01.04.2020 16:31

64. Svala SU 7. TFBO.

Vélskipið Svala SU 7 var smíðað í Halsö í Svíþjóð árið 1939. Eik. 81 brl. 200 ha. June Munktell vél. Það voru Páll Oddgeirsson útgerðarmaður, Gunnar Marel Jónsson skipasmiður og Guðni Jóhannsson skipstjóri í Vestmannaeyjum sem keyptu bátinn frá Gautaborg í Svíþjóð í febrúar 1946, hét þá Heimaklettur VE 12. Skipið var selt 4 mars 1947, H.f. Heimakletti í Reykjavík, hét Heimaklettur RE 26. Selt 16 október 1953, Svölunni hf (Þórlindi Magnússyni skipstjóra og fl.) á Eskifirði, hét þá Svala SU 7. Ný vél (1955) 330 ha. GM vél. Selt 18 mars 1963, Svölunni hf á Fáskrúðsfirði, sama nafn og númer. Endurmælt árið 1965, mældist þá 102 brl. Selt sama ár, Halldóri Bjarnasyni í Reykjavík, hét Guðmundur góði RE 313. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 30 september árið 1967.


64. Svala SU 7.                                                             (C) Geir Hólm. / Ljósmyndasafn Eskifjarðar.


Heimaklettur RE 26 (frekar en VE 12) að landa síld á Siglufirði.             Ljósmyndari óþekktur.

      Nýr bátur til Vestmannaeyja

Síðastliðinn laugardag kom hingað til Eyja bátur, sem keyptur hafði verið hingað frá Sviþjóð. Eigendur bátsins eru þeir Gunnar Marel Jónsson skipasmíðameistari, Páll Oddgeirsson útgerðarmaður og Guðni Jóhannsson skipstjóri. Var frjettamönnum blaða og útvarps boðið í gær, ásamt fleiri gestum, að skoða skipið. Er það hið glæsilegasta. Skipið er keypt í Gautaborg fyrir 340.000 íslenskar krónur og er 84 smálestir að stærð með 200 hestafla June Munktell-vjel, og er ganghraði yfir 9 mílur. Skipið er raflýst. Mannabústaðir eru mjög rúmgóðir og vel úr garði gerðir. Er upphitun með miðstöðvarkyndingu, og yfirleitt má segja, að útbúnaður skipsins sje mjög fullkominn enda er skipið svo að segja nýtt, aðeins 5 ára. Skipið hlaut nafnið "Heimaklettur". Hafa eigendur í hyggju að nota það til fiskflutninga í vetur og á síld að sumri.

Morgunblaðið. 14 febrúar 1946.


Flettingar í dag: 1086
Gestir í dag: 355
Flettingar í gær: 846
Gestir í gær: 300
Samtals flettingar: 2025821
Samtals gestir: 517672
Tölur uppfærðar: 24.9.2020 16:10:47