstri og Hilmir ll SU 177 að leggja af stað síðasta spölinn.                      (C) DV.

           Sökkt á Rauða torginu

Röst SK 17 "prýðir" ekki lengur höfnina á Sauðárkróki en skipið hafði legið þar við bryggju frá því á síðasta hausti að það missti haffærisskírteinið. Úreldingin hefur því tekið langan tíma og það var ekki fyrr en sl. mánudag að það var dregið út úr höfninni af Hilmi II. Ferðinni var heitið á "Rauða torgið" þar sem því var sökkt. Fjöldi fólks var mættur á bryggjuna á mánudag til að kveðja þetta happafley og ekki var laust við að tár læddust fram í augnkrókana á sumum. Það var rækjuverksmiðjan Dögun sem átti Röstina. Á stærri myndinni er Hilmir með Röst í drætti en á þeirri minni sjást þeir sem sem mættu á bryggjuna til að kveðja happafleyið.

Dagblaðið / Vísir. 5 október 1989.

.
Flettingar í dag: 222
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 426
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 2392266
Samtals gestir: 622007
Tölur uppfærðar: 21.9.2021 13:34:00