30.03.2020 20:12

Loðna fryst um borð í frystitogaranum Barða NK 120 í Norðfjarðarhöfn í febrúar 1994.

Það var í febrúar árið 1994 að Síldarvinnslan hf í Neskaupstað ákvað að láta báða frystitogara sína, Barða NK 120 og Blæng NK 117 liggja í Norðfjarðarhöfn og frysta loðnu. Þetta var eitthvað nýtt og áhugavert fyrir okkur sjómennina, að standa vaktir við að frysta loðnu, en vera samt við bryggju í heimahöfn. Áhöfnin gekk sínar 6 tíma vaktir og oftast sváfu menn um borð á frívaktinni, þó að margir hafi farið heim því stutt var að fara. Þetta var stanslaus vinna allan sólarhringinn, slá úr tækjunum, binda öskjurnar saman og koma þeim fyrir í lestinni. Við hífðum körin með loðnunni um borð og tæmdum þau svo í móttökuna. Svona gekk þetta fyrir sig í á 3 viku. Svo var landað úr skipinu annan hvern dag. Virkilega skemmtilegur tími þó að það mætti tala um þrældóm. En við höfðum bara gott af þessu. Greinin hér að neðan og myndirnar birtust í Austurlandi 16 febrúar árið 1994.


Um borð í frystitogaranum Barða NK 120 í loðnufrystingu. Frá vinstri er síðuhöfundur, í miðið, Sveinn Benediktsson skipstjóri og Gísli Gylfason vélstjóri.     (C) Austurland / Elma Guðmundsdóttir.


Jón Hjörtur Jónsson matsveinn bakar lummur ofan í pungsveitta karlana eins og Elma orðaði það í texta með þessari mynd. Flott mynd af Jóni.      (C) Elma Guðmundsdóttir.


Frystitogarinn Barði NK 120 TFKL var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskin Fabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1979 fyrir Útgerðarfélagið Gunnvör hf á Ísafirði. 497 brl. 2.350 ha. Wichmann vél, 1.728 Kw. Hét þá Júlíus Geirmundsson ÍS 270. Togarinn var í eigu SVN í Neskaupstað frá árinu 1989, sá fjórði í röðinni sem bar nafnið Barði. Togarinn var seldur til Namibíu árið 2002.

     Loðnufrystingin ævintýri líkust

Það er líkast sem Austfirðingar séu haldnir loðnuæði þessa dagana og sagt er að Yen glampar séu í augum forsvarsmanna þeirra fyrirtækja sem mest frysta af loðnu þessa dagana. Reikna má með að meðalverð á kílói af frystri loðnu sé um 105 krónur, svo það er mikið í húfi. Mannafli frystihúsanna hefur margfaldast og þar af leiðandi fækkað verulega á atvinnuleysisskrám víða. Í Neskaupstað eru nú tvö fljótandi frystihús. Frysting hófst um borð í Blængi á mánudaginn en þá höfðu verið fryst um 100 tonn um borð í Barða eða rúmlega 20 tonn á sólarhring. Um borð í Blængi voru fryst 30 tonn fyrsta sólarhringinn. Um borð í báðum skipunum ganga áhafnirnar vaktir. Alls var búið að frysta um 650 tonn hjá Síldarvinnslunni á mánudaginn. Harðfrystihús Eskifjarðar leigði aðstöðu Þórs hf. til loðnufrystingar. Þar er afkastagetan um 20 tonn á sólarhring og 40 - 45 tonn í frystihúsinu. Á Eskifirði var búið að frysta á mánudaginn um 700 tonn.
Á Seyðisfirði er fryst hjá Dvergasteini og Strandarsíld og hafa þar verið fryst um 900 tonn. Á milli 70 og 80 manns ganga vaktir hjá Dvergasteini. Á Reyðarfirði var búið að frysta um 300 tonn á mánudaginn. Loðnan hefur verið nokkuð misjöfn eftir veiðisvæðum. Hrognafylling er 14.5 - 16% og hafa verið um 50 hrygnur í kílói. Sjómenn segja mikla loðnu við Hvalbak en aðalgangan er komin vestur fyrir Ingólfshófða. Nokkur norsk skip og grænlenska loðnuskipið Ammasat eru á veiðisvæðinu við Hvalbak. Norsku skipin eru í stærri kantinum eða um 2000 lestir hvert og eru þau flest búin að fylla sig.

Austurland. 16 febrúar 1994.


Flettingar í dag: 649
Gestir í dag: 51
Flettingar í gær: 906
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 719376
Samtals gestir: 53458
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 15:18:23