03.04.2020 17:05

S.t. Trocadero GY 129 strandar austan Grindavíkur.

Það var aðfaranótt 6 september árið 1936 að fólk í Grindavík varð vart við togara sem strandað hafði rétt austan við bæinn. Reyndist þetta vera Grimsbytogarinn Trocadero GY 129. Var strandstaður skipsins töluvert langt frá landi og útilokað að koma taug um borð og heldur ekki mögulegt að fara þangað út á báti vegna dimmviðris og veðurs. Í birtingu sást til togarans og hafði hann þá borist nær landi. Slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík kom mjög fljótlega á staðinn, ákveðið að bíða birtingar og vonast að skipið ræki nær landinu. Þegar það gekk eftir, skutu þeir línu til hins strandaða skips og heppnaðist það í þriðju tilraun. Síðan voru skipsbrotsmennirnir dregnir til lands í björgunarstól þar til þeir voru allir 14 talsins komnir upp í fjöru.
Trocadero GY 129 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1902 fyrir Humber Steam trawling Co Kingston Upon-Hull. Hét fyrst Walter S. Bailey H 546. 244 brl. 1x3 triple expansion engine 63 n.h.p. power. Smíðanúmer 316. 38,1 m. á lengd, 6,7 m. á breidd. Togarinn var í eigu Line Fishing Co Ltd í Grimsby þegar hann strandaði. Trocadero eyðilagðist á strandstað.

Af ljósmyndunum af skipinu að dæma var Trocadero GY 129 enginn "línuveiðari", frekar 244 brl. botnvörpungur. Kannski hefur verið einhver "misskilningur" hjá mörlandanum um að ræða, því skipið var þá í eigu "Line Fishing" Co Ltd í Grimsby. Það væri þá vel í samræmi við flestar þær upplýsingar um strönd erlendra skipa hér við land á þessum tíma. Margar þeirra svo vitlausar að það tók út yfir allt það sem vitlaust var, þó vægt sé til orða tekið. !!


Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík að bjarga 14 skipverjum af togaranum Trocadero GY 129 frá Grimsby.   (C) Einar Einarsson.


S.t. Trocadero GY 129.                                                                  (C) James Cullen.


S.t. Walter S. Bailey H 546.                                                     (C) James Cullen.

      Enskur línuveiðari strandar                            í Grindavík
         Skipsmönnum 14 talsins                             bjargað á línu

Um klukkan 2 aðfaranótt sunnudags strandaði enskt línuveiðaskip, Trocadero frá Grimsby, suður í Grindavík. Það var utan til við þorpið í Grindavík, miðhverfið, sem skipið strandaði. Svarta myrkur var og talsverður stormur. Þegar þorpsbúar urðu strandsins varir fór björgunarsveitin út. Ekki var viðlit að koma út báti, vegna brims. Skipið var svo langt undan landi, að björgunarmenn treystu sjer ekki að skjóta út línu, enda var dimt. Tóku björgunarmenn því það ráð að bíða í fjörunni þar til að birti. Þegar birta tók sáu björgunarmenn úr landi að skipsmenn voru frammi á hvalbaknum, en ekki nein hætta á ferðum, þar sem sjór fór batnandi. Skipið var það langt undan landi, að erfitt var að draga menn á línu í land; var því afráðið að bíða enn um stund, því að skipið færðist altaf nær landinu. En nú virtust skipsmenn verða órólegir og tóku að skjóta línu frá borði, en drógu ekki til lands. Til þess að skipsmenn færu ekki að freista þess að fara að yfirgefa skipið og þar sem þeir virtust órólegir, var skotið til þeirra línu úr landi og hæfði hún skipið.
Var nú byrjað að draga mennina á land í björgunarstól. En þetta gekk fremur seint til að byrja með, því að vegalengdin var löng. Tókst þannig að bjarga öllum mönnunum, 14 talsins, á land og var því lokið um kl. 10.30 á sunnudagsmorgun. Skipbrotsmenn voru talsvert þjakaðir er þeir komu á land, því að þeir voru mikið í sjó í drættinum. Þeir hresstust þó fljótt, er þeir fengu aðhlynningu í landi. Skipið er 35 ára gamalt og lítil von til að það náist út.

Morgunblaðið. 8 september 1936.


Flettingar í dag: 1086
Gestir í dag: 355
Flettingar í gær: 846
Gestir í gær: 300
Samtals flettingar: 2025821
Samtals gestir: 517672
Tölur uppfærðar: 24.9.2020 16:10:47