16.03.2020 13:38

483. Sunnutindur SU 59. TFEG.

Vélskipið Sunnutindur SU 59 var smíðaður hjá Gebr. Gehusenstedt K.G. í Bardenfleth í A-Þýskalandi árið 1957 fyrir Búlandstind hf (Þorsteinn Sveinsson og fl.) á Djúpavogi. 75 brl. 280 ha. MWM vél. Kom fyrst til heimahafnar hinn 8 febrúar sama ár. Skipið var selt 8 nóvember 1960, Búðanesi hf á Ísafirði, hét Guðný ÍS 266. Ný vél (1972) 425 ha. Caterpillar vél, 310 Kw. Aftur Ný vél (1981) 431 ha. Caterpillar vél, 317 Kw. Skipið var yfirbyggt árið 1985. Selt 15 júní 1992, Magnúsi Snorrasyni í Bolungarvík. Skutrenna var sett á skipið 1993. Dýri hf í Bolungarvík er skráður eigandi frá 10 janúar 1994, sama nafn og númer. Selt árið 2001, útgerðarfélaginu Gústa í Papey ehf á Höfn í Hornafirði, hét þá Gústi í Papey SF 188. Skipið sökk um 6 sjómílur suður af Langanesi 4 júní árið 2004 eftir að mikill leki kom af því. Áhöfninni, 3 mönnum, var bjargað um borð í togarann Árbak EA 5 frá Akureyri.


483. Sunnutindi SU 59 hleypt af stokkunum í Bardenfleth.                (C) Sveinn Þorsteinsson.

    Sunnutindi hleypt af stokkunum

Bremen, 20. jan. - Nýlega var hleypt af stokkunum í bænum Bardenfleth við Weser-fljót nýjum 75 smálesta fiskibát fyrir íslendinga. Hann hlaut nafnið Sunnutindur. Eigandi bátsins er Þorsteinn Sveinsson, Djúpavogi. Verður hann afhentur eigendum eftir hálfan mánuð og þannig ætlazt til að hann komist á vetrarvertíð við Ísland. Báturinn er 22,5 m langur, 5,62 m á breidd og hæð hans 2,7 m. Hann er smíðaður úr járni og er búinn radar-tækjum. - Hann hefur vistarverur fyrir 11 manns. Er knúinn 280 hestafla fjórgengisvél og getur náð 10,5 sjómílna hraða.

Morgunblaðið. 30 janúar 1957.


Sunnutindi SU 59 hleypt af stokkunum.                                                  (C) Sveinn Þorsteinsson.


Sunnutindur SU 59.                                      (C) Sveinn Þorsteinsson.

          Nýr bátur til Djúpavogs

Á föstudaginn var bættist Djúpavogsmönnum nýr fiskibátur, sem þann dag kom nýsmíðaður frá Þýzkalandi. Báturinn er 75 rúmlestir að stærð, byggður úr stáli. Hann er með 280 hestafla Mannheim-dísilvél og 23ja ha. ljósavél og búinn þeim siglingar- og öryggistækjum sem tíðkast á bátum af þessari stærð, þar á meðal fisksjá. En auk þess er báturinn búinn radartæki með 35 mílna sjónhring. Skipstjóri er Karl Kristjánsson, en alls verða skipverjar 11 talsins. Eigandi þessa nýja báts, sem hlotið hefur nafnið Sunnutindur, er hlutafélagið Búlandstindur á Djúpavogi. Báturinn, með öllum útbúnaði, mun kosta 1.7 millj. kr. Níels Ingvarsson, yfirfiskimatsmaður, var staddur á Djúpavogi þegar báturinn kom. Lætur hann mjög mikið yfir því hvað báturinn sé vandaður og fallegur. Telur hann Sunnutind taka hollenzku stálbátunum mjög fram.

Austurland. 15 febrúar 1957.


483. Guðný ÍS 266.                                                                                    (C) Tryggvi Sigurðsson.


483. Guðný ÍS 266. Líkan.                                                         (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

                     Nýr bátur

Í fyrra mánuði kom hingað til bæjarins 75 smálesta stálbátur, er hlotið hefur nafnið Guðný ÍS - 266. Eigandi bátsins er nýlega stofnað hlutafélag, Búðanes h.f. Félagið keypti bátinn frá Djúpavogi. Báturinn verður gerður út héðan úr bænum, og er hann þegar byrjaður róðra. Skipstjóri er Halldór Hermannsson. Framkvæmdastjóri félagsins er Baldur Jónsson.

Ísfirðingur. 6 desember 1960.


483. Gústi í Papey SF 188.                                                                   (C) Sverrir Aðalsteinsson.

              Sökk við Langanes
             þrír menn björguðust 

Leki kom að bátnum Gústa í Papey SF 188 um níuleytið í gærkvöldi. Báturinn sökk síðan um ellefuleytið um sex sjómílum suður af Langanesi. Björgunarsveitinni Pólstjörnunni á Raufarhöfn barst beiðni um að fara með dælur um borð í bátinn um tíuleytið. Björgunarsveitin lagði af stað á björgunarbátnum Gunnbjörgu og Bryndísi ÞH. Þrír menn voru í bátnum og var þeim bjargað af skipverjum á Árbaki EA 5, sem var á leið inn til Akureyrar. Að sögn Stefáns Sigurðssonar, skipstjóra á Árbaki EA 5, voru þeir á siglingu aðeins nokkrum sjómílum frá Gústa í Papey. Veður var ágætt, hæg norðaustanátt. "Við vorum einungis nokkrar mínútur á staðinn, og settum út slöngubát yfir til þeirra, og björguðum þeim yfir í bátinn til okkar um hálftíuleytið. Svo horfðum við á bátinn sökkva," sagði Stefán í samtali við Morgunblaðið.

Morgunblaðið. 5 júní 2004.


Flettingar í dag: 203
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 426
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 2392247
Samtals gestir: 622005
Tölur uppfærðar: 21.9.2021 12:55:01